Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2024

Þingsetning og stefnuáherslur VdL til næstu fimm ára

 Að þessu sinni er fjallað um:

  • setningu Evrópuþingsins
  • stefnuáætlun leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB)
  • stefnuáherslur Ursulu von der Leyen (VdL)

Hlé verður nú gert á útgáfu Vaktarinnar vegna sumarleyfa og kemur Vaktin næst út um miðjan september.

Setning Evrópuþingsins

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Almennt
  • Breytingar á skipan þingflokka
  • Kjör forseta Evrópuþingsins og yfirstjórnar þingsins.
  • Forsætisnefnd þingsins
  • Skipan þingnefnda
  • Endurkjör VdL og næstu skref við skipun nýrrar framkvæmdastjórnar

Almennt

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni að undanförnu fóru kosningar til Evrópuþingsins fram dagana 6.–9. júní sl. Frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir hafa viðræður staðið yfir á milli leiðtoga ESB og ráðandi afla í þinginu um það hvernig skipað verði í æðstu stöður ESB á nýju tímabili, þar á meðal í ýmsar valdastöður í þinginu og jafnframt hvernig haga skuli stefnumótun af hálfu ESB til næstu fimm ára.

Nýkjörið Evrópuþing, hið tíunda í röðinni, var síðan sett í síðustu viku, 16. júlí, og voru fyrstu verkefni þingsins að kjósa í helstu stöður og koma skipulagi á störf þingsins.

Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir helstu niðurstöðum um kjör í embætti og um skipulag þingsins.

Breytingar á skipan þingflokka

Í aðdraganda þingsetningar dró til nokkurra tíðinda þegar tilkynnt var um breytingar á skipulagi þingflokka á hægri væng þingsins. Frá því að úrslit kosninganna voru ljós, þar sem flokkar sem skilgreindir eru lengst til hægri á hinu pólitíska litrófi juku fylgi sitt nokkuð, hefur legið í loftinu að einhverjar breytingar kynnu að verða á skipan þingflokka á þeim væng stjórnmálanna. Eftir ýmsar þreifingar fór svo að lokum að þingflokkur evrópsku stjórnmálasamtakanna Identity and Democracy Party (ID), eða stærstur hluti hans, varð hluti af nýjum þingflokki sem ber nafnið Patriots for Europe Group (PfE) en auk þingmanna ID, þar á meðal 30 þingmenn Þjóðernisfylkingar Le Pen í Frakklandi, gengu 11 þingmenn flokks Viktor Orbán, Fidesz, í Ungverjalandi, sem tilheyrt hafa evrópsku stjórnmálasamtökunum European Conservatives and Reformists (ECR) til liðs við hinn nýja þingflokk sem og allir fjórir þingmenn evrópsku stjórnmálasamtakanna European Christian Political Movement (ECPM). Samanlagt hefur hinn nýi þingflokkur á að skipa 84 þingmönnum sem gerir flokkinn að þriðja stærsta þingflokki Evrópuþingsins á eftir þingflokki EPP (European People‘s Party) sem hefur 188 þingmenn og þingflokki S&D (Group of the Progressive Alliance of Socialists and Democrats in the European Parliament) sem hefur 136 þingmenn. Framangreint voru ekki einu breytingarnar sem urðu á þingflokkaskipan því auk PfE varð til annar nýr þingflokkur á hægri kantinum. Þingflokkur sá sem fengið hefur heitið Europe of Sovereign Nations (ESN) er í raun klofningur úr röðum ID en uppistaðan í flokknum eru 14 þingmenn hins umdeilda hægri öfgaflokks í Þýskalandi Alternative for Germany (AfD) en samtals telur þingflokkurinn 25 þingmenn frá átta aðildarríkjum og er þingflokkurinn sá fámennasti á þinginu og rétt yfir lágmarkinu til að teljast þingflokkur. Þingflokkur evrópsku stjórnmálasamtakanna European Conservatives and Reformists (ECR) undir forustu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, sem einnig er skilgreindur harðlínu hægri flokkur en þó hófsamari en föðurlandsvinirnir bætti einnig við sig þingmönnum í nýafstöðnum kosningum, hefur nú 78 þingmenn og er fjórði stærsti þingflokkurinn. Þingflokkar lengst til hægri á þinginu eru því nú þrír talsins í stað tveggja áður, sem dregur kannski meira en annað fram þá innbyrðis sundrungu sem lengi hefur loðað við harðlínuflokka af þessu tagi, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni 31. maí sl. þar sem fjallað var um hægri sveifluna og stöðu flokkanna lengst til hægri. Þannig hefur valdastaða og áhrif harðlínuaflanna á Evrópuþinginu í raun lítið breyst eftir kosningarnar – þrátt fyrir fylgisaukningu, svo sem vikið er að að neðan.

Kjör forseta Evrópuþingsins og yfirstjórnar þingsins

Fyrsta verkefni þingmanna var að kjósa forseta þingsins. Legið hafði fyrir að Roberta Metsola myndi bjóða sig fram til áframhaldandi setu á stóli forseta og jafnframt hafði legið fyrir að hún hefði til þess stuðning meiri hluta leiðtogaráðs ESB og þingflokka meiri hlutans á þinginu a.m.k., sbr. umfjöllun í Vaktinni 28. júní sl. þar sem fjallað er um skipanir í æðstu embætti ESB. Skemmst er frá því að segja að Metsola hlaut afgerandi kosningu í embættið eða 562 atkvæði af þeim 699 atkvæðum sem greidd voru og því réttkjörin forseti til næstu tveggja og hálfs árs. Einn þingmaður bauð sig fram til málamynda á móti henni, þ.e. Irene Montero varaformaður þingflokks The Left og hlaut hún 61 atkvæði.

Jafnframt voru kjörnir 14 varaforsetar þingsins og fimm quaestorar sem saman mynda ásamt forseta yfirstjórn skrifstofu þingsins (e. Bureau of the European Parliament) sem sér um fjárhagsmálefni þingsins, starfsmannahald o.fl. Sjá hér lista yfir þá sem kjörnir voru í yfirstjórn skrifstofu þingsins til næstu tveggja og hálfs árs. Hér vekur athygli, enda þótt það komi í sjálfu sér ekki á óvart, að nýju þingflokkarnir tveir á hægri vængnum sem fjallað er um hér að framan, þ.e. PfE og ESN, eiga enga fulltrúa í yfirstjórn þingsins, öfugt við hinn hófsamari ECR, sem Meloni stýrir, sem fékk tvo fulltrúa kjörna.

Forsætisnefnd þingsins

Varast ber að rugla framangreindri yfirstjórn þingsins saman við forsætisnefnd þingsins (e. Conference of Presidents) sem saman stendur af forseta þingsins annars vegar og formönnum þingflokka hins vegar, sjá hér lista yfir þá sem skipa nefndina. Forsætisnefndin, sem í vissum skilningi er valdamesta nefnd þingsins, hefur það hlutverk að skipuleggja þinghaldið og ákveða dagskrá þingfunda á hverjum tíma auk þess sem nefndin hefur ákveðið hlutverk við skipulagningu og mönnun þingnefnda og sendinefnda þingsins auk þess sem nefndin heldur utan um samskipti við aðrar stofnanir ESB og þjóðþing aðildarríkjanna og annarra ríkja jafnframt. Ákvarðanir í nefndinni eru teknar samhljóða eða eftir atvikum með atkvæðagreiðslum þar sem vægi atkvæða formanna þingflokka tekur mið af hlutfallslegum styrk þingflokka þeirra.

Skipan þingnefnda

Skipan í nefndir þingsins er ákveðin með þeim hætti að þingið greiðir atkvæði um tillögu forsætisnefndar um hversu margir þingmenn skuli eiga sæti í hverri fastanefnd þingsins og undirnefndum. Fastanefndir þingsins eru 20 talsins auk þess sem fjórar undirnefndir eru starfræktar, en þar að auki eru starfandi 48 sendinefndir á vettvangi þingsins. Greidd voru atkvæði um fjölda þingmanna sem sitja skuli í hverri fastanefnd og undirnefnd þann 17. júlí sl. og var tillaga forsætisnefndar samþykkt, sbr. hér. Að fenginni niðurstöðu um fjölda þingmanna í hverri nefnd kemur það í hlut þingflokka að tilnefna fulltrúa til setu í nefndunum fyrir sína hönd í hverja nefnd og ræðst fjöldi fulltrúa hvers þingflokks af hlutfallslegum þingstyrk. Voru tilnefningar þingflokka tilkynntar og staðfestar í þinginu 19. júlí sl. en nálgast má upplýsingar um skipan í hverja nefnd fyrir sig á vefsíðum nefndanna. Fyrsti fundur í þingnefndum fór síðan fram síðastliðinn þriðjudag, 23. júlí, þar sem nefndirnar kusu sér hver um sig formann og fjóra varaformenn úr sínum röðum. Sjá hér yfirlit yfir þá sem fengu kosningu sem formenn og varaformenn í nefndunum. Hér vekur athygli líkt og á við um kjör yfirstjórnar þingsins að nýju harðlínu þingflokkarnir tveir á hægri vængnum sem fjallað er um hér að framan, þ.e. PfE og ESN, eiga enga fulltrúa í framangreindum forustusveitum þingnefndanna, öfugt við hin hófsamari harðlínu öfl í ECR sem fær þrjú formannssæti í sinn hlut sem og 10 varaformannssæti. Er ljóst að þingflokkar meiri hlutans hafi sammælst um að útiloka þingmenn PfE og ESN frá embættum.

Nefnd formanna fastanefnda (e. Conference of Committee Chairs) fundar reglulega til að efla samvinnu og samræma störf nefndanna. Þá getur nefndin jafnframt komið á framfæri tillögum til forsætisnefndar um skipulag þinghaldsins og veitt ráðleggingar þegar skiptar skoðanir eru á því til hvaða nefndar einstök mál skuli ganga.

Endurkjör VdL og næstu skref við skipun nýrrar framkvæmdastjórnar

Eins og fjallað var um í Vaktinni 28. júní sl. þá hlaut Ursula von der Leyen (VdL) tilnefningu leiðtogaráðs ESB á fundi ráðsins 27. júní sl. til áframhaldandi setu á stóli forseta framkvæmdastjórnar ESB til næstu fimm ára. Skipan hennar var þó háð samþykki Evrópuþingsins og fór atkvæðagreiðsla um það fram í þinginu fimmtudaginn 18. júlí sl. Þrátt fyrir að nokkur spenna hafi verið í loftinu og að ýmsir teldu að kjör hennar gæti staðið tæpt fór það svo að hún fékk örugga kosningu í embættið eða 401 atkvæði eða 40 atkvæðum meira en nægt hefði til að ná kjöri. Er það mun betri kosning en hún fékk árið 2019. Atkvæðagreiðslan var eins og kunnugt er leynileg því er ekki unnt að segja með vissu hvaða þingmenn nákvæmlega greiddu henni atkvæði sitt en þó er talið að auk þingmanna úr þingflokkum meiri hlutans með einhverjum afföllum, hafi flestir þingmenn úr þingflokki græningja ákveðið að styðja VdL. Hvort einhverjir þingmenn úr þingflokki ECR hafi einnig ákveðið að styðja VdL í kjörinu er óljósara en flokkurinn gaf það út fyrir kosninguna að þingmenn hans gengju óbundnir til kjörsins. VdL fundaði með öllum þingflokkum í aðdraganda kjörsins og gerði grein fyrir stefnuáherslum sínum. Henni hlýtur þó að hafa verið nokkur vandi á höndum enda höfðu S&D gefið út fyrir kosninguna að þeir myndu hverfa frá stuðningi við hana ef hún biðlaði beint um stuðning til hægri harðlínu aflanna, þ. á m. flokks Meloni, ECR, og sama á við um EPP, hennar eiginn flokk, ef hún myndi lofa Græningjum of miklu.

Áður en til atkvæðagreiðslunnar kom flutti VdL ávarp, eða framboðsræðu, í þinginu og fóru fram umræður um ræðuna í kjölfarið. Samhliða birti VdL einnig stefnuáherslur sínar (e. Political Guidelines) til næstu fimm ára. Eins og rakið er í umfjöllun Vaktarinnar 17. maí sl. um stefnumörkun ESB til næstu fimm ára, þá er útgáfa á stefnuáherslum tilnefnds forseta framkvæmdastjórnar ESB mikilvægt skref í mótun nýrrar heildarstefnumörkunar fyrir ESB. Gert er ráð fyrir því, eðli málsins samkvæmt, að stefnuáherslur tilnefnds forseta séu reistar á grunni stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB sem samþykkt var í leiðtogaráðinu á sama fundi og VdL var tilnefnd, sbr. umfjöllun í Vaktinni 28. júní sl. um fund leiðtogaráðsins.

Hér á eftir er í fyrsta lagi gerð nánari grein fyrir innihaldi stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB og í framhaldi af því fjallað ítarlega um stefnuáherslur VdL. Endanleg heildarstefnumörkun og starfsáætlun af hálfu nýrrar framkvæmdastjórnar verður þó ekki ljós fyrr en stjórnin hefur verið fullskipuð og þegar hún tekur til starfa undir lok árs.

Næstu skref við skipun framkvæmdastjórnar ESB eru eftirfarandi:

  • VdL, sem kjörinn forseti til næstu fimm ára, sendir ríkisstjórnum aðildarríkjanna bréf þar sem hún óskar formlega eftir því að ríkin, í samráði við hana, tilnefni einstakling til setu í nýrri framkvæmdastjórn. Óskað er eftir því að ríkin tilnefni bæði karl og konu og á það við í öllum tilvikum nema ef ríkin hyggjast tilnefna einstakling sem á sæti í núverandi framkvæmdastjórn til áframhaldandi setu. Krafan um að tilnefnd séu bæði karl og kona er gerð í því augnamiði að unnt sé að tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í nýrri framkvæmdastjórn. Þess ber þó að geta að það verður ekki leitt af sáttmálum ESB að aðildarríkjunum sé beinlínis skylt að verða við ósk kjörins forseta um að tilnefna bæði karl og konu. Þannig hefur forsætisráðherra Írlands t.d. þegar tilkynnt að stjórnvöld þar hyggist einungis að þessu sinni tilnefna einn einstakling, þ.e. núverandi efnahagsráðherra landsins, Michael McGrath. Eftir á að koma í ljóst hvort því verði haldið til streitu í ferlinu sem er framundan.
  • Það er síðan í verkahring VdL að stilla upp tillögu að mönnun nýrrar framkvæmdastjórnar og jafnframt hvernig verkum er skipt á milli þeirra. Þetta gerir hún í nánu samráði við ríkisstjórnir aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB, sem þarf að samþykkja tillögu VdL áður en hún er send Evrópuþinginu til umfjöllunar. Föst venja er að framkvæmdastjórnin sé skipuð einum einstaklingi frá hverju aðildarríki, en það er þó ekki nauðsynlegt samkvæmt sáttmálum ESB. Meðlimir framkvæmastjórnarinnar gætu m.ö.o. verið færri ef pólitískt samkomulag tækist um það. Ný framkvæmdastjórn verður þannig væntanlega skipuð 27 framkvæmastjórum að meðtaldri VdL sjálfri, sem kemur frá Þýskalandi, og Kaju Kallas, sem þegar hefur verið tilnefnd af leiðtogaráðinu sem nýr utanríkismálastjóri ESB, og kemur frá Eistlandi.
  • Samþykkt tillaga að skipan nýrrar framkvæmdastjórnar í heild sinni og verkaskiptingu á milli framkvæmdastjóraefna er síðan lögð fyrir Evrópuþingið til samþykktar. Evrópuþingið efnir til sérstakrar málsmeðferðar til að meta tillöguna og hæfni framkvæmdastjóraefnanna og eru þau boðuð á fundi í þingnefndum þar sem þingmönnum gefst kostur á a spyrja tilnefnda framkvæmdastjóra spjörunum úr. Að lokinni málsmeðferð gefa nefndir þingsins út álit eða mat á tillögunni og loks eru greidd atkvæði um hana. Þingið, eða þingnefndir, geta komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hafna einstökum framkvæmdastjóraefnum og þarf þá að tilnefna á ný í þau embætti. Eru dæmi um slíkt, m.a. frá 2019. Þá getur þingið einnig fræðilega komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hafna tillögunni í heild sinni, enda þótt slík atburðarás verði að teljast afar ólíkleg, en þá þyrfti að endurtaka tillöguferlið í heild sinni.
  • Þegar samþykki þingsins fyrir skipan nýrrar framkvæmastjórnar í heild sinni liggur fyrir gengur málið til leiðtogaráðs ESB sem skipar nýja framkvæmdastjórn formlega.
  • Miðað við þann hraða sem hefur verið á tilnefningu og samþykki forseta framkvæmdastjórnarinnar, vali á forseta leiðtogaráðsins og utanríkismálastjóra ESB og kjöri þingforseta, má ætla að leitast verði við að hraða einnig málsmeðferð við skipan nýrrar framkvæmdastjórnar eins og kostur er á haustmisseri.

Stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  1. Almennt
  2. Frjáls og lýðræðisleg Evrópa
  3. Sterk og örugg Evrópa
  4. Aukin hagsæld og samkeppnishæfni

Almennt

Eins og greint var frá í umfjöllun Vaktarinnar 28. júlí sl. þá hefur leiðtogaráð ESB samþykkt nýja fimm ára stefnuáætlun (e. strategic agenda).

Áætluninni er ætlað að marka stefnu ESB til næstu fimm ára í grófum dráttum og er gert ráð fyrir því að með henni sé lagður ákveðinn grunnur að annarri stefnumörkun ESB fyrir komandi starfstímabil 2024-2029, sbr. stefnuáherslur kjörins forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen (VdL), sem hún lagði fram í aðdraganda atkvæðagreiðslu um kjör hennar á Evrópuþinginu og fjallað er um sérstaklega hér að neðan í Vaktinni. Jafnframt er síðan gert ráð fyrir að stefnuáætlun leiðtogaráðsins leggi grunn að nýrri fimm ára stefnuáætlun nýrrar framkvæmdastjórnar ESB (e. Commission priorities for 2024 - 2029) þegar hún hefur verið fullskipuð undir lok árs. Loks er gert ráð fyrir að áætlanir formennskuríkis í ráðherraráði ESB á hverju hálfs árs tímabili séu í línu við þá grunnstefnumörkun sem þar birtist. Undirbúningur að áætluninni hefur staðið yfir síðastliðið ár, sbr. nánari umfjöllun Vaktarinnar 17. maí sl. þar sem fjallað var um undirbúning að stefnumörkun ESB til næstu fimm ára og um stefnumótunarferlið.

Stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB er skipt upp í þrjá hluta þar sem sett eru fram stefnumarkmið fyrir ESB undir merkjum:

  • frelsis og lýðræðis (e. A free and democratic Europe)
  • styrks og öryggis (e. A strong and secure Europe)
  • hagsældar og samkeppnishæfni (e. A prosperous and competitive Europe)

Efnistök í stefnuáætluninni markast mjög af þeirri stöðu sem nú er uppi í Evrópu og í alþjóðasamskiptum og -viðskiptum sem og af stöðu umhverfis- og loftlagsmála. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur gjörbreytt stöðu mála í Evrópu í fjölmörgu tilliti. Ein meginástæða fyrir stofnun ESB í upphafi var að tryggja frið, hagsæld og samvinnu á milli Evrópuríkja eftir þá hildarleiki sem háðir voru í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur á ný fært aðildarríkjum ESB heim sannindi fyrir mikilvægi þessara grunnástæðna fyrir tilvist sambandsins. Á sama tíma hafa samskipti almennt á milli ríkja og ríkjablokka harnað og sjónarmið frjálsra alþjóðaviðskipta og alþjóðavæðingar látið undan síga. Það hefur aftur kallað á aðgerðir ESB til að tryggja efnahagslegt öryggi og strategískt sjálfræði ESB (e. Strategic Autonomy). Ein skýrasta birtingarmynd framangreinds hefur verið á vettvangi framþróunar í grænum tækniiðnaði, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins.

Meginþemað í áætlun leiðtogaráðsins er eftirfarandi:

  • að styrkja samkeppnishæfni ESB og um leið að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og umhverfisvernd m.a. uppbyggingu og þróun græns tækniiðnaðar og stafrænum umskipum,
  • að takast á við áskoranir vegna fólksflutninga,
  • að taka nauðsynlega ábyrgð á varnar- og öryggismálum,
  • að takast á við alþjóðlegar áskoranir á grundvelli alþjóðalaga og á vettvangi alþjóðastofnana,
  • að byggja upp samkeppnishæft félagslegt efnahagskerfi,
  • að hlúa að frumkvöðlastarfsemi
  • og að næsta fjármálaáætlun ESB endurspegli framangreindar stefnuáherslur

Hér á eftir eru helstu efnisatriði í stefnuáætluninni rakin nánar.

Frjáls og lýðræðisleg Evrópa

Að unnið verði að því að halda uppi gildum ESB á innri vettvangi sambandsins

Grundvallargildi ESB, sbr. 2. gr. sáttmála um ESB (TEU), eru eftirfarandi:

  • virðing fyrir mannlegri reisn
  • frelsi
  • lýðræði
  • jafnrétti
  • réttarríkið
  • virðing fyrir mannréttindum, þ.m.t. réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum.

Leiðtogaráð ESB dregur framangreind grunngildi ESB fram og leggur sérstaka áherslu á að unnið verði markvisst að því að halda þau í heiðri í innra starfi sambandsins. Þessi áhersla á gildin, sem mörgum þykja þó sjálfssögð, endurspeglar þær áhyggjur sem hafa farið vaxandi á umliðnum árum um að nú sé úr ýmsum áttum vegið alvarlega að lýðræðinu, réttarríkinu og öðrum gildum ESB.

Að ESB starfi í samræmi við gildi sambandsins á alþjóðavettvangi

Leiðtogaráðið leggur áherslu á að ESB starfi í samræmi við gildi sín ekki aðeins inn á við heldur einnig út á við með því að vinna samkvæmt alþjóðalögum og styðja stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna, vinna að friði í heiminum og réttlæti og stöðugleika, lýðræði og mannréttindum og sjálfbærum þróunarmarkmiðum.

Sterk og örugg Evrópa

Að tryggð verði samhent og áhrifarík utanríkisstefna á vettvangi ESB

Vegna mikillar óvissu í alþjóðamálum, sbr. umfjöllun að framan, kemur fram að mikilvægt sé að ESB komi fram með samhentum hætti gagnvart þriðju ríkjum og ríkjabandalögum. Þá er skýr áhersla lögð á að ESB muni standa með Úkraínu eins lengi og þarf á meðan ríkið berst fyrir sjálfstæði sínu og fullveldi og styðja við endurreisn þess og leiðina að réttlátum friði.

Að varnar- og öryggismál verði efld

Vísað er til þess að þegar hafi verið tekin stór skref sem miða að því að styrkja varnarviðbúnað sambandsins og getu þess m.a. með auknum útgjöldum til varnarmála. Lagður hafi verið grunnur að stórauknum sameiginlegum fjárfestingum á þessu sviði með það að markmiði að dregið verði úr kerfislægum veikleikum m.a. á grundvelli aukinnar afkastagetu evrópsk hergagnaiðnaðar. Þá leggur leiðtogaráðið áherslur á að unnið verði að aukinni samhæfingu á milli herja aðildarríkjanna. Markmiðið er að efla samstarf á milli aðildarríkja ESB á sviði öryggis- og varnarmála sem muni styðja við varnarsamstarf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Nató. Jafnframt verður unnið að auknu samstarfi á sviði dóms- og löggæslumála svo sem vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, netglæpa og hryðjuverka- og fjölþáttaógna.

Að unnið verði að undirbúningi vegna áforma um stækkun ESB

Mikilvægi þess að stækkunaráform ESB nái fram að ganga er áréttaðenda er litið svo á að stækkun ESB sé fjárfesting í friði, stöðugleika og velmegun til lengri tíma. Inntaka nýrra ríkja í sambandið verði þó að vera byggð á verðleikum þeirra, þ.e. vilja þeirra og getu til að undirgangast gildi ESB með öllu því sem fylgir. Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember sl. um stækkunarstefnu ESB. Styðja þarf við umsóknarríkin til að undirbúa þau fyrir inngöngu. Jafnframt þurfi ESB að huga að umbótum í innri starfsemi sinni til að tryggja að stofnanir ESB geti starfað áfram með áhrifaríkum hætti eftir fjölgun aðildarríkja. Þá þurfi að huga vel að ytri landamærum ESB og Schengen-svæðisins og málefnum er varða flótta- og farandfólk og er í reynd kallað eftir því að lögð verði fram ný evrópsk stefna um innra öryggi Schengen-svæðisins.

Aukin hagsæld og samkeppnishæfni

Að samkeppnishæfni ESB verði styrkt

Stefnt er að aukinni samkeppnishæfni í því skyni að bæta efnahagslega og félagslega velmegun með auknum kaupmætti almennings, nýjum störfum og með því að tryggja gæði vöru og þjónustu. Styrkja á getu og strategískt sjálfræði ESB er kemur að mikilvægum greinum á sviðum tækni og iðnaðar með það að markmiði að ESB verði miðstöð slíkrar starfsemi. Unnið verði markvisst að því að jafna samkeppnisbilið við önnur markaðssvæði og samkeppnisaðila. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf umtalsvert sameiginlegt fjárfestingaátak þar sem saman fari opinber fjármögnun og einkafjármögnun, m.a. með aðkomu Evrópska fjárfestingabankans. Fram kemur að helsta verkfæri ESB til ná markmiðum um aukna samkeppnishæfni sé innri markaðurinn. Efla þurfi innri markaðinn einkum á sviði orkumála, fjármögnunar og fjarskipa. Þá þurfi að tryggja að ríkisaðstoðarkerfi ESB stuðli að jafnvægi og skilvirkri ríkisstoð sem raski ekki samkeppnisgrundvelli innan markaðarins. Lögð er áhersla á mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í efnahagskerfi ESB. Skýr áhersla er lögð á uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar. Leitast verður við að styrkja viðskiptasambönd við þriðju ríki á grundvelli gagnkvæms markaðsaðgangs og að mikilvægar aðfangakeðjur verði styrktar. Þá verði geta, þ.m.t. framleiðslugeta, ESB á tilteknum mikilvægum sviðum efld, þ.e. á sviði varnarmála, geimmála, gervigreindar, skammtatækni, hálfleiðara, 5G/6G fjarskiptatækni, heilbrigðismála, lyfja, kemískra efna og háþróaðra efna (e. advanced materials).

Enda þótt þess sé ekki getið með beinum hætti í stefnuskjali leiðtogaráðsins, þá virðist ljóst að hér að framan er ráðið um margt að vísa til nýrrar skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun um þá skýrslu í Vaktinni 19. apríl 2024.

Árangursrík græn og stafræn umskipti

Til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 þarf að nýta vel alla möguleikana sem falist geta í grænum og stafrænum umskiptum. Leiðtogaráðið leggur áherslu á að umgjörð vegna stuðningsaðgerða verði fyrirsjáanlegri og efli vaxtarmöguleika mikilvægra greina. Auka þarf orkuöryggi og orkusjálfstæði ESB með því að tryggja nægt framboð af umhverfisvænni grænni orku. Þetta mun krefjast mikilla fjárfestinga í uppbyggingu raforkukerfisins og samtengingu þeirra. Með sama hætti þarf að ráðast í miklar fjárfestingar til að byggja upp háþróaða stafræna innviði og finna leiðir til að nýta möguleika stafrænna umskipta á ólíkum sviðum svo sem m.a. á sviði landbúnaðar. Þá verði haldið áfram á þeirri braut sem fetuð hefur verið á við endurheimt vistkerfa, vatnsvernd o.fl.

Að stutt verði við nýsköpun og viðskiptavænt umhverfi

Leiðtogaráðið leggur áherslu á að stutt sé dyggilega við nýsköpun í atvinnurekstri og hlúð að fyrirtækjarekstri og iðnaði þannig að ESB verði aðlagandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þannig beri að efla rannsóknir og nýsköpun og standa vörð um heilbrigða samkeppni. Í þessu skyni þurfi að einfalda regluverk og minnka reglubyrði á öllum sviðum og auka stafræna stjórnsýslu.

Framfarir fyrir alla

Búa þarf þannig um hnútana að hagvöxtur komi öllum íbúum ESB til góða. Þannig leggur leiðtogaráðið áherslu á að félagslegum úrræðum verði beitt til að tryggja að ávinningur af grænum og stafrænum umskiptum verði öllum til hagsbóta. Huga þurfi að áskorunum sem uppi eru vegna lýðfræðilegrar þróunar og hvaða áhrif sú þróun geti haft á samkeppnishæfni, mannauð og jafnrétti innan ESB. Tryggja þarf að efnahagslífið og velferðarkerfið geti stutt við samfélag þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega. Í þessu skyni þurfi að huga að enn frekara heilbrigðissamstarfi og bættum aðgangi að lyfjum. Fjárfesta þarf í færni fólks og endurmenntun og auka atvinnuþátttöku.

Stefnuáherslur VdL

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Ný áætlun um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni
  • Nýir tímar í varnar- og öryggismálum Evrópu
  • Stuðningur við samfélög og velferðarkerfi
  • Viðhald lífsgæða: fæðuöryggi, vatnsvernd og náttúruvernd
  • Vernd lýðræðis og grunngilda ESB
  • Staða ESB á sviði heimsmála
  • Árangur fyrir alla og framtíðarsýn

Inngangur

Eins og vikið er að hér að framan birti VdL stefnuáherslur sínar (e. Political Guidelines) til næstu fimm ára þann 18. júlí sl. Eins og rakið er í umfjöllun Vaktarinnar 17. maí sl. um stefnumótunarferlið í ESB í framhaldi af kosningum til Evrópuþingsins, þá er útgáfa á stefnuáherslum tilnefnds forseta framkvæmdastjórnar ESB afar mikilvægt skref við mótun nýrrar heildarstefnumörkunar fyrir ESB. Gert er ráð fyrir því, eðli málsins samkvæmt, að stefnuáherslur tilnefnds forseta séu reistar á grunni stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB, sbr. umfjöllun um þá áætlun hér að framan, en jafnframt er gert ráð fyrir að úrslit Evrópuþingskosninganna og þær áherslur sem verða ofan á í kjölfar kosninganna við myndun meirihluta í þinginu endurspeglist í skjalinu, sbr. til hliðsjónar umfjöllun hér að framan um setningu Evrópuþingsins.

Stefnuskjal VdL ber yfirskriftina Val Evrópu (e. Europe‘s Choice) en í inngangsorðum skjalsins kemur fram sú afstaða VdL að á þeim óvissutímum sem nú eru uppi standi ESB og aðildarríki þess frammi fyrir skýrum valkostum, þ.e. að þau hafi:

  • val um að standa ein, hvert ríki um sig, eða sameinuð á grundvelli sameiginlegra gilda ESB,
  • val um að vera sundruð og háð öðrum eða djörf, metnaðarfull og fullvalda í sameiginlegum aðgerðum í nánu samstarfi við samstarfsríki og fjölþjóðlegar stofnanir um allan heim,
  • val um að hunsa breyttan veruleika eða horfa skýrum augum á heiminn eins og hann er og þær ógnir sem raunverulega steðja að, og
  • val um að láta öfgamenn og popúlisma hafa vinninginn eða tryggja að lýðræðisleg öfl haldi velli

Að mati VdL verður stærstu áskorunum samtímans, hvort sem það er á sviði öryggismála, loftlagsbreytinga eða samkeppnishæfni einungis mætt á áhrifaríkan hátt með sameiginlegum aðgerðum. Ógnirnar eru einfaldlega of umfangsmiklar til að hvert ríki geti tekist á við þær af eigin rammleik og tækifærin sömuleiðis af þeirri stærðargráðu að erfitt er að hagnýta þau að fullu nema með sameiginlegu átaki.

Svar VdL er því skýrt, hún vill öflugra ESB og hún vill stækka ESB með inntöku nýrra aðildarríkja.

Stefnuskjalinu er skipt upp í sjö kafla sem eru eftirfarandi:

  1. Ný áætlun um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni (e. A new plan for Europe’s sustainable prosperity and competitiveness)
  2. Nýir tímar í varnar- og öryggismálum Evrópu (e. A new era for European Defence and Security)
  3. Stuðningur við samfélög og velferðarkerfi (e. Supporting people, strengthening our societies and our social model)
  4. Viðhald lífsgæða: fæðuöryggi, vatnsvernd og náttúruvernd. (e. Sustaining our quality of life: food security, water and nature)
  5. Vernd lýðræðis og grunngilda ESB (e. Protecting our democracy, upholding our values)
  6. Staða ESB á sviði heimsmála: (e. A global Europe: Leveraging our power and partnerships)
  7. Árangur fyrir alla og framtíðarsýn (e. Delivering together and preparing our Union for the future)

Hér á eftir verður nánar fjallað um framangreinda kafla stefnuskjalsins.

1. Ný áætlun um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni

Óhætt er að segja að meginþunginn í stefnuáherslum VdL liggi í þessum fyrsta kafla stefnuskjalsins þar sem aðgerðir til að auka samkeppnishæfni innri markaðar ESB eru númer eitt, tvö og þrjú. Þessi áhersla á samkeppnishæfni sem snýr jöfnum höndum að aðgerðum sem miða að því að auka samkeppnishæfni innri markaðarins inn á við og aðgerðum sem miða að því að koma við hagvörnum, ef þarf, til að tryggja efnahagslegt öryggi og strategískt sjálfræði ESB út á við. Þessar áherslur á aukna samkeppnishæfni og strategískt sjálfræði ESB hafa verið afar áberandi í umræðu á vettvangi ESB á umliðnum misserum og þá sérstaklega eftir að Rússar hófu árásarstríð sitt gagnvart Úkraínu. Ítarlega hefur verið fjallað um þessar áherslubreytingar í stefnumótun á vettvangi ESB í Vaktinni á umliðnum misserum við ýmis tilefni, svo sem í Vaktinni 17. maí sl. þar sem fjallað var um væntanlega stefnumörkun ESB til næstu fimm ára, í Vaktinni 19. apríl sl. þar sem fjallað var um skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, í Vaktinni 2. febrúar sl. þar sem fjallað var um nýja efnahagsöryggisáætlun ESB, í Vaktinni 24. nóvember sl. þar sem fjallað er um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins og í Vaktinni 13. nóvember þar sem fjallað er um Granada-yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB og þannig mætti áfram telja. Þrátt fyrir þá miklu styrkleika sem felast í innri markaðinum og því félagslega markaðshagkerfi sem hann byggist á standa evrópsk fyrirtæki frammi fyrir mörgum áskorunum í alþjóðlegri samkeppni, svo sem vegna ósanngjarnrar samkeppni, hás orkuverðs, skorts á hæfu vinnuafli og nægilegu fjármagni til fjárfestinga. Kapphlaup sé í gangi á milli ríkja og ríkjabandalaga er kemur að þróun græns tækniiðnaðar sem mun móta hagkerfi heimsins næstu áratugi að mati VdL og ráða stöðu viðkomandi ríkja og ríkjabandalaga í því hagkerfi. ESB verði að vera virkur þátttakandi í þessu kapphlaupi vilji það tryggja samkeppnisstöðu sína og hagsæld.

Stefnuáherslum VdL á þessu sviði er skipt upp í eftirfarandi hluta í stefnuskjalinu:

  • Aðgerðir til að liðka fyrir viðskiptum og fyrirtækjarekstri
  • Að gerður verði grænn iðnaðarsáttmáli sem miði að kolefnishlutleysi og lækkun orkuverðs.
  • Að þáttur hringrásar í hagkerfinu og viðnámsþol þess verði eflt.
  • Að stafrænar lausnir verði innleiddar til að auka framleiðni
  • Að rannsóknir og nýsköpun verði sett í öndvegi
  • Að ráðist verði í stórfellt fjárfestingarátak
  • Að gripið verði til aðgerða til að bregðast við skorti á vinnuafli og sérhæfðu vinnuafli.

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir hvern framangreindan hluta eru eftirfarandi:

Aðgerðir til að liðka fyrir viðskiptum og fyrirtækjarekstri

  • Að innri markaðurinn verði fullgerður á sviðum sem varða þjónustu, orkumál, varnarmál, fjármál og fjarskiptamál.
  • Að gerðar verði breytingar á nálgun í samkeppnismálum sem gerir evrópskum fyrirtækjum betur kleift að standast alþjóðlega samkeppni. Sjá í þessu samhengi m.a. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. þar sem fjallað er um skýrslu Enrico Letta og umfjöllun hans um að rýmka þurfi samkeppnisreglur m.a. á sviði fjarskipta.
  • Einföldun regluverks. VdL hyggst fella öllum framkvæmdastjórum í nýrri framkvæmdastjórn að ráðast í aðgerðir til að létta á reglubyrði. Í því skyni stendur m.a. til að innleiða nýtt álagspróf sem notað verði til að meta þá byrði sem hlýst af regluverki ESB.

Nýr grænn iðnaðarsáttmáli

  • Grænn iðnaðarsáttmáli (e. Clean Industrial Deal) felur í raun í sér beint framhald af Græna sáttmálanum og þá jafnframt af framkvæmdaáætlun (iðnaðaráætlun) Græna sáttmálans, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. febrúar 2023, um þá áætlun. Ljóst er þó að fókusinn hefur færst til, þ.e. hann er nú í grunninn settur á iðnaðarmarkmiðin en síður á umhverfismarkmiðin. Þetta er þó frekar spurning um orðalag en markmið, því markmiðin vinna hvort með öðru og breytingin því ef til vill lítil.
  • Lögð verður áhersla á að klára innleiðingu löggjafar á þessu sviði sem samþykkt var á nýliðnu tímabili. Er hér m.a. vísað til nýrrar reglugerðar um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net-Zero Industry Act), sbr. umfjöllum um þá gerð í Vaktinni 16. febrúar sl., og reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act), sbr. umfjöllun um þá gerð í Vaktinni 24. nóvember sl. o.fl., sjá nánar til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 24. mars 2023 um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans.
  • Gert er ráð fyrir að grænn iðnaðarsáttmáli verði birtur innan 100 daga frá því að skipunartímabil nýrrar framkvæmdastjórnar hefst.
  • Lagt er til að markmiðið um 90% samdrátt í kolefnislosun fyrir árið 2040 verði lögfest.
  • Boðuð er ný löggjöf, svonefnd Industrial Decarbonisation Accelerator Act, sem mun hafa það markmið að hraða grænum umskiptum í atvinnulífinu einkum í orkufrekum greinum.
  • Haldið verður áfram að vinna að lækkun orkuverðs til heimila og fyrirtækja með margvíslegum aðgerðum.
  • Unnið verður að nýju grænu viðskipta- og fjárfestingasamstarfi við önnur ríki og ríkjabandalög um allan heim til að tryggja öruggt framboð mikilvægra hráefna, orku og græns tækniiðnaðar.
  • Boðuð er ný reglugerð um sameiginlegt stafrænt bókunar- og miðasölukerfi vegna lestarsamganga í ESB (e. Single Digital Booking and Ticketing Regulation) sem hefur það markmið að auka hlut lestarsamganga í samgöngukerfi ESB með því að auðvelda lestarmiðakaup á lengri ferðum og tryggja um leið réttindi neytenda ef lestaráætlanir riðlast.
  • Boðað er að tilteknar breytingar kunni að verða gerðar á áður samþykktu regluverki um kolefnishlutleysi bílaflotans árið 2035 sem miði að því að gera þróun á þessu sviði tæknióháða (e. techonlogially neutral).

Aukinn þáttur hringrásar í hagkerfinu

  • Boðuð er ný hringrásarhagkerfislöggjöf (e. Circular Economy Act) sem mun hafa það markmið að styðja við myndun sameiginlegs markaðar með úrgang ogendurunnin hráefni, þar sem sérstök áhersla verður lögð á endurvinnslu mikilvægra hráefna með tengingu við nýja reglugerð um mikilvæg hráefni sem vísað er til að framan.
  • Boðaður er nýr aðgerðarpakki á sviði efnaiðnaðar (e. chemicals industry package) sem mun hafa það markmið að auka viðnámsþol á því sviði.
  • Boðuð er ný löggjöf um mikilvæg lyf (e. Critical Medicines Act) sem jafnframt mun hafa það markmið að auka viðnámsþol ESB á sviði lyfjamála.

Aðgerðir til að auka framleiðni með stafrænum lausnum

  • Fram kemur að lág framleiðni í ESB samanborið við helstu keppinauta standi samkeppnishæfni fyrir þrifum og að ein megin orsökin sé ófullnægjandi útbreiðsla stafrænna lausna sem hefur áhrif á getu ESB til að þróa nýja þjónustu og viðskiptamótel.
  • Lögð verður áhersla á innleiðingu og eftirfylgni nýrra laga á þessu sviði. Er hér fyrst og fremst vísað til nýrrar reglugerðar á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Services Act – DSA) sem tók gildi í aðildarríkjum ESB 16. nóvember 2022 og reglugerðar á sviði rafrænna markaða (Digital Markets Act – DMA) sem tók gildi í ESB 1. nóvember 2022, sbr. umfjöllun í Vaktinni 18. nóvember 2022.
  • Fram kemur að ef markmið nást um raunverulegan innri markað á stafræna sviðinu myndi það stórefla framleiðni og þar með samkeppnishæfni.
  • Ráðgert er að stórauka fjárfestingu í tækni framtíðarinnar svo sem í ofurtölvugetu, framleiðslu hálfleiðara, netvæðingu nytjahluta (e. internet of things), líftækni, skammtatækni, geimtækni o.fl.
  • Stefnt er á að ESB verði í fararbroddi er kemur að gervigreind, ekki bara við reglusetningu á því sviði, heldur einnig við þróun hennar og hagnýtingu. Í því skyni er m.a. áformað að á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar verði sérstöku verkefni (e. AI Factories initiative) hrint í framkvæmd sem ætlað er að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum og iðnfyrirtækjum á sviði gervigreindar sérstakan aðgang að sérsniðinni ofurtölvugetu fyrir gervigreind. Þá verður jafnframt mótuð gervigreindarstefna til að styðja við aukna notkun gervigreindar á mismunandi sviðum.
  • Boðuð er stefnumótun um notkun gagna og gagnasafna (e. European Data Union Strategy) en miklir ónýttir möguleikar eru taldir vera fyrir hendi á því sviði, m.a. við þróun gervigreindar.

Rannsóknir og nýsköpun í öndvegi í hagkerfi ESB

  • Öflugt rannsóknar- og nýsköpunarstarf á vettvangi ESB er forsenda þess að ESB geti verið í forustu er kemur að hreinu og stafrænu hagkerfi að mati VdL.
  • Auka á fjárveitingar til rannsókna og skerpa á forgangröðun við styrkveitingar.
  • Boðuð er ný löggjöf um líftækniiðnað (e. European Biotech Act) og er ráðgert að tillaga þar að lútandi líti dagsins ljós á næsta ári. Tillagan verður hluti af víðtækari stefnumótun á sviði lífvísinda (e. Strategy for European Life Sciences).

Stórátak í fjárfestingum

  • Boðað er stórátak í fjárfestingum til að greiða fyrir grænu og stafrænu umskiptunum og að náið verði unnið með Evrópska fjárfestingabankanum (European Investment Bank).
  • Gripið verður til ráðstafana til að draga úr áhættu almennra lánveitenda og fjárfesta við að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og fyrirtækjum í örum vexti.
  • Boðuð er tillaga um sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB (e. European Savings and Investments Union). Tillagan sem á rót sína að rekja til tillögu í skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sem áður hefur verið vísað til, er hluti af áætlun um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar (e. Capital Markets Union) , sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 31. maí sl. um þá áætlun. Hagsmunir sem hér hanga á spýtunni eru metnir gríðarlegir en talið er að unnt gæti verið að laða að 470 milljarða evra í fjárfestingar til viðbótar við það sem nú er.
  • Boðuð er endurskoðun á tilskipun ESB um opinber útboð (e. Revision of the Public Procurement Directive) með það markmiði að útboðsleiðin verði hagnýtt betur en nú er.
  • Boðað er að settur verði á fót nýr samkeppnishæfnissjóður (e. European Competitiveness Fund) og er boðað að stofnun sjóðsins verði hluti af næstu tillögu að fjármálaáætlun ESB (e. Multiannual financial framework).

Aðgerðir til að bregðast við skorti á vinnuafli og sérhæfðu vinnuafli

  • Gera þarf stórátak til að auka færni vinnuafls á öllum sviðum og á öllum sviðum þjálfunar og menntunar að mati VdL. Í því skyndi hyggst hún efna til sérstaks sameiginlegs færniátaks sem hún nefnir Union of Skills.
  • Mótuð verði sérstök menntastefna á sviði verkfræði, stærðfræði, raunvísinda og náttúruvísinda (e. STEM Education Strategic Plan).
  • Jafnframt er boðað að mótuð verði sérstök stefna fyrir starfsmenntun, starfsþjálfun og símenntun (e. European Strategy for Vocational Education and Training).
  • Áfram verði unnið að því að koma á fót samræmdri umgjörð evrópskra prófgráða (e. Joint European degree) og aðgerða til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á hæfni og prófgráðum milli aðildarríkja (e. Skills Portability Initiative).

2. Nýir tímar í varnar- og öryggismálum Evrópu.

Sú staðreynd að áherslum í varnar- og öryggismálum er teflt fram í öðrum kafla í stefnuskjali VdL endurspeglar þá ríku áherslu sem nú er lögð á þennan málaflokk í ESB í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu.  Ekki leikur á því vafi að ESB er með skýrum og einbeittum hætti að hasla sér völl á sviði varnar- og öryggismála sem er ákveðin breyting frá því sem verið hefur þar sem almennt hefur verið gengið verið út frá því að varnarmál væru á hendi aðildarríkjanna hvers um sig, jafnvel þótt þau hafi stillt saman strengi á vettvangi PSC (Political and Security Committee) auk þess sem flest aðildarríkin eiga aðild að NATO. Sjá nánari umfjöllun um þessar áherslubreytingar í Vaktinni 15. mars sl.

Stefnuáherslum VdL á þessu sviði er skipt upp í eftirfarandi hluta í stefnuskjalinu:

  • Varnarsamstarf ESB
  • Viðbúnaðarbandalag til að bregðast við krísum og öryggisógnum
  • Öruggari Evrópa
  • Öruggari sameiginleg landamæri
  • Sanngjörn og styrk stefna í málefnum flótta- og farandsfólks

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir hvern framangreindan hluta eru eftirfarandi:

Varnarsamstarf ESB

  • Stefnt er að því að byggja upp raunverulegt varnarsamstarf á vettvangi ESB (e. European Defence Union).
  • Að skipaður verði framkvæmdastjóri varnarmála í framkvæmdastjórn ESB (e. Commissioner for Defence) sem vinna muni náið með nýjum utanríkismálastjóra ESB.
  • Boðuð er útgáfa hvítbókar um framtíð varnarsambands ESB (e. White Paper on the Future of European Defence) og er stefnt að því að hvítbókin komi út innan 100 daga frá því að ný framkvæmdastjórn tekur við. Meðal þess sem til stendur til að fjalla um í hvítbókinni er hvernig styrkja megi samband ESB og Nató.
  • Nýr varnarmálasjóður ESB (e.European Defence Fund) verður byggður upp og fjárveitingar til hans hækkaðar en talið er að aðildarríkin þurfi að stórauka framlög sín til varnarmála og efla hergagnaiðnað innan sambandins, sbr. hergagnaiðnaðaráætlun ESB (e. European Defence Industry Programme).
  • Innri markaður á sviði hergagna verður efldur m.a. með auknum sameiginlegum útboðum.
  • Fjöldi sameiginlegra varnarmálaverkefna verður kynntur svo sem um loftvarnir ESB (e. European Air Shield) og netvarnir (e. cyber defence).

Viðbúnaðarbandalag til að bregðast við krísum og öryggisógnum

  • Unnið verður að mótun viðbúnaðarstefnu fyrir ESB (e. Preparedness Union Strategy). Við þá stefnumótun verður m.a. litið til skýrslu sem fyrrverandi forseti Finnlands, Sauli Niinistö, vinnur nú að og væntanleg er síðar á þessu ári.

Öruggari Evrópa

  • Undir þessum hluta er boðað að mörkuð verði stefna í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og í innri öryggismálum ESB (e. European Internal Security Strategy).
  • Boðað er að starfsemi Europol verði efld stórlega með meira en tvöföldun á starfsliði stofnunarinnar yfir lengri tíma.
  • Efla þurfi heimildir og notkun evrópsku handtökuskipunarinnar (e. European Arrest Warrant).
  • Skoðað verður hvernig efla megi valdheimildir saksóknaraembættis ESB (e. European Public Prosecutors’ Office) er kemur að saksókn þvert á landamæri.
  • Kynnt verður aðgerðaráætlun til að sporna við eiturlyfjasmygli (e. European action plan against drug trafficking), en þáttur í því verður að styrkja sameiginlega hafnarstefnu ESB.
  • Ný áætlun um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi (e. Counter-Terrorism Agenda) verður kynnt.
  • Nýtt miðlægt samskiptakerfi (e. European Critical Communication System) fyrir stjórnvöld sem sinna öryggismálum, m.a. vegna skipulagðra glæpastarfsemi, verður innleitt.

Öruggari sameiginleg landamæri

  • Umsýsla í tengslum við för fólks yfir landamærin verður að fullu gerð stafræn.
  • Evrópa verði fullkomnasti ferðaáfangastaður í heimi með stafrænni landamærastjórn.
  • Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex) verður styrkt enn frekar og lagt er til að stöðugildum innan stofnunarinnar verði fjölgað úr 10 þúsund í 30 þúsund.
  • Endurbætur verði gerðar á vegabréfsáritunarstefnu ESB (e. EU Visa Policy Strategy).

Málefni flótta- og farandfólks

  • Áhersla verður lögð á innleiðingu nýsamþykkts löggjafarpakka um málefni flótta- og farandfólks (e. Asylum & Migration Pact), sbr. umfjöllun um innleiðingaráætlun ESB vegna þeirrar löggjafar í Vaktinni 28. júní sl. Jafnframt er boðað að unnið verði að framtíðarstefnumótun á þessu sviði.
  • Unnið verður að bættu samstarfi við þriðju ríki á þessu sviði m.a. á grundvelli sáttmála um aðgerðir á Miðjarðarhafssvæðinu.
  • Barist verður gegn smygli á fólki og mansali og leitað leiða til opna nýjar löglegar leiðir fyrir farandfólk til ESB.

3. Stuðningur við samfélög og velferðarkerfi

Fram kemur að lífsgæði í ESB séu einstök. Kreppur undanfarinna ára hafi þó haft áhrif á lífsgæði margra. Tryggja verður sanngirni og jöfn tækifæri fyrir alla og forðast misskiptingu.

Stefnuáherslum VdL á þessu sviði er skipt upp í eftirfarandi hluta í stefnuskjalinu:

  • Félagslegt réttlæti í nútíma hagkerfi
  • Samheldni samfélaga og stuðningur við ungt fólk
  • Jafnréttissáttmáli

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir hvern framangreindan hluta eru eftirfarandi:

Félagslegt réttlæti í nútíma hagkerfi

  • Boðað er nýtt aðgerðarplan til innleiðingar á félagslegri réttindastoð ESB (e. Action Plan on the Implementation of the European Pillar of Social Rights). Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 18. nóvember 2022 um félagslega réttindastoð ESB.
  • Boðuð er útgáfa vegvísis um sköpun vandaðra starfa (e. Quality Jobs Roadmap).
  • Lögð verður áhersla á sanngjörn uppskipti fyrir alla í þeim grænu og stafrænu umskiptum sem framundan eru.
  • Kynntur verður nýr sáttmáli um félagslegt samráð (e. Pact for European Social Dialogue) snemma næsta árs.
  • Kynnt verður ný stefna, sú fyrsta sinnar tegundar, um aðgerðir gegn fátækt (e. EU Anti-Poverty Strategy).
  • Ný húsnæðisstefna ESB (e. European Affordable Housing Plan), einnig sú fyrsta sinnar tegundar, verður lögð fram en almennt hefur ekki verið litið svo á hingað til að mótun húsnæðisstefnu væri í verkahring aðildarríkjanna í hverju tilviki.
  • Áskoranir sem við blasa vegna lýðfræðilegrar þróunar verða ávarpaðar.

Samheldni samfélaga og stuðningur við ungt fólk

  • Unnið verður gegn aukinni skautun í samfélögum og samfélagsumræðu.
  • Erasmus+ samstarfsáætlunin á sviði mennta og starfsþjálfunar verður efld.
  • Framkvæmdastjórum verður falið að skipuleggja samráð við ungt fólk (e. Youth Policy Dialogues) strax á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar og að síðan verði efnt til slíks samráðs árlega eftir það. Til að efla skipulegt samráð við ungt fólk enn frekar hyggst VdL koma upp sérstöku ungmennaráði sem verði henni til ráðgjafar (e. President’s Youth Advisory Board).
  • Hugað verður að geðheilsu ungmenna í stafrænum heimi og m.a. sett fram aðgerðaráætlun gegn neteinelti (e. action plan against cyberbullying).

    Jafnréttissáttmáli

  • Framkvæmdastjóra jafnréttismála í framkvæmastjórn ESB verður falið að uppfæra stefnu ESB í málefnum hinsegin fólks (e. strategy on LGBTIQ equality) sem og að þróa nýja áætlun gegn kynþáttafordómum.
  • Boðuð er ný stefna um jafnrétti kynjanna eftir árið 2025 en auk þess hyggst VdL beita sér fyrir því að kynntur verði vegvísir um réttindi kvenna (e. Roadmap for Women’s Rights) á næsta alþjóðlega baráttudegi kvenna, þ.e. 8. mars 2025.

4. Viðhald lífsgæða: fæðuöryggi, vatnsvernd og náttúruvernd

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir þennan kafla stefnuskjalsins eru eftirfarandi:

  • Fram kemur að aðgangur að öruggri fæðu á viðráðanlegu verði sem framleidd er á heimaslóðum sé grunnforsenda almennra lífsgæða í ESB.
  • Boðað er að kynnt verði framtíðarsýn fyrir evrópskan landbúnað og fæðuöryggi í ESB á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar.
  • Tryggja verður réttláta afkomu bænda og verðlauna þá bændur sem stunda umhverfisvænan landbúnað.
  • Skipaður verður framkvæmdastjóri sjávarútvegs og haftengdrar starfsemi og kynntur til sögunar sáttmáli um málefni hafsins þar sem sjálfbærni verður höfð að leiðarljósi.
  • Haldið verður áfram á braut náttúruverndar og endurheimt vistkerfa.
  • Lögð er áhersla á aðlögun vegna loftlagsbreytinga, aukinn viðbúnað og viðnámsþol með þátttöku alls samfélagsins og stofnanna þess og er boðað að kynnt verði aðgerðaáætlun um þetta efni (e. European Climate Adaptation Plan). Þá viðrar VdL jafnframt þá skoðun að byggja þurfi upp sameiginlegt almannavarnarkerfi ESB (e. European Civil Defence Mechanism).
  • Boðuð er framlagning nýrrar stefnu á sviði vatnsverndar (e. European Water Resilience Strategy).

5. Vernd lýðræðis og grunngilda ESB

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir þennan kafla stefnuskjalsins eru eftirfarandi:

  • Fram kemur að lýðræðiskerfi ESB sæti nú árásum bæði innan frá og af hendi erlendra afla. Erfiðara sé nú en áður að mæta slíkum árásum á tímum stafrænnar tækni og samfélagsmiðla. Við þessar aðstæður þurfi að gæta sérstaklega að lýðræðinu.
  • Boðuð er framlagning áætlunar um lýðræðisvarnir (e. European Democracy Shield).
  • Styrkja þarf réttarríkið og verður unnið að því dag hvern ogáréttar VdL að virðing stjórnvalda í aðildarríkjunum fyrir réttarríkinu sé forsenda þess að ríkin eigi rétt til aðgangs að fjármunum úr sjóðum ESB.
  • Fjölmiðlafrelsi er ein af forsendum réttarríkisins og verður unnið dyggilega að innleiðingu nýrra laga um frelsi fjölmiðla m.a. með auknum stuðningi við vernd fjölmiðla og fréttamanna, sjá nánar umfjöllun Vaktarinnar 19. janúar sl. um þá löggjöf.
  • Stuðlað verður að auknu þátttökulýðræði með ýmsum hætti.

6. Staða ESB á sviði heimsmála

Stefnuáherslur VdL á þessu sviði eru að ýmsu leyti nátengdar þeim stefnuáherslum sem kynntar eru í 1. kafla stefnuskjalsins um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni ESB. Áherslurnar hér hafa þannig að ýmsu leyti snertingu við stefnumótun sem varðar  efnahagslegt öryggi og strategískt sjálfræði ESB eða eins og segir í skjalinu:

           We have entered an age of geostrategic rivalries

Stefnuáherslum VdL á þessu sviði er skipt upp í eftirfarandi hluta í stefnuskjalinu:

  • Stækkun ESB með hliðsjón af pólitískum landfræðilegum sjónarmiðum
  • Strategísk stefnumótun í málefnum nágrannaríkja ESB
  • Ný efnahagsutanríkistefna ESB
  • Endurmótun alþjóðasamstarfs

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir hvern framangreindan hluta eru eftirfarandi:

  • Stækkun ESB með hliðsjón af pólitískum landfræðilegum sjónarmiðum

  • Að mati VdL er það siðferðileg skylda og pólitísk og strategísk landfræðileg nauðsyn að halda stækkunarferli ESB áfram í samræmi við þau fyrirheit sem gefin eru í sáttmálum ESB.
  • Möguleg aðild umsóknarríkja mun þó ávallt á endanum verða byggð á verðleikamiðuðu mati á því hvort umsóknarríki uppfyllti skilyrði aðildar. Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember sl. um stækkunarstefnu ESB.

    Strategísk stefnumótun í málefnum nágrannaríkja ESB

  • Samhliða hnitmiðaðri stækkunarstefnu þarf, að mati VdL, að skerpa fókus gagnvart öðrum nágrannaríkjum ESB og þá sérstaklega ríkjunum við Miðjarðahafið. Í því skyni hyggst hún m.a. eins og áður segir skipa framkvæmdastjóra til að fara með málefni Miðjarðarhafssvæðisins almennt og er boðað, eins og fram er komið, að leitast verði við að koma á sáttmála við ríki á Miðjarðarhafssvæðinu um sameiginleg málefni
  • Þá er boðuð sérstök stefnumótun í málefnum Austurlanda nær, þar sem sérstaklega verður hugað að því hvernig tryggja megi réttláta og varanlega lausn á átökunum á Gaza.

Ný efnahagsutanríkistefna ESB

  • Boðað er að mótuð verði ný efnahagsutanríkisstefna ESB (e. Economic Foreign Policy). Slík stefnumótun þykir nauðsynleg í breyttum heimi þar sem skilin á milli efnahagsmála og öryggismála eru orðin óskýr og ákvarðanir um efnahagsleg málefni taka í sífellt auknum mæli mið af pólitískum landfræðilegum sjónarmiðum (e. geopolitics and geoeconomics). Ný stefna mun byggja á þremur megin stoðum, þ.e. efnahagslegu öryggi, viðskiptum og fjárfestingasamstarfi við þriðju ríki.
  • Stutt verði við alþjóðaviðskipti á grundvelli alþjóðareglna og með því að styrkja og endurskipuleggja Alþjóðaviðskiptastofnunina (World Trade Organization).
  • Lögð verður fram tillaga að nýrri áætlun um samskipti ESB og Indlands (e. Strategic EU-India Agenda). Þá er boðað að settur verði endurnýjaður kraftur í samskipti ESB við ríki Afríku sem og ríki Suður-Ameríku og Karabíska hafsins svo dæmi séu tekin.

Endurmótun alþjóðasamstarfs

  • Skýrt er tekið fram að ESB muni ávallt standa með og beita sér fyrir alþjóðasamskiptum sem reist eru á alþjóðalögum.
  • Metnaður VdL stendur til þess að ESB taki að sér forustuhlutverk við endurmótun alþjóðakerfisins.

7. Árangur fyrir alla og framtíðarsýn

Helstu efnisatriðin sem felld eru undir þennan síðasta kafla í stefnuskjalinu eru eftirfarandi:

  • Lögð er áhersla á skilvirka innleiðingu þeirra miklu lagabreytinga sem samþykktar hafa verið á umliðnu tímabili og fjármögnun verkefna sem þar eru undir þannig að löggjöfin skili þeim árangri sem lagt er upp með. Ný væntanlegfjármálaáætlun ESB skiptir þar höfuðmáli.
  • Endurskoðun og umbætur á sáttmálum ESB og grundvallarmarkmiðum er áríðandi að mati VdL, m.a. til undirbúnings fyrir hugsanlega stækkun sambandsins með inntöku nýrra aðildarríkja (e. pre-enlargement policy reviews), sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 3. maí sl.

VdL hyggst vinna að því að styrkja enn frekar tengslin á milli Evrópuþingisins og framkvæmdastjórnar ESB og veita þinginu meiri aðkomu að undirbúningsferli löggjafartillagna.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum