Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Forsætisráðuneytið

594/2015. Úrskurður frá 1. október 2015

Úrskurður

Hinn 1. október 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 594/2015 í máli ÚNU 14100008.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 10. október 2014 kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um upplýsingar um leiguverð á fermetra í félagslegu húsnæði annars vegar en hins vegar í þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Kærandi segir engin svör hafa borist en ekki kemur fram hvenær gagnabeiðnin var sett fram. Loks segir kærandi að ef bæjaryfirvöld beri það fyrir sig að ekki séu til gögn um málið sé slíkt væntanlega brot á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 20. október 2014 var Vestmannaeyjabæ kynnt kæran og gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Umsögn Vestmannaeyjabæjar barst þann 15. desember 2014, en þar segir að upplýsingar varðandi beiðni kæranda liggi ekki fyrir. Sveitarfélagið myndi þurfa að leggjast í talsverða vinnu til að veita umbeðnar upplýsingar. Kæranda var kynnt umsögn Vestmannaeyjabæjar með bréfi dags. 17. desember 2014 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan frestsins sem veittur var.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að leiguverði á fermetra í félagslegu húsnæði annars vegar og í þjónustuíbúðum fyrir aldraða hins vegar. Verður að skilja beiðni kæranda á þann veg að átt sé við húsnæði sem er á forræði Vestmanneyjabæjar. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar kemur fram að ómögulegt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar þar sem þær séu ekki fyrirliggjandi hjá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá staðhæfingu.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þau gögn sem kærandi óskaði eftir liggja ekki fyrir hjá Vestmanneyjabæ. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 10. október 2014, á hendur Vestmannaeyjabæ.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta