Nr. 306/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 306/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23050077
Beiðni um frestun framkvæmdar í máli […]og barna hennar
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 192/2023, dags. 5. apríl 2023, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2023, um að taka umsóknir […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu, og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A), […], fd[…], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir B), […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir C) og […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir D) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 11. apríl 2023.
Hinn 17. apríl 2023 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar nr. 192/2023 frá 5. apríl 2023. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á máli hennar var synjað af kærunefnd með úrskurði nr. 283/2023, dags. 10. maí 2023. Þá hefur kæranda verið leiðbeint um að leggja fram beiðni um endurtekna umsókn samkvæmt 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærunefnd barst beiðni kæranda um frestun framkvæmdar í máli hennar og barna hennar 11. maí 2023 ásamt fylgigögnum.
Af beiðni kæranda um frestun framkvæmdar má ráða að hún byggi á 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Málsástæður og rök kæranda
Í beiðni kæranda um frestun framkvæmdar vísar hún til greinargerða sinnar til kærunefndar, dags. 28. febrúar 2023 og greinargerðar vegna beiðni um frestun réttaráhrifa, dags. 24. apríl 2023. Fram hafi komið upplýsingar um að B sé í viðkvæmri stöðu eins og er. Hann hafi lýst aðstæðum sínum á Ítalíu í viðtali hjá Útlendingastofnun þar sem hann hafi orðið vitni að ofbeldi föður síns í garð móður sinnar. B hafi ekki unnið úr áföllum sem hann hafi orðið fyrir eða fengið faglega aðstoð. Barnavernd og lögregla hafi verið kölluð til að heimili kæranda og barna hennar 21. apríl 2023 en B hafi verið búinn að læsa sig inni í herbergi með hníf og hótað að binda enda á líf sitt. Eftir atvikið hafi barnaverndaryfirvöld á Suðurnesjum tryggt að B fengi viðeigandi meðferðarúrræði hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Kærandi telji mikilvægt að núverandi aðstæðum B verði ekki raskað á meðan hann sé undir eftirliti sálfræðiteymisins á Barna- og unglingageðdeild. Í vottorði frá Barna- og unglingageðdeild komi fram að B sé í sjálfsvígshættu. Um sé að ræða vaxandi vanlíðan hans og aðstæðubundin sjálfsvígshætta sem orsakist af áhyggjum af því að vera vísað úr landi. Meðferðaraðilar telji að sjálfsvígshætta geti aukist vegna yfirvofandi brottflutnings og sem viðbrögð við óöryggi og aðstæðum. Fyrir liggi að það kunni að valda óafturkræfum skaða á kæranda, börnum hennar, einkum B, verði þeim gert að snúa aftur til Ítalíu á þessu stigi málsins. Það sé grundvallaratriði að horft verði til hagsmuna barnanna í þessu sambandi og sérstök varúð sýnd. Margt bendi til þess að það kunni að hafa alvarleg áhrif á líf og heilsu barnanna verði þeim gert að snúa aftur til Ítalíu. Kærandi vísar til þess að B eigi bókaðan tíma í endurkomu á Barna- og unglingageðdeild á næstunni. Óskað hafi verið eftir ítarlegra mati á stöðu, horfum og meðferðarúrræðum og faglegu mati á því hvaða afleiðingar það kunni að hafa á þessa meðferð og batahorfur ef fjölskyldunni yrði gert að sæta brottflutningi nú þegar. Með vísan til framangreinds og til læknisfræðilegs mats fagaðila sé mikilvægt að B fái að ljúka bráðameðferð hér á landi m.a. til að undirbúa hann eftir atvikum undir brottflutning. Á þessu stigi sé ljóst að vegna ástands drengsins sé ekki forsvaranlegt að framkvæma brottflutning.
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um frestun framkvæmdar
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar 5. apríl 2023. Kærandi kom hingað til lands 15. september 2022 en hafði til þess tíma verið búsett á Ítalíu frá árinu 2008. Kærandi og börn hennar sem öll eru fædd á Ítalíu hafa varanlegt dvalarleyfi þar í landi. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi og börn hennar hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þær fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í úrskurði kærunefndar nr. 283/2023, dags. 10. maí 2023, var ekki talin ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Þá hefur kæranda verið leiðbeint um að leggja fram endurtekna umsókn í máli hennar og barna hennar vegna framlagðra gagna.
Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd byggir á upplýsingum sem varða heilsufar B. Kærandi hefur lagt fram gögn frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, barnavernd Reykjanesbæjar og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans máli sínu til stuðnings. Samkvæmt bakvaktarskýrslu barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, dags. 21. apríl 2023, hafi lögregla og bakvaktarstarfsmaður barnaverndarnefndar komið að heimili kæranda þar sem B hafði læst sig inni í herbergi með hníf og ætlað að binda endi á líf sitt. Ástæða fyrir því að B hafi ætlað að skaða sig væri vegna fyrirhugaðs brottflutnings. Í gögnum frá Barna- og unglingageðdeild, dags. 28. apríl og 11. maí 2023, kemur fram að kærandi hafi leitað á bráðamóttöku barna með B eftir að hann hafi hótað að binda endi á líf sitt þegar þau hafi fengið upplýsingar um brottflutning fjölskyldunnar frá landinu. B hafi ekki verið metinn í bráðri sjálfsvígshættu í viðtali en að sjálfsvígshætta gæti aukist vegna yfirvofandi brottflutnings sem sé metin sem viðbrögð við óöryggi og erfiðum aðstæðum. B hafi liðið vel á Íslandi þar til hann hafi fengið upplýsingar um brottflutning. Hann hafi verið mjög kvíðinn, einangrað sig, gráti mikið og sofi lítið. B hafi verið kominn með hugsanir um að vilja ekki lifa en ekki mótuð plön. Þá kemur fram að B eigi við geðræn einkenni að stríða og sé ljóst að brottflutningur úr landi muni hafa slæm áhrif á geðhag hans. Áframhaldandi eftirlit sé fyrirhugað og að B eigi endurkomutíma.
Kærunefnd áréttar það sem fram kemur í úrskurði kærunefndar, dags. 5. apríl 2023, að samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið búsett á Ítalíu frá árinu 2008 en hluti barna hennar verið búsett í heimaríki um tíma. Af gögnum málsins má ráða að B sé fæddur og uppalinn að mestu á Ítalíu og tali tungumálið. Við meðferð málsins greindi kærandi m.a. frá því að hún og börn hennar hafi haft aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá kemur fram í úrskurði nefndarinnar að bæði börn og fullorðnir, eigi sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Það var mat nefndarinnar að heilbrigðisaðstæður kæranda og barna hennar geti ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá greindi kærandi jafnframt frá því að hún hafi sætt ofbeldi af hálfu barnsföður síns og eiginkonu hans og greindi B frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi orðið vitni af því ofbeldi. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að yfirvöld á Ítalíu sæki gerendur sem beiti konur ofbeldi til saka en þolendur neiti þó oft að leggja fram kærur vegna ótta, skammar eða vanþekkingar á lögunum. Þá sé starfrækt neyðarlína fyrir þolendur ofbeldis sem þurfi aðstoð og tímabundinn dvalarstað. Þá áréttar kærunefnd það sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar að samkvæmt 31. og 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli miðla upplýsingum um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd til yfirvalda í viðtökuríki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðanna, þannig að flutningur viðkomandi fari fram með þeim hætti að heilsufari þeirra verði ekki stefnt í hættu. Í gögnum málsins kemur fram að B hafi átt tíma hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans 15. maí sl. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda og barna hennar séu nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar þeirra og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Með vísan til þess og aðstæðna í viðtökuríki er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar B geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Kærunefnd telur fram komnar upplýsingar og gögn ekki fela í sér að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar, dags. 5. apríl 2023, og því ekki ástæða til að fresta framkvæmd á úrskurði kærunefndar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd úrskurðarins er því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um frestun framkvæmdar er hafnað.
The appellants’ request to suspend the implementation of the decision of Immigration Appeals Board is denied.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares