Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sameiginleg innritunargátt háskóla á Íslandi

Sameiginleg innritunargátt háskóla á Íslandi - myndHáskóli Íslands

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur lagt á borð ríkisstjórnar minnisblað til upplýsingar hvað varðar sameiginlega innritunargátt íslenskra háskóla. Undanfarna mánuði hefur spretthópur innan ráðuneytisins unnið að undirbúningi á nýju fjármögnunarlíkani háskóla. Niðurstaða þessa starfs er að fyrsta skrefið sé að koma á fót sameiginlegri innritunargátt allra háskóla á Íslandi.

Um er að ræða framsækið verkefni á sviði upplýsingatækni á háskólastigi. Sameiginleg innritunargátt háskólanna felur það í sér að í stað þess að sótt sé um nám á vefsíðu hvers háskola fyrir sig þá sæki nemendur um á island.is. Ráðherra hefur nú þegar átt viðræður við rektora allra háskólanna sem öll eru afar jákvæð gagnvart verkefninu.

Bætt þjónusta við nemendur og umsækjendur

Sameiginlegri innritunargátt fylgja aukin tækifæri til bættrar þjónustu við bæði nemendur og umsækjendur um nám. Þetta birtist m.a. í ítarlegri upplýsingum um námsframboð, innritunarkröfur, skipulag náms og námsfyrirkomulag. Þá er gert ráð fyrir greiðara aðgengi að áhugasviðskönnunum, námsráðgjöf og stoðþjónustu, auk námsmats og tengingu við Menntasjóð. Einnig verður tölfræði um nám og starfsvettvang brautskráðra nemenda aðgengileg í innritunargáttinni sem að auki ber með sér tækifæri til samþættingar prófgráða og fleiri möguleikum fyrir nemendur.

Ávinningur nemenda felst m.a. í bættum undirbúningi þeirra fyrir háskólanám og betri upplýsingum um námstækifæri og atvinnumöguleika að námi loknu. Ákvörðun um nám er stór í lífi hvers einstaklings og mikilvægt er að hún byggi á fjölbreyttum og haldgóðum upplýsingum. Þá er ljóst að rétt námsval í upphafi námsferils í háskóla dregur úr líkum á brottfalli úr námi.

Tölfræðigögn og aukið samstarf háskóla nytsamlegt stjórnvöldum

Miðlægri innritunargátt fylgir einnig ábati fyrir stjórnvöld sem með þessu öðlast betri yfirsýn yfir umsóknir nemenda sem m.a. nýtist stjórnvöldum og háskólum við stefnumótun og við undirbúning fjárlagagerðar hverju sinni. Jafnframt liggja fjölmörg tækifæri í auknu samstarfi háskólanna sem leitt geta til aukinnar skilvirkni, bættra gæða og upplýsingagjöf og aukinni hagkvæmni í rekstri.

,,Háskóli Íslands telur tímabært að taka sameiginlega innritunargátt háskólanna til rækilegrar skoðunar. Slíkt verklag við innritun tíðkast víða m.a. á hinum Norðurlöndunum. Sameiginleg innritunargátt gæti m.a. eflt samstarf á milli íslensku háskólanna og gæti einnig auðvelda stefnumótun og framkvæmd stefnu um málefni háskólastigsins. Þá myndi innritunargáttin efla upplýsingagjöf fyrir verðandi háskólanemendur sem er afar jákvætt,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Háskólarnir hafa þegar fengið sent erindi þar sem óskað er eftir tilnefningum þeirra í sérstakt ráðgjafaráð verkefnisins, en sérfræðingar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins ásamt sérfræðingum frá verkefnastofu um Stafrænt Íslands munu leiða vinnuna. Þá verður leitað til hagaðila á borð við Landssamtök íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Menntasjóðs eftir því sem við á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta