Auglýsing vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars 2010
Samkvæmt lögum nr. 4/2010 skal dómsmála- og mannréttindaráðuneytið viku fyrir kjördag birta spurninguna sem lögð verður fyrir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010.
Spurningin er eftirfarandi:
Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar.
Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?
Svarkostirnir eru tveir:
Já, þau eiga að halda gildi
Nei, þau eiga að falla úr gildi
Þá er athygli kjósenda vakin á því að á vefsíðu Alþingis, www.althingi.is, undir dálkinum Efni um Icesave, geta þeir sem vilja kynna sér málið skoðað lög nr. 1/2010, frumvarp til laganna og öll skjöl varðandi meðferð málsins á Alþingi.
Enn fremur er kjósendum bent á vefsíðuna www.thjodaratkvaedi.is þar sem útskýrð eru í stuttu máli nokkur meginatriði er varða þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars, ástæður hennar og afleiðingar. Upplýsingarnar eru unnar af sjálfstæðum og hlutlausum aðila, Lagastofnun Háskóla Íslands, að beiðni dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu,
25. febrúar 2010