Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2018 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur EFTA við Indónesíu í höfn

Guðlaugur Þór Þórðarson undirritar yfirlýsingu um lok fríverslunarviðræðna við Indónesíu - myndEFTA

Ráðherrar frá EFTA-ríkjunum fjórum, Liechtenstein, Noregi, Sviss og Íslandi, komu saman til reglulegs haustfundar í Genf í dag til að ræða stöðu og horfur í alþjóðaviðskiptum og næstu skref í fríverslunarmálum. Á fundinum var undirrituð yfirlýsing um lok viðræðna EFTA og Indónesíu um fríverslunarsamning sem mun tryggja íslenskum útflytjendum greiðan aðgang að mörkuðum í þessu fjórða fjölmennasta ríki heims. 

Samningaviðræðum EFTA við Indónesíu lauk í upphafi mánaðar en þær höfðu staðið nær óslitið yfir frá 2010. Nýi fríverslunarsamningurinn tekur meðal annars til vöru- og þjónustuviðskipta, opinberra útboða, hugverkaréttinda og sjálfbærrar þróunar. Á meðal þeirra vöruflokka sem falla undir samninginn eru fisk- og sjávarafurðir, iðnaðar- og tæknivörur, sem og landbúnaðarafurðir. 

„Indónesía er ört vaxandi markaður með 260 milljónir íbúa og fríverslunarsamningur við þetta fjölmenna ríki hefur því í för með sér augljósan ávinning fyrir íslenska útflytjendur. Viðræðurnar tóku drjúgan tíma en niðurstaðan er líka ákaflega góð og því fagna ég þessum áfanga innilega,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Samanlögð vöruviðskipti Íslands og Indónesíu námu rúmum milljarði króna í fyrra.

EFTA fundur nóvember 2018
Frá vinstri: Henri Gétaz, frkvstj. EFTA, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein,  Johann N. Schneider-Amman, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss og Thorbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs. Mynd: EFTA

Á fundinum í Genf í dag ræddu ráðherrarnir einnig hvernig EFTA geti lagt áherslu á jöfn tækifæri karla og kvenna við gerð fríverslunarsamninga, en Ísland hefur haft frumkvæði að því að setja þessa athugun af stað innan EFTA. „Áhersla á jafnréttismál í tengslum við milliríkjaviðskipti hefur aukist á undanförnum árum, til dæmis hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO þar sem Ísland hefur verið í leiðandi hlutverki á þessu sviði. EFTA-ríkin eiga að vera í fararbroddi í þessum efnum og því mikilvægt að setja inn ákvæði um jafnréttismál í samningsmódel EFTA, eins og nú er verið að skoða. Það er einnig í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að við gerð slíkra samninga skuli sérstaklega horft til þess að efla mannréttindi, þar með talið réttindi kvenna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Ráðherrarnir fóru ennfremur yfir stöðu og horfur í yfirstandandi fríverslunarviðræðum og hvert skyldi stefna í þeim efnum. Einhugur var á fundinum um að halda áfram fríverslunarviðræðum við Indland, Víetnam, Malasíu og Mercosur-ríkin. Þá ræddu ráðherrarnir um hugsanlega uppfærslu á gildandi fríverslunarsamningum EFTA við Kanada, Chile og Mexíkó og möguleika á að hefja fríverslunarviðræður við Pakistan, Moldóvu og Kósovó í náinni framtíð. 

Þá var jafnframt undirrituð samstarfsyfirlýsing EFTA og Kósovo, sem markar fyrsta skrefið í átt að nánari efnahagssamvinnu þessara aðila, og uppfærsla á tvíhliða samningum við Ísrael um viðskipti með landbúnaðarafurðir. 

Ráðherrafundur EFTA er haldinn tvisvar á ári. Sumarfundur samtakanna var á Sauðárkróki í júní en haustfundurinn fer, venju samkvæmt, fram í Genf. Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sátu fundinn Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtentstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Johann N. Schneider-Amman, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.

EFTA ríkin hafa nú gert 28 fríverslunarsamninga við 39 ríki eða landssvæði og sex samstarfsyfirlýsingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta