Fjárlagafrumvarp 2013
Fréttatilkynning nr. 11/2012
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 ber þess merki að aðhaldssöm ríkisfjármálastefna undanfarinna ára, í kjölfar bankahrunsins, hefur skilað markverðum árangri. Þáttaskil eru að verða í þróun ríkisfjármála á Íslandi.
Heildarjöfnuður ríkissjóðs 2009-2013
Ríkisfjármálastefnan hefur byggt á tveimur grundvallarmarkmiðum. Annars vegar að frumjöfnuður, þ.e. rekstrarafkoma án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, verði jákvæður á þessu ári og hins vegar að heildarjöfnuður, þegar vaxtajöfnuður er talinn með, skili afgangi árið 2014. Markmiðin eru sett á greiðslugrunni en fjárlagafrumvarpið 2013 er á rekstrargrunni og eru allar tölur eru birtar á rekstrargrunni nema annað sé tekið fram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir lítils háttar halla á heildarjöfnuði, þ.e. mismuni á heildartekjum og heildargjöldum ríkissjóðs, sem nemur 2,8 mia.kr, eða 0,1% af VLF. Heildarjöfnuður verður jákvæður sem nemur 17,8 mia.kr eða 0,9% af VLF á árinu 2014.
Í fjárlagafrumvarpinu 2013 er ekki gert ráð fyrir miklum skattkerfisbreytingum og markmið um aðhald eru hófleg. Í ákveðnum málaflokkum er gert ráð fyrir auknum framlögum í samræmi við nýjar áherslur og stefnumið ríkisstjórnarinnar. Hér skal sérstaklega nefna hækkun barnabóta og aukin framlög til samgöngumála.
Fjárlagafrumvarpið hefur alla tíð verið lagt fram þegar þing kemur saman í byrjun október. Í kjölfar breytinga á lögum um þingsköp Alþingis er það nú í fyrsta sinn lagt fram eftir þingsetningu 11. september.
Helstu atriði í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013
- Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður verði 60 mia.kr, eða 3,2% af landsframleiðslu.
- Heildarjöfnuður ríkissjóðs verði neikvæður sem nemur einungis 0,1% af VLF ef óreglulegir liðir eru meðtaldir en að þeim frátöldum verði hann lítils háttar jákvæður. Einkum eru það þrjú atriði sem hér hafa áhrif; stöðugur hagvöxtur, auknar tekjur af auðlindum og áframhaldandi aðhald í ríkisrekstri.
- Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 573,1 mia.kr. í frumvarpinu á árinu 2013. Útgjöldin hækka um 13,7 mia.kr frá endurskoðaðri áætlun um útkomuna á árinu 2012. Frumgjöld hækka um 6,6 mia.kr. en mismunurinn skýrist af því að gert er ráð fyrir 7,2 mia.kr. hækkun vaxtagjalda miðað við áætlaða útkomu ársins 2012
- Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2013 eru áætlaðar 570,3 mia.kr. og er það aukning um 36,8 mia.kr. frá áætlaðri endurmetinni útkomu ársins 2012.
- Skatttekjur eru alls áætlaðar 508,8 mia.kr. og aukast um 29,0 mia.kr. milli ára, að mestu leyti í óbeinum sköttum.
- Tekjuhlið frumvarpsins ber skýr merki um efnahagsbatann sem hafinn er. Hann hefur þegar haft jákvæð áhrif á marga helstu tekjustofna ríkissjóðs. Grunnspá um tekjustofna ríkisins hefur því hækkað um nálægt 6 mia.kr. fyrir árið 2013 umfram fyrri áætlum m.a. í ljósi aukinna tekna á þessu ári.
- Í frumvarpinu er að finna áform ríkisstjórnarinnar um að auka tekjur hins opinbera af erlendum ferðamönnum. Verður það gert með þeim hætti að virðisaukaskattur á hótel– og gistiþjónustu verður hækkaður úr lægra þrepi kerfisins í það hærra, þ.e.a.s. úr 7% í 25,5%. Gert er ráð fyrir að það auki tekjur ríkissjóðs um 3,5 mia.kr. á ársgrunni en 2,6 mia.kr. á næsta fjárlagaári þar sem breytingin taki gildi þann 1. maí 2013.
- Frumvarpið ber með sér nýja stefnumörkun og áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi ráðstafanir á útgjaldahlið. Framlög upp á alls 9,5 mia.kr. fara í þessi útgjöld. Þar af eru 3,8 mia.kr til verkefna úr fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin kynnti í maí. 5,7 mia.kr í nýjum framlögum verða einnig nýttar í þessu skyni.
- 1,3 mia.kr renna til nýsköpunar í atvinnnumálum með styrkingu rannsókna- og tæknisjóða.
- 2,5 mia.kr eru ætlaðir til samgönguframkvæmda.
- 4,3 mia.kr eru ætluð til að styðja barnafjölskyldur og fjölskyldur í greiðsluvanda vegna bankahrunsins. Þar af eru 2,5 mia.kr auknar barnabætur, 0,8 mia.kr auknar greiðslur í fæðingarorlofi, 1 mia.kr auknar vaxta/húsnæðisbætur
- Einnig er um að ræða mjög umtalsverða hækkun á framlögum til þróunaraðstoðar í öðrum löndum í samræmi við þingsályktun þar um.
- Áhrif launa-, gengis- og verðlagsbreytinga í frumvarpinu eru umtalsverð, eða 13,3 mia.kr., en eru þó verulega lægri en í fjárlögum ársins 2012 þar þau voru tvöfalt hærri.
- Stöðugur vöxtur hefur verið í landsframleiðslu og atvinnuleysi minnkað jafnt og þétt síðustu mánuði. Megindrifkraftur hagvaxtarins hefur verið innlend eftirspurn, þ.e. einkaneysla og fjárfesting, en jafnframt hefur útflutningur vaxið. Spáin gerir ráð fyrir stöðugum vexti á helstu sviðum efnahagslífsins. Hagvöxturinn var 2,6% í fyrra og gert er ráð fyrir, samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar frá júlí sl. að hann verði 2,8% á þessu ári og haldist stöðugur út spátímann sem nær til ársins 2017.
Í greinargerð með frumvarpinu er að finna endurskoðaða og uppfærða áætlun um ríkisfjármálastefnuna til næstu fjögurra ára.
Einnig er vakin athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins er www.fjarlog.is.
Frekari upplýsingar veitir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í síma 545-9200.
Reykjavík, 11. september 2012