Hoppa yfir valmynd
5. júní 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 41/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 41/2019

Miðvikudaginn 5. júní 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. desember 2018 á umsókn kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 9. maí 2018 barst Tryggingastofnun frá NAV í Noregi athugun á umsókn kæranda um ellilífeyri á grundvelli EES-samningsins og reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (E202). Tryggingastofnun sendi NAV í kjölfarið vottorð um tryggingaferil kæranda á Íslandi (E205) og tilkynningu um ákvörðun varðandi umsókn um lífeyri (E210), dags. 3. desember 2018, þar sem fram kom að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum ellilífeyris. Tryggingastofnun synjaði kæranda jafnframt um ellilífeyri með bréfi til hennar, dagsettu sama dag, á þeim grundvelli að hún hefði aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi. Fram kemur að samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 þurfi kærandi að hafa verið með skráð lögheimili á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár til þess að öðlast rétt til ellilífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. janúar 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í kæru en ráða má af gögnum málsins að kærandi óski eftir að synjun Tryggingastofnunar um greiðslu ellilífeyris verði felld úr gildi og að ellilífeyrir verði veittur.

Í kæru segir að kærandi sæki um ellilífeyri vegna aldurs. Þá segir að snemma á starfsferlinum hafi kærandi unnið í eitt ár sem [...] á B. Kærandi hafi íslenska kennitölu og staðfestingu á starfssamningi frá vinnuveitanda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla,  að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 ár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt sé þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fái ellilífeyri, við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma.

Í 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa komi eftirfarandi fram varðandi trygginga- eða búsetutímabil sem séu skemmri en eitt ár:

„1. Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita   bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

    --- umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

          og

    --- þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merki hugtakið „tímabil „ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annað hvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Kærandi, sem sé norskur ríkisborgari með lögheimili í Noregi, hafi sótt um ellilífeyri hjá NAV í Noregi, sbr. umsókn, dags. 27. apríl 2018. Umsókn um ellilífeyri E202 ásamt búsetuupplýsingum E205 hafi verið sendar til Tryggingastofnunar þar sem kærandi gefi upp að hún hafi dvalið á Íslandi í umsókn sinni.

Þegar umsókn um ellilífeyri berist Tryggingastofnun frá NAV í Noregi þá sé könnuð búseta hér á landi auk þess sem fyrirspurn sé send til Greiðslustofu lífeyrissjóða varðandi greiðslu iðgjalda.  Skoðun á búsetu kæranda hér á landi hafi ekki skilað neinum árangri og kærandi hafi aldrei verið skráð með lögheimili á landinu samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Enn fremur hafi fyrirspurn til Greiðslustofu lífeyrissjóða skilað neikvæðri niðurstöðu og engar iðgjaldaupplýsingar séu skráðar á nafn kæranda. Því megi ætla að kærandi hafi fengið sín iðgjöld endurgreidd við flutning úr landi eins og framkvæmdin hafi verið fyrir gildistöku EES samningsins.

Ákvörðun varðandi umsókn um ellilífeyri hafi síðan verið send til NAV með formlegum hætti  á eyðublaði E205 þegar búsetuupplýsingar og iðgjaldaupplýsingar kæranda hafi legið fyrir. Í ákvörðun Tryggingastofnunar til NAV á vottorði E205, sem sé vottorð um tryggingatímabil á Íslandi, og E210, sem sé tilkynning um ákvörðun varðandi umsókn á lífeyri, dags. 3. desember 2018, komi fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði um rétt til ellilífeyris á Íslandi þar sem búseta kæranda nái ekki einu ári til þess að uppfylla rétt til töku á ellilífeyri, sbr. 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004. Tryggingastofnun hafi einnig sent kæranda bréf, dags. 3. desember 2018, um að eins árs búsetu þurfi til að réttur til ellilífeyris ávinnist og kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt um að hún hafi ekki verið skráð með lögheimili hjá Þjóðskrá Íslands. 

Formleg tilkynning frá NAV á formi E211 (ákvörðun réttinda) hafi síðan verið send Tryggingastofnun X2018 þar sem ákvörðun um lífeyrisréttindi kæranda séu  tilgreind. Samkvæmt vottorði E211 njóti kærandi fullra lífeyrisréttinda í Noregi.

Í gögnum málsins sé að finna bréf frá B, dags. X, þar sem vinnutímabil kæranda sé staðfest frá X til X. Vinnutímabilið sem sé vottað í bréfi frá B sé fyrir starfstímabil sem séu styttri en eitt ár og þar af leiðandi veiti þau ekki réttindi til lífeyris ein og sér, sbr. 57. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.

Í vottorði frá Greiðslustofu lífeyrissjóða sem Tryggingastofnun hafi aflað komi fram að iðgjaldaár hjá sjóðnum og hjá sjóðum sjóðfélaga séu engin. Iðgjöld hafi ekki verið greidd fyrir kæranda og staða kæranda sé á núlli hjá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Samkvæmt upplýsingum frá  Þjóðskrá hafi  kærandi  aldrei verið skráð með lögheimili á Íslandi og ekki heldur á því vinnutímabili sem gefið sé upp í bréfi frá B. Kærandi hafi síðan verið skráð með brottfelda kennitölu hjá Þjóðskrá.

Tryggingastofnun hafi skoðað og yfirfarið öll gögn í máli þessu og telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á ellilífeyri þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði til töku ellilífeyris hér á landi. Ákvörðunin sé í samræmi við 17. gr., sbr. 68. gr., laga um almannatryggingar og 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. desember 2018 á umsókn kæranda um ellilífeyri.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 17. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um sam­ræmingu almannatryggingakerfa sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Tryggingastofnun er þó heimilt að gera kröfu um að viðkomandi hafi að minnsta kosti verið búsettur á Íslandi í eitt ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004, sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

— umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

og

— þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merkir hugtakið „tímabil“ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annaðhvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, sem voru í gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin, er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.

Af gögnum frá Þjóðskrá verður ráðið að kærandi hafi aldrei verið skráð með lögheimili á Íslandi. Í kæru kemur fram að kærandi hafi starfað sem [...] á B í eitt ár. Kærandi hefur lagt fram gögn sem staðfesta að hún hafi unnið frá X til X á B. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði ráðið af framangreindum gögnum að kærandi hafi verið búsett á Íslandi í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, í að minnsta kosti eitt ár. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri er því staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta