Bygging hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut boðin út
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur falið Framkvæmdasýslu ríkisins að bjóða út byggingu hjúkrunarheimilis fyrir 110 aldraða við Suðurlandsbraut 66 í Reykjavík. Áætlað er að nýtt heimili verði tekið í notkun um mitt ár 2010.
Heimilið verður á fjórum hæðum og er stærð þess tæpir 7.700 fermetrar. Þjónusturými, matsalur og skrifstofur stjórnenda verða á jarðhæð en hjúkrunardeildir á öðrum hæðum. Af 110 hjúkrunarrýmum verða 40 þeirra sérstaklega ætluð heilabiluðum og 10 rými verða fyrir aldraða með geðfötlun. Allir íbúar heimilisins munu eiga kost á einbýli með baðherbergi og verður einkarými hvers og eins um 24 fermetrar.
Áætlaður heildarkostnaður verksins er um 2,2 milljarðar króna og miðast þá við að heimilið sé fullbúið til reksturs með öllum nauðsynlegum búnaði. Fjármögnun skiptist þannig að 45% kostnaðar greiðir ríkið, Reykjavíkurborg greiðir 30% og Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir 25%.
Undirbúningur verksins hefur staðið yfir í nokkur ár á vegum heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Öll útboðsgögn liggja fyrir og mun Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsa eftir tilboðum um næstu helgi. Gera má ráð fyrir að átta vikur líði frá auglýsingu þar til niðurstöður útboðs liggja fyrir og unnt er að hefja framkvæmdir.
Arkitektar hússins eru Yrki ehf., VGK-Hönnun hf. og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. hafa séð um verkfræðiráðgjöf og Landslag ehf. um landslagshönnun. Jarðvinnu er þegar lokið og sáu Jarðvélar ehf. um verkið.