Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sat fyrir svörum á þingi Norðurlandaráðs í Ósló

Úr þingsal Norðurlandaráðsþingsins. - myndStine Østby/Norden.org

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og félags- og vinnumarkaðsráðherra, sat fyrir svörum í dag á þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir í Ósló. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Guðmundur Ingi ávarpaði þingið því við upphaf fyrirspurnartíma samstarfsráðherranna. Þingmönnum á Norðurlandaráðsþinginu gafst síðan kostur á að beina fyrirspurnum til samstarfsráðherra Norðurlanda.

Opinbert samstarf norrænu þjóðanna fer fram innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, þar sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, eru aðilar. Norðurlandaráð er vettvangur þingmanna í þessu samstarfi og einn af hápunktum norrænna stjórnmála er Norðurlandaráðsþingið ár hvert. Ísland fer sem fyrr segir með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni en Noregur fer með formennsku í Norðurlandaráði í ár.

Stíf fundahöld í tengslum við þingið

Ráðherra fór af landi brott um helgina og dagskrá vikunnar hefur verið þéttskipuð. Þannig stýrði Guðmundur Ingi meðal annars á mánudag fundi samstarfsráðherra Norðurlanda, auk þess sem ráðherrarnir funduðu með forsætisnefnd Norðurlandaráðs æskunnar.

Í gær heimsóttu samstarfsráðherrarnir norrænar stofnanir í Ósló og funduðu með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Guðmundur Ingi ávarpaði þar nefndarmenn fyrir hönd samstarfsráðherranna. Þá sótti hann hádegisverðarboð í boði Haraldar 5. Noregskonungs og var viðstaddur þingsetningu Norðurlandaráðsþingsins auk þess sem í gærkvöldi fór fram  verðlaunaafhending Norðurlandaráðs.

Í morgun var á dagskrá fundur vestnorrænna samstarfsráðherra með forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins. Guðmundur Ingi sótti síðan fund um samgöngumál hjá norrænu hagvaxtar- og þróunarnefnd Norðurlandaráðs og flutti þinginu fyrir hönd forsætisráðherra skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.

Á morgun, fimmtudag, mun ráðherra flytja þinginu skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf á sviði félags- og heilbrigðismála og um norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks.

Guðmundur Ingi í fyrirspurnatímanum á Norðurlandaráðsþinginu í dag

Um Norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland hefur farið með formennsku í nefndinni á árinu 2023 og leitt samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta