Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Jarðhitaskóli GRÓ útskrifar 26 nemendur frá þrettán löndum

Útskriftarnemar ásamt kennurum og starfsfólki. - mynd

Tuttugu og sex nemendur frá þrettán löndum í Afríku, Asíu og Suður Ameríku útskrifuðust úr sex mánaða námi Jarðhitaskóla GRÓ 14. nóvember síðastliðinn. Þetta er 45. nemendahópur Jarðhitaskólans en í fyrsta skipti í sögu skólans voru konur í meirihluta útskriftarnema, eða 14 konur og 12 karlar.

Bjarni Richter forstöðumaður Jarðhitaskóla GRÓ bauð gesti velkomna og flutti jafnframt ávarp til nemenda. Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, flutti nemendum kveðju utanríkisráðherra og þakkaði dr. Guðna Axelssyni, sem nýlega lét af störfum sem forstöðumaður Jarðhitaskóla GRÓ, fyrir framlag hans til skólans, en hann hefur síðustu þrjátíu ár komið að kennslu við skólann og tók við forstöðu hans þegar GRÓ var stofnað þann 1. janúar 2020. Antonio Abreu, sviðstjóri vistfræði og jarðvísinda innan UNESCO, flutti einnig ávarp til nemenda og Evelyne Mukami Wanyoike, frá Kenía, flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Hún sagði margar minningar standa upp úr og að öll fari þau aftur heim til sinna heimalanda reynslunni ríkari og með mikilvæga þekkingu í farteskinu. Þá flutti Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir, forstöðumaður eftirlits og þjálfunar hjá ÍSOR, einnig ávarp fyrir hönd hýsistofnunar. 

Jarðhitaskólinn er einn fjögurra skóla sem reknir eru undir hatti GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, þar sem íslenskri sérþekkingu, sem gegnir mikilvægu hlutverki við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, er miðlað til lágtekjuríkja. 

Starfsemi GRÓ, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Jarðhitaskóli GRÓ er starfræktur hjá ÍSOR, og tók til starfa árið 1979 en síðan þá hafa  816 nemar lokið námi við skólann og eru margir þeirra í lykilhlutverkum í sínum heimalöndum við þróun og nýtingu jarðhita. 

Alls hafa nú 1.767 nemendur útskrifast úr GRÓ skólunum fjórum. Þá hafa 110 fyrrverandi nemendur skólanna útskrifast úr meistaranámi og 23 úr doktorsnámi á skólastyrk frá GRÓ. Þar að auki hafa rúmlega fimm þúsund manns setið styttri námskeið á vegum skólanna fjögurra sem auk Jarðhitaskólans starfa á sviði sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta