Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2016 Forsætisráðuneytið

605/2016. Úrskurður frá 18. janúar 2016

Úrskurður

Hinn 18. janúar 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 605/2016 í máli ÚNU 15020007.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 23. febrúar 2015 kærði A synjun Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) á beiðni um aðgang að sundurliðun á starfslokasamningum og greiðslum tengdum þeim til æðstu stjórnenda RÚV árin 2013 og 2014.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir umbeðnum upplýsingum vegna umfjöllunar blaðsins um hækkun á rekstrargjöldum vegna yfirstjórnar RÚV. Samkvæmt rekstrarreikningi félagsins hafi þau aukist úr tæpum 238 milljónum króna árið 2013 í tæpar 336 milljónir árið 2014. RÚV hafi hins vegar synjað kæranda um aðgang að upplýsingunum þar sem félagið teldi sér einungis skylt að veita upplýsingar um launakjör stjórnar og útvarpsstjóra. Kærandi vísar hins vegar til þess að á heimasíðu RÚV sé ekki gerður greinarmunur á útvarpsstjóra og öðrum stjórnendum. Óskað er eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál feli RÚV að afhenda kæranda umbeðna starfslokasamninga eða upplýsi um þá og geri grein fyrir uppgjöri og heildargreiðslum til framkvæmdastjóra RÚV á umræddu tímabili.

Í tölvupóstsamskiptum sem fylgdu kæru er meðal annars að finna rökstuðning fyrir ákvörðun RÚV. Þar segir að í 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé sérstaklega kveðið á um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna aðila sem lögin taka til. Í 4. mgr. 7. gr. segi að veita beri upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda og rétturinn ekki takmarkaður við föst launakjör. RÚV hafi því látið af hendi upplýsingar um starfslokauppgjör fyrrverandi útvarpsstjóra og heildartölu fyrir hóp annarra sem um var spurt. Í ljósi lögskýringargagna að baki 7. gr. upplýsingalaga verði ekki annað séð en að RÚV sé óheimilt að veita upplýsingar um aðra starfsmenn félagsins en útvarpsstjóra. Í því sambandi er vísað til 9. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 25. febrúar 2015 var RÚV kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að í trúnaði. Veittur var frestur til 10. mars 2015. Beiðnin var ítrekuð 26. maí, 15. september og 4. nóvember 2015 og að nýju þann 6. janúar 2016. Í umsögn RÚV er barst þann 14. janúar 2016 segir að við töku ákvörðunar um synjun beiðni kæranda hafi verið litið til 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af lögskýringargögnum um ákvæðið megi ráða að gengið sé út frá því að æðstu stjórnendur hjá ríkinu séu forstöðumenn ríkisstofnana. RÚV hafi því látið af hendi upplýsingar um starfslokakjör fyrrverandi útvarpsstjóra og heildarfjárhæð fyrir þann hóp annarra starfsmanna sem beiðni kæranda laut að. Með umsögninni fylgdi yfirlit um greiðslur til fyrrverandi starfsmanna félagsins.

Umsögn RÚV var kynnt kæranda með erindi þann 15. janúar 2016 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum um kæruna í ljósi hennar. Með erindi sama dag ítrekaði kærandi sjónarmið sem fram komu í kæru.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um aðgang að upplýsingum um starfslokasamninga RÚV við tiltekna starfsmenn sína á árunum 2013 og 2014. Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að lögin taki til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Í 2. mgr. 18. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 segir að upplýsingalög nr. 50/1996 gildi um starfsemi RÚV. Upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi þann 1. janúar 2013. Í ljósi þess að lög nr. 23/2013 tóku gildi þann 22. mars 2013 ber fyrst að leysa úr því álitaefni hvort 2. mgr. 18. gr. laganna feli það í sér að beita beri ákvæðum eldri upplýsingalaga um aðgang að upplýsingum í vörslum RÚV.

Í fyrsta lagi er til þess að líta að upplýsingalög nr. 50/1996 eru fallin úr gildi, sbr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er ekki að finna vísbendingar í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 23/2013 um þá fyrirætlun að ákvæði laga nr. 50/1996 giltu áfram um RÚV ólíkt því sem við eigi um aðra lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Í almennum athugasemdum við greinargerð er fylgdi frumvarpi til laganna segir að kveðið hafi verið á um að upplýsingalög nr. 50/1996 giltu um starfsemi RÚV í eldri lögum um félagið nr. 6/2007. Með því hafi verið tryggt að almenningur gæti fengið aðgang að gögnum mála í samræmi við ákvæði laganna. Í sérstökum athugasemdum við 18. gr. frumvarpsins segir meðal annars að ákvæði 2. mgr. sé samhljóða 2. mgr. 12. gr. gildandi laga um RÚV nr. 6/2007. Þau sjónarmið sem þar koma fram þykja til merkis um að ætlun löggjafans hafi verið að gildandi upplýsingalög hverju sinni myndu taka til starfsemi RÚV.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður því að leggja til grundvallar að tilgreining á númeri eldri upplýsingalaga í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 23/2013 hafi orðið fyrir mistök. Því verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2014 í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 2. gr. þeirra laga.

2.

Í kæru kemur fram að starfstitlar þeirra starfsmanna sem upplýsingabeiðni kæranda tók til komi fram á vef RÚV undir fyrirsögninni „Stjórnendur RÚV“. Ásamt útvarpsstjóra er um að ræða störf framkvæmdastjóra rekstrar-, fjármála- og tæknisviðs, framkvæmdastjóra samskipta-, þróunar- og mannauðssviðs, vef- og nýmiðlastjóra, skrifstofustjóra, fréttastjóra og dagskrárstjóra Rásar 1, Rásar 2 og Sjónvarps. Saman eru þessir starfsmenn nefndir framkvæmdastjórar RÚV. Eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þarf að taka afstöðu til þess hvort þessir starfsmenn teljist til æðstu stjórnenda félagsins hverju sinni í skilningi 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Ekki er að finna skýra vísbendingu í greinargerð er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 um hvaða starfsmenn teljist til æðstu stjórnenda lögaðila sem falla undir lögin. Almennt teljast framkvæmdastjórar hlutafélaga til æðstu stjórnenda þeirra, sbr. t.d. IX. kafla laga um hlutafélög nr. 2/1995. Til þess er hins vegar að líta að orðið framkvæmdastjóri er notað í lögum nr. 2/1995 um starfsmann sem ráðinn er af stjórn félags, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn hlutafélags og annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur þess skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995.

Í 11. gr. laga nr. 23/2013 er hlutverki útvarpsstjóra lýst með þeim hætti að hann sé framkvæmdastjóri RÚV, hafi daglegan rekstur þess með höndum og sé æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Þá ráði útvarpsstjóri aðra starfsmenn RÚV, en stöður stjórnenda skuli auglýsa opinberlega. Stjórn RÚV ræður útvarpsstjóra og leysir hann frá störfum, sbr. 2. tl. 10. gr. laga nr. 23/2013. Ekki er kveðið á um stöður eða hlutverk annarra stjórnenda félagsins en útvarpsstjóra og stjórnarmanna í lögum nr. 23/2013.

Af framangreindu verður ráðið að útvarpsstjóri teljist til æðstu stjórnenda RÚV hverju sinni en ekki þeir stjórnendur aðrir sem beiðni kæranda tók til. Í þessu sambandi þykir ekki skipta máli að þeir séu nefndir framkvæmdastjórar félagsins á vef þess eða að þar sé ekki gerður greinarmunur á þeim og útvarpsstjóra, líkt og kærandi byggir á. Af þeim sökum nær upplýsingaréttur almennings einungis til upplýsinga um nöfn og starfssvið þeirra, sbr. 1. tl. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga en ekki þeirra upplýsinga sem lýst er í 2. tl. ákvæðisins.

Verður því ekki hjá því komist að staðfesta synjun RÚV á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um starfslokasamninga annarra starfsmanna félagsins en útvarpsstjóra, en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi þegar fengið umbeðnar upplýsingar er varða fyrrverandi útvarpsstjóra.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni A um aðgang að upplýsingum um starfslokasamninga annarra starfsmanna félagsins en útvarpsstjóra árin 2013 og 2014.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta