Ernir til Eyja – flug tryggt fram á næsta ár
Innviðaráðuneytið, í samstarfi við Vestmannaeyjabæ, hefur samið við Flugfélagið Erni um flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja til 1. apríl á næsta ári. Farnar verða þrjár ferðir í viku, fram og til baka, þar af tvær sama vikudaginn. Fyrsta ferðin verður föstudaginn 16. desember.
Ekki hefur verið flogið á þessari flugleið á markaðslegum forsendum síðan árið 2020. Að mati ráðuneytisins er nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugleiðinni meðan að markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Einkum yfir hörðustu vetrarmánuðina þegar mestar líkur eru á því að veður hamli siglingum í Landeyjahöfn. Íbúar Vestmannaeyja munu geta nýtt sér Loftbrú sem veitir 40% afslátt af fargjaldi.
Hægt verður að framlengja samninginn við Flugfélagið Erni um tvær vikur í senn ef þörf krefur. Sömuleiðis má fella samninginn niður án fyrirvara hefjist áætlunarflug á markaðslegum forsendum að nýju innan gildistíma hans. Allar tekjur Flugfélagsins Ernis af miðasölu og vöruflutningum á flugleiðinni munu lækka greiðslur vegna samningsins.