Nr. 598/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 19. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 598/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19090016
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. janúar 2019. Við meðferð málsins framvísaði kærandi m.a. ítölsku dvalarleyfisskírteini sem var í gildi til 12. maí 2019. Þann 11. febrúar 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 8. apríl 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 27. ágúst 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 27. ágúst 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 10. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 19. september 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn 25. og 29. nóvember og 3. og 6. desember 2019.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að ítölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Ítalíu. Þá myndi Útlendingastofnun huga að skyldum sínum skv. 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar um að upplýsa ítölsk stjórnvöld um aðstæður kæranda áður en hann yrði fluttur til Ítalíu, enda gæfi kærandi samþykki fyrir slíkri upplýsingagjöf.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé með verki í baki, [...]. Auk þess finni kærandi fyrir ýmsum líkamlegum óþægindum, eigi við svefnörðugleika að etja og á hann leiti hugsanir og endurlit um atburði sem hann hafi upplifað. [...]. Þá kveður kærandi að hann sé samkynhneigður. Kærandi hafi dvalið á Ítalíu í um tíu ár og að á þeim tíma hafi lífskjör hans verið slæm. Ítölsk stjórnvöld hafi ekki veitt honum aðstoð, s.s. framfærslu, húsaskjól eða mat. Hann hafi verið heimilislaus í fimm ár, þar til hann hafi kynnst unnustu sinni. Kærandi hafi haft aðgang að heilbrigðisþjónustu en greiða hafi þurft fyrir hana. Þá hafi hann ekki haft aðgang að endurgjaldslausri lögfræðiþjónustu. Kærandi hafi orðið fyrir fordómum á Ítalíu og telji þá algenga þar í landi, fólk hafi t.d. ekki viljað setjast við hlið hans í strætisvögnum og að komið hafi verið fram við hann eins og hann væri einskis virði. Þá óttist kærandi unnustu sína og samfélag [...] á Ítalíu sem hafi grunað hann um samkynhneigð. Kærandi kveði að viðhorf samfélags [...] hafi valdið honum lífsleiða og hann hafi [...] á þeim tíma sem hann dvaldi á Ítalíu.
Kærandi gerir athugasemdir við hina kærðu ákvörðun í greinargerð sinni. Í fyrsta lagi mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að hann sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísi í því sambandi til sögu sinnar og [...]. Í annan stað mótmælir kærandi þeirri afstöðu Útlendingastofnunar að viðeigandi búsetuúrræði standi öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd til boða á Ítalíu. Kærandi hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá slæmum aðstæðum í flóttamannabúðum þeim er hann dvaldi í við komu sína til Ítalíu, en þeim hafi auk þess verið lokað í kjölfar áfloga og óeirða er brutust þar út stuttu eftir komu hans. Vísi kærandi jafnframt til heimilda til stuðnings frásögn sinni um húsnæðisvanda umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi.
Í þriðja lagi mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að honum standi til boða viðeigandi heilbrigðisþjónusta á Ítalíu vegna sjúkdómsgreiningar sinnar. Vísi kærandi til þess að þrátt fyrir að honum muni á einhverjum tímapunkti standa til boða viðeigandi heilbrigðisþjónusta þar í landi sé aðgengi að henni takmarkað á meðan umsækjendum um alþjóðlega vernd sé gert að bíða útgáfu sérstakra skilríkja, sem geti tekið sex mánuði og þeir þurfi jafnframt að endurnýja á sex mánaða fresti, og gætu því þurft að bíða eftir aðgengi að heilbrigðisþjónustu á meðan þeir bíða endurnýjunar þeirra. Kærandi vísi til heimilda þess efnis að mikilvægt sé að lyf þau sem hann taki [...] án þess að hlé verði á meðferðinni. Telji kærandi að hætt sé við því að hlé verði á lyfjameðferð við endursendingu hans til Ítalíu sem stofni lífi hans í verulega hættu.
Þá gerir kærandi í fjórða lagi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að kæranda standi ekki til boða að stunda atvinnu á Ítalíu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þrátt fyrir að meta frásögn kæranda, um að hann hafi reynt að afla sér atvinnu, trúverðuga. Vísi kærandi til þess að mikið atvinnuleysi á Ítalíu geri það nær ómögulegt fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk að finna löglega atvinnu.
Í fimmta lagi mótmælir kærandi staðhæfingu Útlendingastofnunar þess efnis að löggæslumálum á Ítalíu sé stýrt með árangursríkum hætti og að til staðar séu skilvirkar aðferðir til að rannsaka og refsa fyrir lögbrot í landinu. Í því ljósi, og vegna viðhorfa ítalskra yfirvalda í málefnum innflytjenda, telji kærandi að Útlendingastofnun geti ekki byggt á því að kærandi geti leitað á náðir ítalskra yfirvalda telji hann á sér brotið. Að mati kæranda sé ljóst að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til Ítalíu.
Loks geri kærandi athugasemd við beitingu á ákvæðum reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga. Meðal annars bendi kærandi á að talsmenn Rauða kross Íslands hafi gert alvarlegar athugasemdir vegna skorts á lagastoð fyrrnefndrar reglugerðar vegna þeirra skilyrða sem þar séu sett fram, þ.e. að þau gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og gangi í raun gegn vilja löggjafans. Auk þess veki kærandi athygli á að þau viðmið sem sett séu fram í 32. gr. a reglugerðarinnar séu sett fram í dæmaskyni. Því sé ekki um tæmandi talningu að ræða á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við. Útlendingastofnun hafi því borið að framkvæma heildarmat á aðstæðum kæranda. Þá telji kærandi að aðstæður hans séu það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, auk þess sem hann muni eiga erfitt uppdráttar á Ítalíu vegna alvarlegrar mismununar verði honum gert að snúa þangað aftur. Því til stuðnings vísi kærandi til frásagnar sinnar og heimilda er vísað hafi verið til í greinargerð hans til Útlendingastofnunar.
Kærandi reisir kröfu sína um efnismeðferð annars vegar á því að hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Í því sambandi verði einnig að hafa 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í huga. Um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar. Telji kærandi að lýsing hans á aðstæðum sínum á Ítalíu komi heim og saman við opinberar heimildir um aðstæður þar í landi m.a. varðandi húsnæði, félagslega þjónustu, heilbrigðisþjónustu og aðbúnað. Að mati kæranda verði að telja aðstæður flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem kærandi telji að aðstæður flóttamanna þar í landi samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins.
Hins vegar reisir kærandi kröfu sína á því að sérstakar ástæður standi til þess að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísi kærandi í því sambandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og túlkunar kærunefndar á ummælum í frumvarpi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga. Þá vísi kærandi til nánar tilgreindra úrskurða kærunefndar frá október 2017, um mat á því hvenær einstaklingur teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Kærandi hafi m.a. greint frá því að hafa orðið fyrir [...] í heimaríki og í viðtökuríki, ásamt því að hafa þurft að þola fordóma og mismunun sökum kynhneigðar sinnar. Þá þjáist kærandi af lífshættulegum og alvarlegum sjúkdómi sem falli augljóslega undir ákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga en þar sé skyndilegur og lífshættulegur sjúkdómur nefndur í dæmaskyni sem viðmið þegar metið sé hvort sérstakar ástæður séu til staðar í máli. Þá hafi réttur til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða verið felldur úr ítölskum útlendingalögum í nóvember 2018 og réttur til alþjóðlegrar verndar sé nú takmarkaður við umsækjendur sem flúið hafi stríðsástand eða séu fórnarlömb pólitískra ofsókna. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé því ekki lengur veitt [...] og réttur þeirra til verndar, á Ítalíu, sé því verulega skertur.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Ítalíu á umsókn kæranda er byggð á 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefið dvalarleyfi hjá ítölskum stjórnvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja ítölsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Kærandi er [...] karlmaður sem kveðst vera samkynhneigður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi [...] á Ítalíu en þar hafi hann búið við erfiðar aðstæður. Þá glími hann við stoðkerfisvandamál og svefnerfiðleika. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur fram að hann [...] og hafi í kjölfarið fengið ávísað viðeigandi lyfjum til meðferðar sjúkdómsins auk þess að vera í eftirliti sérfræðilæknis á Landspítala. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 24. apríl 2019, krefjist sjúkdómurinn eftirlits og ævilangrar lyfjameðferðar af hálfu sérfræðinga.
Í málinu liggja fyrir gögn frá geðdeildum Landspítala, dags. 6. nóvember til 2. desember 2019. Í læknabréfi, dags. 2. desember 2019, kemur m.a. fram að kærandi hafi þann 6. nóvember 2019 verið lagður inn á Landspítala háskólasjúkrahús, [...]. Þá kemur fram að við útskrift kæranda hafi honum verið ávísað viðeigandi lyfjum vegna andlegra veikinda sinna ásamt því að sálfræðiviðtöl hafi verið skipulögð.
Að mati kærunefndar er ljóst, með vísan til fyrirliggjandi heilsufarsgagna, að aðstæður kæranda séu þess eðlis að hann hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka hefur þurft tillit til við meðferð málsins.
Aðstæður á Ítalíu
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Amnesty International Report 2017/18 – Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
- Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 24. júní 2019),
- Annual Review of the Human Rights Situation of Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex People 2019 (ILGA Europe, 26. febrúar 2019),
- Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, 16. apríl 2019),
- Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017),
- ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016),
- Freedom in the World 2019 – Italy (Freedom House, 4. febrúar 2019),
- Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015),
- Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019),
- Italy: Health System Review. Health Systems in Transition (European Observatory on Health Systems and Policies, 2014),
- Mutual Trust is Still Not Enough. The situation of persons with special needs transferred to Italy under the Dublin III Regulation (Danish Refugee Council og Swiss Refugee Council, 12. desember 2018),
- Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),
- Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, desember 2019),
- UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013),
- Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/),
- Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy),
- Upplýsingar af vefsíðu samtakanna Baobab Experience (https://baobabexperience.org/) og
- World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).
Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að í ítalska hæliskerfinu sé ekki skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Hins vegar getur greining á þolendum pyndinga eða alvarlegs ofbeldis átt sér stað á öllum stigum umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd. Svokallaðar svæðisnefndir (í. Commissione territoriale per il riconoscimento della protezione internazionale) taka ákvörðun á fyrsta stigi málsmeðferðar og geta þær m.a. óskað eftir því að umsækjandi fari í sérstaka læknisskoðun þar sem fram fer mat á því hvaða áhrif ofsóknir og ofbeldi hafa haft á umsækjanda. Slíkt mat sé framkvæmt í samræmi við leiðbeiningarreglur sem gefnar hafa verið út af heilbrigðisráðuneytinu varðandi þjónustu til handa flóttamönnum sem þjást af andlegum veikindum og/eða eru þolendur pyndinga, nauðgana eða annars konar andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis.
Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér verður jafnframt ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu [...]. Þeir þurfa þó að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið en við slíka skráningu fá þeir útgefið tryggingarkort sem veitir þeim m.a. rétt á meðferð sérfræðilækna. Í sumum tilvikum geta tafir orðið á skráningu umsókna um alþjóðlega vernd á Ítalíu sem getur leitt til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa ekki aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Þeir hafa þó aðgang að bráðaheilbrigðisþjónustu. Skortur á sérhæfingu í málefnum flóttamanna og tungumálakunnátta gerir þó sumum umsækjendum um alþjóðlega vernd erfitt að sækja sér viðunandi heilbrigðisþjónustu, einkum einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá aðgang að ítalska vinnumarkaðnum tveimur mánuðum eftir að þeir hafa lagt fram umsókn sína. Þó kemur fram í framangreindum gögnum að atvinnuleysi á Ítalíu hafi verið mjög mikið á undanförnum árum og erfitt hafi reynst fyrir marga, jafnt ítalska ríkisborgara sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd, að finna atvinnu.
Af framangreindum skýrslum verður jafnframt ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál á Ítalíu en ítölsk stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að sporna við kynþáttafordómum og mismunun á grundvelli kynþáttar, m.a. með lagasetningu. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk yfirvöld tekið skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum, mismunun á grundvelli kynþáttar og hatursglæpum, þ. á m. með gerð aðgerðaráætlunar gegn kynþáttahyggju (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance) sem var í gildi á árunum 2014-2016. Ítölsk stjórnvöld hafa þó verið gagnrýnd fyrir að hafa m.a. ekki lagt nægilegt fjármagn til innleiðingar aðgerðaráætlunarinnar og verið hvött til þess að bæta skráningar á tilvikum er varða kynþáttafordóma, kynþáttamismunun, kynþáttahatur og tengdu umburðarleysi. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Ítalíu geti leitað sér aðstoðar ítalskra löggæsluyfirvalda vegna ofbeldisbrota og hótana.
Í framangreindum gögnum kemur jafnframt fram að hinsegin fólk (e. LGBTI) sé enn jaðarsettur hópur á Ítalíu sem verði m.a. fyrir fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu. Þrýst hafi verið á ítölsk stjórnvöld að lögfesta ýmis réttindi hópnum til handa en hægt hafi gengið í þeim efnum. Þó eru í gildi lög á Ítalíu sem banna mismunun á grundvelli kynhneigðar. Á Ítalíu er starfrækt stofnun (í. Ufficio Nazionale Antidiscriminazioni Razziali) sem hefur það hlutverk að berjast gegn hvers kyns mismunun. Einstaklingar sem telja sig hafa orðið fyrir mismunun þ. á m. vegna kynþáttar eða kynhneigðar og þurfa á aðstoð eða ráðgjöf að halda geta leitað til stofnunarinnar.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið greindur með [...] og hefur fengið viðeigandi meðferð og lyf vegna þess. Þá hefur kærandi glímt við andleg veikindi og verið innlagður á geðdeild [...]. Af gögnum um heilsufar kæranda má sjá að kærandi hafi þurft á lyfjum að halda vegna andlegra veikinda sinna og að fyrirhuguð eru viðtöl við sálfræðing í kjölfar útskriftar hans af geðdeild.
Framangreindar skýrslur og gögn bera með sér að þrátt fyrir að úrræði séu til staðar á Ítalíu sem eigi að veita einstaklingum í stöðu kæranda þjónustu og stuðning benda gögn málsins til þess að það geti verið erfiðleikum bundið að sækja sér slíka þjónustu og stuðning. Samkvæmt gögnum um aðstæður á Ítalíu geta orðið tafir á því að kærandi fái aðgang að þeirri þjónustu og úrræðum sem hann þarf á að halda auk þess sem einstaklingar geti mætt hindrunum við að verða sér úti um slíkan stuðning.
Kærunefnd telur ljóst að andleg veikindi kæranda eru alvarleg, auk þess sem hann er greindur með [...]. Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að kærandi megi vænta þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings á Ítalíu, m.a. vegna áhrifa eftirfarandi samverkandi þátta á burði hans til þess að sækja sér lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu; stöðu kæranda sem umsækjanda um alþjóðlega vernd [...] og alvarlegra andlegra veikinda hans, sbr. áðurnefnd viðmið í dæmaskyni um sérstakar ástæður í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á viðhlítandi heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu og meðferð við [...], þar í landi er það mat kærunefndar, eins og hér háttar sérstaklega til, einkum með tilliti til gagna um andlega heilsu kæranda, að ekki sé tryggt að hann hafi til að bera bjargráð, m.t.t. áðurgreindra aðgangshindrana, til að sækja sér slíka þjónustu.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, og í ljósi þess að kærandi sé hvoru tveggja [...] og glími við geðræn veikindi, að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant´s application for international protection in Iceland.
Áslaug Magnúsdóttir
Árni Helgason Þorbjörg Inga Jónsdóttir