Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vottorð verður skilyrði fyrir dreifingu alifuglakjöts

Í því skyni að efla matvælaöryggi enn frekar og standa vörð um lýðheilsu hefur Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritað nýja reglugerð um vöktun á kampýlóbakter í alifuglum og alifuglakjöti. Í reglugerðinni eru settar nákvæmar reglur um vöktun á kampýlóbakter í því skyni að draga úr þeirri hættu sem kampýlóbakter getur valdið.

Í reglugerðinni er meðal annars að finna nánari útfærslu á lagaákvæði sem Alþingi samþykkti í júní sl. þess efnis að frá 1. janúar nk. verði óheimilt að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifuglakjöts á markaði nema sýnt sé fram á að kjötið sé frá eldishópum sem ekki eru sýktir af kampýlóbakter. Þannig verður gerð krafa um að slíkum vörum fylgi alltaf vottorð sem sýnir fram á að afurðin sé laus við kampýlóbakter. Með því er jafnframt tryggt að sömu kröfur eru gerðar til innlendrar framleiðslu og alifuglakjöts sem er innflutt.

Drög að reglugerðinni voru birt á Samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 4.-18. september sl. en engar athugasemdir bárust.

Nýja reglugerðin er unnin í samræmi við aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta