Þjónusta við fólk með ákominn heilaskaða
Starfshópur skipaður af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til að fjalla um þjónustu við fólk með ákominn heilaskaða og leiðir til að bæta hana hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum sínum.
Í skýrslunni kemur fram að samtök fólks sem orðið hefur fyrir heilaskaða og sérfræðingar sem sinna þessum hópi þjónustu hafa á liðnum árum bent á að bæta þurfi greiningu og skráningu á heilaáverkum. Einnig þurfi að efla sérhæfða íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem orðið hafa fyrir skaða af völdum heilaáverka. Mat þessara aðila er að úrræði skorti til að mæta þeim afleiðingum sem fólk með heilaskaða glímir við, en þær geta verið fjölþættar, alvarlegar og langvarandi. Í þessu ljósi ákvað heilbrigðisráðherra að stofna starfshópinn sem nú hefur skilað tillögum sínum.
Hinn þögli faraldur
Starfshópurinn kynnti skýrslu sína og tillögur um úrbætur á fundi með heilbrigðisráðherra í dag. Hinn þögli faraldur er titill skýrslunnar og vísar hann til þess að þótt heilaskaði geti haft í för með sér augljós eftirköst, svo sem hreyfiskerðingu og skerðingu á sjón eða heyrn þá geta afleiðingar hans einnig verið mjög duldar. Dæmi um slíkt eru til að einbeitingarskortur, hvatvísi, minnisskerðing, persónuleikabreytingar og fleira. Afleiðingarnar heilaskaða geta haft veruleg neikvæð áhrif á daglegt líf þeirra sem verða fyrir skaðanum og einnig á aðstandendur þeirra.