Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2022 Innviðaráðuneytið

35 þúsund nýjar íbúðir skapa langþráð jafnvægi á húsnæðismarkaði

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleirum undir rammasamninginn. - myndMynd/Birgir Breiðfjörð

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti í dag markmið um aukið framboð af húsnæði á næstu árum. Í máli hans kom fram að byggja þarf um 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum. Fram til þessa hefur vantað skýra sýn hversu margar íbúðir þarf að byggja á hverju ári. Í fyrsta sinn hafa ríki og sveitarfélög gert með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til tíu ára, 2023-2032.

Rammasamningur þess efnis var undirritaður í dag og markar tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar. Þar sammælast ríki og sveitarfélög um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal. fyrir fólk með lægri tekjur og minni eignir.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleirum undir rammasamninginn. Samningurinn byggir m.a. á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí sl., og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Afleiðingar þessara sveiflna eru meðal annars þær að kynslóðir fyrstu kaupenda eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað. Staðan kallar á samstillt átak og ég fagna því að ríki og sveitarfélög hafi nú náð saman um sameiginlega sýn á mikilvægustu verkefnin framundan. Ljóst er að byggja þarf 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að ríki og sveitarfélög hafa sammælst um að af heildaruppbyggingunni skuli 30% vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Sérstök áhersla verður því á að byggja ríflega 12 þúsund hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði.“ 

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Þetta er mikilvægur áfangi í nauðsynlegri vegferð okkar að tryggja nægt lóðaframboð sem mætir þeirri miklu eftirspurn eftir fjölbreyttu íbúðarhúsnæði sem nú er fyrir hendi og fyrirsjáanleg er næstu árin. Við verðum að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær sveiflur sem ógna stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Næstu skref verða að sveitarfélögin sjálf munu nú gera samninga við ríkið á grundvelli þessa rammasamnings þar sem vænta má fjárstuðning frá ríkinu til að tryggja nægt lóðaframboð á þeirra vegum með tilheyrandi innviðauppbyggingu. Sambandið mun styðja við þá samningsgerð og fylgja eftir í góðri samvinnu við HMS þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti þessa rammasamnings.“ 

Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Þessi rammasamningur markar tímamót á húsnæðismarkaði á Íslandi þar sem ríki og sveitarfélög um land allt sameinast um áætlun um húsnæðisuppbyggingu til lengri tíma. Vönduð áætlanagerð og eftirfylgni með rauntímaupplýsingum er forsenda þess að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði. Við hjá HMS hlökkum til að eiga í framhaldinu gott samstarf við sveitarfélögin um þetta mikilvæga mál sem snertir hvert heimili á landinu og allir geta tengt við með einum eða öðrum hætti.“

Meginmarkmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga

Í samningnum eru sett fram fjögur meginmarkmið en hverju þeirra fylgja skilgreindar aðgerðir, alls 24 í aðgerðaáætlun sem fylgir samningnum.

1. Uppbygging í samræmi við þörf 

Ríki og sveitarfélög sammælast um það að byggja þurfi 35.000 íbúðir til þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á árunum 2023 til 2032 en einnig til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf. Á tímabilinu þurfi því að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin.

2. Framboð íbúða á viðráðanlegu verði

Ríki og sveitarfélög sammælast einnig um sérstaka áherslu á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða. Markmið þess er að mæta þörfum ýmissa samfélagshópa, s.s. leigjenda, fyrstu kaupenda og fólks sem er tekju- og eignaminna. 

Þá er sammælst um að á samningstímanum verði félagsleg húsnæðisúrræði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði. Með félagslegu húsnæðisúrræði er átt við íbúðir sem sveitarfélagi ber lagaleg skylda til að útvega einstaklingum eða fjölskyldum.

Loks er kveðið á um það að ráðist verði í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Með sértæku húsnæðisúrræði er átt við íbúðir ætlaðar fyrir fatlað fólk sem hefur verið metið í mikilli þörf fyrir stuðning á eigin heimili.

3. Húsnæðisáætlanir lykilstjórntæki

Stafrænar húsnæðisáætlanir verða lykilstjórntæki ríkisins og sveitarfélaga til að halda utan um markmið um uppbyggingu íbúða á landsvísu. Ein grundvallarforsenda samningsins er að sveitarfélög taki þátt og hlutist til um að útvega byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir og að ríkið leggi til fjármuni í húsnæðisstuðning til þess að unnt sé að ná markmiðum á samningstímanum.

HMS mun vinna að gerð húsnæðisáætlana með sveitarfélögum um land allt. Gerðir verða samningar við einstök sveitarfélög með það að markmiði að auka lóðaframboð ásamt því að veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.

4. Einn ferill um húsnæðisuppbyggingu

Ríki og sveitarfélög sammælast loks um að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðahúsnæði. Lögð er áhersla á að sameiginlegt meginmarkmið löggjafar verði að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að öruggu húsnæði.

Í samningnum segir að með því að samþætta marga ferla í einn megi öðlast betri yfirsýn, áætlunargerð verði markvissari og auka megi hagkvæmni, sem til framtíðar leiði til aukins stöðugleika á húsnæðismarkaði.

Fjölbreyttar aðgerðir

Settar eru fram 24 aðgerðir í aðgerðaáætlun með samningnum. Dæmi um aðgerðir eru:

  • Frumvarp lagt fram um breytingar á skipulagslögum á haustþingi 2022, m.a. til að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði óháð eignarhaldi lóðar. (A6)
  • Átak gert til að útrýma óviðunandi húsnæði, m.a. á atvinnusvæðum og  íbúðarhúsnæði þar sem kröfur um öryggi eru ekki uppfylltar. (C5)
  • Ferlar við gerð deiliskipulags og veitingu byggingarleyfis verði samþættir. (D2)
  • Ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana verði samþættir. (D3)
  • Frumvarp samið um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags. (D6)

Nánari upplýsingar:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnir rammasamninginn á kynningarfundi hjá HMS í dag. - mynd
  • Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnir rammasamninginn á kynningarfundi hjá HMS í dag. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta