Ráðherra efldur til dáða í baráttu gegn reykingum
07. júlí 2003
Ráðherra efldur til dáða í baráttu gegn reykingum
Læknar gegn tóbaki gengu nýlega á fund Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hvöttu hann til dáða í baráttunni gegn reykingum. Talsmenn læknahópsins færðu ráðherra þakkir fyrir að Ísland skyldi vera í hópi þeirra landa sem fyrst staðfestu alþjóðlegan rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (AHS) sem miðar að því að draga úr tóbaksreykingum. Sáttmálinn er fyrsti alþjóðlegi lýðheilsusamningurinn sem leggur grunn að tóbaksvörnum um heim allan. Læknar gegn tóbaki beittu sér fyrir að læknar sendu heilbrigðismálaráðherra hvatningu á bréfspjaldi í því skyni að efla ráðherra til dáða í baráttunni gegn reykingum og bárust ráðherra hátt á þriðja hundrað bréfspjöld frá læknum í því skyni. Læknar gegn tóbaki leggja sérstaka áherslu á óbeinar reykingar og hvetja til að skerpt verði á tóbaksvarnalögum með það að markmiði m.a. að gestum og starfsmönnum á skemmtistöðu, kaffihúsum, veitingastöðum verði tryggt hreint loft.