Tveggja milljarða Samstarfssjóður háskóla settur á laggir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sett á laggir tveggja milljarða króna sjóð sem ætlað er að ýta undir öflugt samstarf allra háskóla á Íslandi. Allt að einum milljarði króna verður úthlutað strax á þessu ári, 2022, og sambærilegri upphæð árið 2023. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á næstu vikum.
Að sögn ráðherra er hinn nýi Samstarfssjóður liður í viðleitni ráðherra til að ýta undir nýsköpun og framfarir á þessu skólastigi. Öflugt samstarf sé forsenda aukinna gæða háskólanáms á Íslandi.
„Ísland er fámennt land og því hefur verið haldið fram að við séum of fá til að reka sjö háskóla. Ég hef hvatt skólana til að skoða aukið samstarf sín á milli og jafnvel sameiningar sem mér finnst mikilvægt að þeir eigi frumvæði að. Samstarf háskóla, þvert á landshluta og rekstrarform hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Ég vil sjá háskólana ganga enn lengra enda tel ég nánast útilokað að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema skólarnir taki höndum saman.“
Nám og kennsla geti farið fram í fleiri en einum skóla
Við úthlutun til sameiginlegra verkefna háskóla verður m.a. horft til eftirfarandi þátta:
- Samstarf um aukin gæði háskólanáms, ekki síst á meistara- og doktorsstigi, þar sem nemendur geta tekið í auknum mæli áfanga í fleiri en einum háskóla og kennarar kennt við fleiri en einn háskóla.
- Fjármögnun á þróun og innleiðingu sameiginlegrar innritunargáttar háskólanna í gegnum Island.is, líkt og kynnt var í ágúst.
- Aukið samstarf um stjórnsýslu og stoðþjónustu skólanna með það að markmiði að draga úr yfirbyggingu.
- Samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja um nýtingu rannsóknarinnviða.
- Samstarf um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum, meðal annars með áherslu á snjallvæðingu og færnibúðir sem létta á starfsnámi innan heilbrigðisstofnana og auðvelda fjölgun nemenda.
- Samstarf um fjölgun nemenda í menntavísindum, m.a. með áherslu á menntun leikskólakennara og aukið framboð fagháskólanáms.
- Samstarf um aukna áherslu á STEAM greinar, þ.e. vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði.
- Samstarf um nám óháð staðsetningu, ekki síst með aukinni áherslu á framboð fjarnáms.
- Samstarf um fjölgun erlendra stúdenta, m.a. með kennslu fleiri námsgreina á ensku með það að markmiði að fleiri erlendir nemendur geti lokið gráðunámi á Íslandi.
- Samstarf til eflingar íslensku og máltækni.
Háskólar sýni frumkvæði að samstarfsmöguleikum
Að sögn ráðherra er Samstarfssjóðurinn þegar fjármagnaður undir safnlið innan málefnasviðs 21 – Háskólastig í fjárlögum. Með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfssjóðinn verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður og efnt til samkeppni um umbótaverkefni í meira mæli en áður. Þess er vænst að háskólarnir sýni frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Þá mun Samstarfssjóðurinn styðja við áherslur ríkisstjórnarinnar um einföldun stofnanakerfisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara.