Hoppa yfir valmynd
22. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Hannes Heimisson afhendir forseta Úkraínu trúnaðarbréf

Hannes Heimisson, sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu, og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. - mynd

Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Varsjá, afhenti í gær Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu. Athöfnin fór fram við kirkju heilgrar Soffíu í Kænugarði. Að lokinni athöfn átti sendiherrann tvíhliða fund með forsetanum.

Hannes bar Úkraínuforseta kveðju íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar og lýsti aðdáun á hugrekki og þrótti Úkraínumanna gegn innrás Rússlands. Greindi hann einnig frá því að mikil samstaða væri á Íslandi um stuðning við Úkraínu.

„Ísland mun leggja sérstaka rækt við samskipti við Úkraínu á næstu árum, enda ljóst að mjög umfangsmikil verkefni eru framundan. Ísland mun áfram leita leiða til þess að styðja við Úkraínu í samræmi við þeirra þarfir og okkar getu. Það er gleðilegt að sendiherra okkar hafi afhent trúnaðarbréf og mikilvægt skref í þá átt að styrkja tengsl milli þjóðanna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Hannes og Zelensky ræddu á fundi sínum um söguleg tengsl Íslands og Úkraínu og mikilvægi samstöðu með Úkraínu gagnvart innrásarstríði Rússlands. Þá greindi Hannes frá því að Ísland myndi leggja áherslu á að styrkja samskipti við Úkraínu á næstu árum og taka þátt í að styðja varnarbaráttu landsins og uppbyggingu. Hannes sagði að Ísland muni áfram styðja við Úkraínu með framlögum í tengslum við varnir landsins og mannúðarmál. Þessu til viðbótar sagði hann Ísland muni leggja áherslu á að styðja við málstað Úkraínu með pólitískum hætti ásamt því að efla viðskiptaleg og menningarleg tengsl milli landanna.

Í tilkynningu á vef úkraínskra stjórnvalda kemur fram að Zelensky hafi þakkað Íslandi fyrir stuðning við Úkraínu. Óskaði hann Íslandi til hamingju með formennsku í Evrópuráðinu og nýafstaðin leiðtogafund í Reykjavík. Í því samhengi tiltók hann sérstaklega stofnun tjónaskrárinnar sem er liður í að draga Rússland til ábyrgðar fyrir þann skaða sem innrás þeirra hefur valdið.

Ísland opnaði sendiráð í Póllandi á síðasta ári en auk Póllands eru Búlgaría, Rúmenía og Úkraína í umdæmi sendiráðsins. Áður var Úkraína á meðal umdæmisríkja sendiráðs Íslands í Helsinki. Nú þegar trúnaðarbréf hefur verið afhent getur Hannes formlega hafið störf sem sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu.

Sendiherrar fjögurra annarra ríkja gagnvart Úkraínu afhentu trúnaðarbréf í sömu athöfn.

  • Hannes Heimisson afhendir forseta Úkraínu trúnaðarbréf - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta