Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 85/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli AA nr. 85/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, AA, dags. 24. janúar 2011, kemur fram að stofnunin hafi á fundi sínum þann 10. janúar 2011 fjallað um rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Ákveðið hafi verið að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans skv. 53. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi hóf afplánun refsingar þann 20. nóvember 2010, en hann staðfesti eigi að síður atvinnuleit í tvígang eftir það eða þann 22. nóvember og 22. desember 2010. Vinnumálastofnun ákvað að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. júní og mótt. 6. júní 2011.

 

2.

Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 3. júní 2011, en stimpluðu inn þann 6. júní 2011. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á fundi stofnunarinnar 10. janúar 2011 og tilkynnt kæranda  með bréfi, dags. 24. janúar 2011. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru AA til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta