Áhersla á loftslag, landslag og lýðheilsu í nýrri tillögu Skipulagsstofnunar
Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, afhenti í dag Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögu stofnunarinnar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026.
Skipulagsstofnun var falið árið 2018 að vinna að breytingum á Landskipulagsstefnu á grundvelli áherslna sem ráðherra setti um meginviðfangsefni hennar. Tillagan sem afhent var í dag, byggir á framangreindum áherslum og að afloknu umfangsmiklu samráðs- og kynningaferli.
20 mínútna bærinn og grænir innviðir
Í tillögu Skipulagsstofnunnar er áhersla lögð á kolefnishlutleysi, eflingu viðnámsþróttar byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga, gæði landslags og sérkenni náttúru og heilsu og vellíðan almennings. Tilmælum er beint til sveitarfélaga í stefnunni og gert ráð fyrir aðgerðum af þeirra hálfu. Í tillögunni er gert ráð fyrir að sveitarfélög marki sér stefnu um loftslagsmál í skipulagi, að ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar taki mið af gæðum sem felast í landslagi og að við skipulagsgerð verði leitast við að skapa heilnæmt umhverfi sem hvetur til hollra lífshátta.
Dæmi um slíkt er hugmyndin um 20 mínútna bæinn, sem getur í senn stuðlað að loftslagsvænum samgöngum, fjölbreyttum og lifandi bæjarrýmum og aukinni hreyfingu í daglegu lífi. Einnig má nefna áherslu á græna innviði, sem auk þess að stuðla að bindingu kolefnis og viðnámsþrótti gegn loftslagsáhrifum geta fegrað og bætt umhverfið og hvatt til útivistar og hreyfingar. Í tillögunni hefur stefna um haf- og strandsvæði jafnframt verið uppfærð með hliðsjón af nýjum lögum um skipulag haf- og strandsvæða.
Víðtækt samráð
Mótun tillögunnar hefur farið fram í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Jafnframt hefur verið leitast við að tryggja almenningi möguleika á að fylgjast með mótun stefnunnar og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Starfræktur hefur verið samráðsvettvangur um mótun stefnunnar auk þess sem sérstök ráðgjafarnefnd skipuð fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun tillögunnar.
Samræmd stefnumótun ríkis og sveitarfélaga
Landsskipulagsstefna er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál til 12 ára og var hún samþykkt á Alþingi 2016. Í henni er er sett fram stefna um skipulagsmál í dreifbýli og þéttbýli, á miðhálendinu og haf- og strandsvæðum
Landsskipulagsstefnu er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun sem og samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu.
Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur nú tillögu Skipulagsstofnunar til skoðunar og gert er ráð fyrir að stefnan verði lögð fram sem þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu á Alþingi á yfirstandandi þingi.
„Það er spennandi að fá afraksturinn af þessari vinnu í hendurnar“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með þessum viðaukum hefur fókusinn verið settur á hlutverk skipulags í að ná árangri í loftslagsmálum, hvort sem horft er til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða efla aðlögun að loftslagsbreytingum. Ég er líka mjög ánægður að sjá útfærslu á áherslum um lýðheilsu sem ég tel að muni skipta stórauknu máli á komandi áratugum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Í heildina á sú stefna sem hér er lögð fram að geta aukið lífsgæði okkar til framtíðar litið.“