Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 63/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 63/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19020020 og KNU19020021

 

Beiðni […], […] og barna þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 9. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. og 7. ágúst 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir […], fd. […], […], fd. […] og barna þeirra, […], fd. […], […], fd. […] og […], fd. […], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærendur), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Frakklands. Úrskurður kærunefndar var birtur kærendum þann 15. október 2018 og þann 22. október 2018 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála dags. 6. nóvember 2018, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 27. nóvember 2018 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku og þann 12. desember 2018 var þeirri beiðni hafnað. Kærunefnd útlendingamála barst önnur beiðni kærenda um endurupptöku þann 6. febrúar 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn 7. febrúar 2019.

II. Málsástæður og rök kærenda

Þess er krafist að mál fjölskyldunnar verði endurupptekið og að felldar verði úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar og stofnuninni gert að taka umsóknir fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar. Kærendur óska eftir endurupptöku á málum sínum hjá kærunefnd útlendingamála á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin í málum þeirra.

Í beiðni kærenda er vísað til læknisvottorðs þar sem fram komi að […] (hér eftir B) af þjáist sýkingu í hálskirtlum og að hún þurfi líklega að gangast undir háls- og nefkirtlatöku. Þá komi fram í göngudeildarnótu að læknir hafi séð myndband sem sýni klassískan kæfisvefn. Þá komi fram að hálskirtlar hennar hafi við skoðun verið bæði stórir og holóttir. Telja kærendur að það sé greinilegt að heilsu B verði stefnt í hættu verði fjölskyldunni vísað frá landi á þessu tímamarki og að nauðsynlegt sé að fyrirhuguð aðgerð fari fram. Hafa beri í huga að börn séu sérstaklega viðkvæmur hópur og telja kærendur að íslensk stjórnvöld beri að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, sbr. lög nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Það væri andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda tvö ung börn úr landi og þá krefjist hagsmunir fjölskyldunnar og ekki síst barnsins þess að málið verði endurupptekið. Um séu að ræða upplýsingar sem kalli á nýtt mat í málinu og því séu skilyrði til endurupptöku málsins ótvírætt fyrir hendi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 9. október 2018, sbr. úrskurð nr. 419/2018. Þá hefur nefndin áður tekið afstöðu til beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa með úrskurði nr. 490/2018 frá 6. nóvember 2018 og fyrri beiðni kærenda um endurupptöku með úrskurði nr. 544/2018 frá 12. desember 2018. Kærunefnd hefur farið yfir síðari beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nr. 419/2018 og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu. Meðal gagna málsins er læknisvottorð, dags. 13. desember 2018 þar sem fram kemur að B sé með sýkingu í hálskirtlum og að hún muni mjög líklega þurfa á hálfs- og nefkirtlatöku að halda. Meðal gagna málsins er einnig göngudeildarnóta, dags. 7. janúar 2019 þar sem fram kemur m.a. að B sé með endurteknar hálsbólgur og haldin kæfisvefni. Þá kemur fram að hún sé nokkuð stífluð í nefi, hálskirtlar hennar stórir og holóttir og að þörf virðist vera á að fjarlægja þá. Meðal gagna málsins er jafnframt skjal, dags. 7. febrúar 2019, sem er undirritað af skólastjóra skólans þar sem B og eldri systir hennar eru við nám, en þar kemur m.a. fram að þær hafi samlagast bekkjum sínum vel. Þær skilji einfalda íslensku og séu kátar og glaðar í skólanum. Kærendur hafa jafnframt lagt lista með undirritunum þátttakenda í kirkjulífi í [...] þar sem lýst er vilja til þess að kærendur fái að dvelja áfram hér á landi.

Í úrskurði kærunefndar nr. 419/2018 kemur fram að B sé almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Þá var það niðurstaða kærunefndar að fjölskyldan í heild sinni teldist ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í úrskurðinum er jafnframt vísað til þess að í skýrslum um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi kæmi fram að umsækjendur ættu rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Í úrskurðinum kom fram að lagt væri til grundvallar að kærendur gætu leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi í Frakklandi og að gögn málanna hefðu ekki borið með sér að heilsufar kærenda væri með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsókna þeirra hefði í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar þeirra. Það var niðurstaða kærunefndar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál þeirra yrðu tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að gögnin sem kærendur hafa lagt fram varðandi heilsufar B séu ekki þess eðlis að talið verði að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður í málum kærenda var kveðinn upp. Í því sambandi er áréttað að kærunefnd tekur ekki undir að framlögð gögn bendi til þess að heilsu B verði stefnt í hættu ef fjölskyldunni verður vísað frá landinu. Þá telur kærunefnd að aðrar upplýsingar sem lögð voru fram til stuðnings beiðni kærenda um endurupptöku hafi ekki þýðingu varðandi mat á því hvort taka beri umsókn kærenda til efnismeðferðar.

Að teknu tilliti til frásagnar kærenda og gagna málanna, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni þessari um endurupptöku, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé unnt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 419/2018 hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kærenda um endurupptöku málanna er því hafnað.  

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kærenda er hafnað.

The request of the appellants is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta