Nr. 46/2025 Úrskurður
Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 46/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24100035
Kæra [...]
á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 3. október 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 27. september 2024, um frávísun frá Íslandi.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til Íslands með flugi frá Ríga, Lettlandi, 27. september 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 27. september 2024, var kæranda vísað frá landinu.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu þær viðbótarathugasemdir að kærandi ætti ógreiddar sektir vegna fyrri dvalar.
Í frumskýrslu lögreglu, dags. 28. september 2024, kemur fram að kærandi hafi verið færður í annars stigs skoðun vegna sögu hans um brottvísun og endurkomubann. Fram kom í skýrslunni að honum hefði verið birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann vegna annars óskylds máls sem hann hafi ekki viljað undirrita. Við úrvinnslu málsins og frekari upplýsingaöflun hafi komið í ljós að kærandi ætti ógreiddar sektir og því hafi lögregla tekið ákvörðun um frávísun á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 3. október 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 10. október 2024, var kæranda veittur frestur til 17. október 2024 til þess að leggja fram greinargerð. Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða önnur fylgigögn vegna málsins.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð vegna málsins.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærandi er ríkisborgari Albaníu og þarf ekki vegabréfsáritun til landgöngu, sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum, sbr. viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, og má dvelja hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili.
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda, dags. 27. september 2024, byggir á h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.
Samkvæmt h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga er m.a. heimilt að vísa útlendingi frá landinu hafi hann ekki greitt sekt sem honum hafi verið gert að greiða meðan á fyrri dvöl hans stóð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu hefur kæranda tvívegis verið birt sektargerð hér á landi, í bæði skiptin vegna umferðarlagabrota. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi kærandi umræddar sektir 4. október 2024, eða einni viku eftir að lögregla tók ákvörðun um frávísun. Af 106. gr. laga leiðir að atvik málsins séu metin eins og þau lágu fyrir við komu til landsins og verður þeim ekki breytt með afturvirkum hætti. Að framangreindu virtu er staðfest ákvörðun lögreglu um frávísun á grundvelli h-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga enda voru skilyrði ákvæðisins uppfyllt þegar lögregla tók hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.
The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir Jóna Aðalheiður Pálmadóttir