Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Forsætisráðuneytið

597/2015. Úrskurður frá 1. október 2015

Úrskurður

Hinn 1. október 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 597/2015 í máli ÚNU 14100016.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 14. október 2014 kvartaði A yfir afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um upplýsingar. Í kæru kemur fram að bærinn hafi auglýst eftir umsækjendum um 15% starf stuðningsfulltrúa við Hraunbúðir, dvalarheimili aldraðra, og félagsráðgjafa í 50%-100% stöðu. Kærandi hafi óskað eftir nöfnum umsækjenda en bærinn hafi ekki svarað erindinu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi dags. 28. október 2014 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn bæjarins dags. 18. nóvember 2014 segir að upphafleg fyrirspurn kæranda hafi verið óljós og henni ekki svarað. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda umsögnina með bréfi dags. 8. desember 2014, en bréfið var endursent vegna breyttrar búsetu kæranda. Eftir að upplýsingar bárust um nýtt aðsetur hans var umsögnin send að nýju með bréfi dags. 24. mars 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 20. apríl 2015. Þar segir meðal annars að kærandi óski eftir því að úrskurðað verði hvort skylt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar útprentaðar í stað þess að vísað sé á vef bæjarins.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um gögn um nöfn umsækjenda um tiltekin störf. Vestmannaeyjabær hefur borið því við að upphafleg beiðni kæranda hafi verið óljós og því ekki unnt að svara henni. Úrskurðarnefndinni hefur ekki borist afrit af beiðninni og getur því ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði upplýsingalaga um tilgreiningu gagna eða efnis máls sem þau tilheyra hafi verið uppfyllt. Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að beiðni megi vísa frá ef ekki er talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Áður en til þess kemur ber að veita málsaðila leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar. Þá ber samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna að taka ákvörðun um hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skuli skýra frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Stjórnvöldum er þannig ekki í sjálfsvald sett hvort þau svari beiðnum um aðgang að upplýsingum eftir lögunum. Meðferð Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda samrýmdist að þessu leyti hvorki upplýsingalögum né leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og áður segir hefur úrskurðarnefndin ekki fengið afrit af beiðni kæranda og hefur því ekki forsendur til að úrskurða um rétt hans til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu aftur til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar og lögmætrar efnislegrar afgreiðslu.

Það athugast að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í máli þessu hefur Vestmannaeyjabær ekki afhent umbeðin gögn. Því er ekki fyrir að fara synjun á beiðni kæranda um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Ekki eru því skilyrði til að taka til meðferðar þá kröfu kæranda um að úrskurðað verði um skyldu Vestmannaeyjabæjar til að afhenda umbeðnar upplýsingar útprentaðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni A um aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um störf stuðningsfulltrúa við Hraunbúðir og félagsráðgjafa er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta