Frumvarp um bílaleigur og kröfur til leyfishafa vegna íslenskra aðstæðna í Samráðsgátt
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sett í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
Er frumvarpið síðari hluta lagabreytinga sem byggja á tillögum OECD um samkeppnishæfni, í þeim tilgangi að halda áfram að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu. Með breytingunni verður brugðist við öllum athugasemdum OECD.
„Hér er um að ræða einföldun í rekstri ökutækjaleiga og aukin rafræn samskipti á milli leigutaka og leigusala og eru til bóta fyrir atvinnurekendur og neytendur. Samhliða þessum breytingum eru lagðar auknar kröfur um öryggisfræðslu til leigutaka,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Með frumvarpinu er lagt til að ökutækjaleigum verði ekki lengur skylt að reka starfsemi sína á fastri starfsstöð heldur einungis hafa geymslustað þar sem skráningarskyld ökutæki eru geymd. Verður því ekki lengur þörf á að húsnæði eða annað rými sé til staðar þar sem ökutækjaleiga er rekin, staðbundin og reglulega. Er hér um að ræða einföldun í rekstri ökutækjaleiga og aukin rafræn samskipti á milli leigutaka og leigusala.
Samhliða frumvarpinu mun reglugerð um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 840/2015, verða uppfærð með tilliti til eftirlitshlutverks Samgöngustofu og áskorana sem geta skapast samhliða nýjum viðskiptaháttum, svo eftir sem áður verði unnt að halda uppi öflugu eftirliti með leyfishöfum. Sú vinna er þegar hafin innan ráðuneytisins í samstarfi við Samgöngustofu. Í þeim tilgangi að auka umferðaröryggi stendur jafnframt til að bæta því skilyrði í reglugerðina, að í leigusamningi við erlenda aðila, skuli leyfishafi sérstaklega vekja athygli á helstu hættum sem geta skapast á íslenskum vegum. Til dæmis um hættu vegna færðar og veðurs, vegaloknir yfir vetrartímann, einbreiðar brýr, malarvegi og hætta sem skapast þegar ekið er af malbiki yfir á möl, blindhæðir, beltaskyldu, neyðarnúmer o.fl.
Umrædd drög að frumvarpi er að finna í Samráðsgátt stjórnvalda og eru áhugasamir hvattir til að senda inn umsögn vegna þeirra.