Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 153/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 153/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15070013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 14. júlí, kærði [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júlí 2015, um að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli náms, sbr. 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var fyrst veitt dvalarleyfi vegna námsdvalar með gildistíma frá 21. ágúst 2014 til 1. febrúar 2015. Leyfið var endurnýjað með gildistíma frá 9. mars 2015 til 1. júlí 2015. Hinn 4. júní 2015 sótti kærandi svo aftur um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli námsdvalar. Þeirri umsókn var synjað með hinni kærðu ákvörðun með vísan til þess að kærandi hefði ekki náð fullnægjandi námsárangri á vorönn 2015.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 15. júlí 2015. Kæra og greinargerð bárust kærunefnd útlendingamála 28. júlí 2015. Með bréfi, dags. 5. október 2015, gaf kærunefnd kæranda færi á að gæta andmælaréttar eða koma á framfæri frekari gögnum eða athugasemdum teldi hún ástæðu til. Þá var einnig fallist á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd með framangreindu bréfi. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2015, var kæranda jafnframt veittur frekari kostur á að leggja fram niðurstöður úr prófum frá lokum vorannar, ef slíkt ætti við. Engin frekari gögn bárust kærunefnd frá kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júlí 2015, byggir á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 12. gr. e útlendingalaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, þar sem kærandi hafi ekki lokið a.m.k. 75% af fullu námi og þannig ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að ekki sé að finna neinar heimildir í 12. gr. e til þess að víkja frá skilyrðum laganna um að umsækjandi hafi lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Stofnunin telur því að synja beri kæranda um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli náms.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé í hjúskap með [...] ríkisborgara sem sé búsettur í [...] og hafi þar dvalarleyfi. Kærandi sé hins vegar í námi hér á landi. Kærandi eigi dóttur með eiginmanni sínum en hún búi hjá tengdaforeldrum sínum í [...]. Kærandi hafi því verið ein á Íslandi án fjölskyldu sinnar. Vegna þessa hafi kærandi [...] síðastliðinn vetur. Þá hafi kærandi átt erfitt með að aðlagast myrkrinu og veðrinu hér á landi. Kærandi hafi leitað læknis vegna þessa sem ráðlagði henni að hægja á náminu. Kærandi hafi síðan fallið í einu fagi þar sem námsmat byggðist meðal annars á mætingu.

Kærandi telur Útlendingastofnun beita ströngustu túlkun á lagatexta laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að það sé ekkert að finna í lögum um útlendinga sem bannar Útlendingastofnun að taka tillit til aðstæðna sinna. Þá byggir kærandi á því að sé miðað við anda íslenskra laga þá sé fólki almennt ekki hegnt fyrir að geta ekki staðið undir ýtrustu kröfum, sem til þess eru gerðar, ef það er ómögulegt af heilsufarsástæðum. Kærandi telur að horfa beri til þessarar meginreglu íslensks réttar áður en tekin sé íþyngjandi ákvörðun eins og sú að synja henni um dvalarleyfi vegna ófullnægjandi námsframvindu sem stafi af veikindum. Kærandi heldur því fram að finna megi heimild til þess að víkja frá skilyrðum um lágmarks námsframvindu í meginreglum íslensks réttar og eðli máls. Kærandi hafi skilað læknisvottorði til Útlendingastofnunar og þar séu veikindi hennar staðfest.

Kærandi greinir frá því í greinargerð sinni að allir áfangar í námi sínu hafi verið 10 ECTS eininga áfangar. Það hafi í för með sér að þegar hún féll í einum áfangi taldist hún ekki hafa náð nema 67% námsframvindu. Ef hún hefði staðist próf í þeim áfanga hefði hún haft 100% námsárangur. Vegna þessarar samsetningar námsins fól reglan um 75% námsframvindu í raun í sér kröfu um 100% námsframvindu. Allt annað en 100% námsframvinda hafi því verið ófullnægjandi sem grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Kærandi óskar eftir því að tekið sé tillit til þessa.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 4. júní 2015 um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002.

Í 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002 kemur fram að dvalarleyfi vegna náms samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna náms á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. 12. gr. e og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst samkvæmt ákvæðinu fullnægjandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi. Í máli þessu var um það að ræða að kærandi sótti í annað sinn um framlengju dvalarleyfis vegna náms og þurfti hún því að sýna fram á 75% námsárangur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi 20 ECTS einingum á vorönn 2015 eða um 67% af fullu námi. Hið sama á við ef litið er til námsárangurs beggja anna skólaársins 2014-2015, þ.e. kærandi lauk aðeins um 67% af fullu námi. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn varðandi það hvort hún hafi lokið öðrum prófum sem metin eru til eininga frá lokum síðastliðinnar vorannar. Er þar með ljóst að ekki eru uppfyllt skilyrði 4. mgr. 12. gr. e fyrir því að dvalarleyfi kæranda vegna námsdvalar verði framlengt, en ekki er gert ráð fyrir því að unnt sé að víkja frá ákvæðinu af ástæðum líkt og þeim sem kærandi hefur tilgreint máli sínu til stuðnings. Ber þá þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta