Nr. 498/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 498/2018
í stjórnsýslumálum nr. KNU18100007 og KNU1810008
Kæra [...],
[...]
og barns þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 3. október 2018 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 12. september 2018 um að synja kærendum og barni þeirra, [...] fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefjast kærendur þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. ágúst 2017 og sætti mál þeirra upphaflega meðferð á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin) en samkvæmt dagbókarfærslu Útlendingastofnunar dags. 10. apríl 2018 og tölvupósti stofnunarinnar til talsmanns kærenda þann 21. júní s.á. voru umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd teknar til efnismeðferðar. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 9. og 10. ágúst 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 12. september 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 3. október 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 18. október 2018 ásamt fylgigögnum. Þann 14. nóvember 2018 barst kærunefnd viðbótargreinargerð frá kærendum.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna ótta við ofsóknir af hálfu fjölskyldumeðlima K.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kom fram að þann 13. ágúst 2018 hafi M og K verið boðið að viðtal yrði tekið við A sem þau hafi óskað eftir að yrði ekki gert. Að teknu tilliti til þess, ungs aldurs A og frásagnar M og K var ákveðið að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við hana. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1.mgr. 106. gr. laga um útlendinga.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda er málsmeðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum rakin. Þá kemur fram að kærendur hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að þau hafi átt í ástarsambandi frá árinu 2010. Samkvæmt lögum, trúarbrögðum og fjölskyldum þeirra séu ástarsambönd einstaklinga sem séu ekki í hjúskap ólögleg í heimaríki þeirra. Slík sambönd varði sektum eða fangelsisvist. Í nóvember [...] hafi komið í ljós að K væri barnshafandi og hafi kærendur þá ákveðið að ganga í hjónaband. Til þess hafi þó þurft samþykki beggja fjölskyldna þeirra en slíkt samþykki hafi ekki fengist frá fjölskyldu M. K hafi orðið óttaslegin þegar hafi liðið á meðgönguna og hafi leitað til læknis [...]. Móðir og bróðir K hafi þá komist að því að K væri barnshafandi og í kjölfarið hafi þau beitt K alvarlegu líkamlegu ofbeldi og krafist þess að K greindi frá því hver væri faðir barnsins. Þau hafi m.a. [...]. Faðir K hafi verið veikur og í kjölfar álags framangreindra atvika hafi veikindi hans versnað með þeim afleiðingum að hann hafi látist þann [...]. Fjölskylda K hafi kennt henni um dauða föður hennar. K hafi náð að flýja heimilið og komist í samband við M og hafi þau ákveðið að flýja til borgarinnar [...] og þaðan til bæjarins [...] þar sem þau hafi ætlað að setjast að. Þau hafi hins vegar ekki fundið neinn sem hafi viljað leigja ógiftu pari húsnæði og hafi því farið til bæjarins [...] þar sem þau hafi fengið leiguhúsnæði gegn loforði um að þau myndu gifta sig sem fyrst. Hafi kærendur farið til hjónavígslumanns sem hafi krafið þau um tiltekin skjöl til að gifting gæti farið fram en kærendur hafi sökum flótta síns átt erfitt með að útvega nauðsynleg skjöl. K hafi síðan fætt barn þeirra á sjúkrahúsi en hafi verið skráð einhleyp þar sem hún hafi ekki verið með hjúskaparvottorð. K hafi fætt barn þeirra á [...] en hún hafi verið handtekin á [...]. Hafi M farið á lögreglustöðina til að vitja K en hafi sjálfur verið handtekinn og færður til yfirheyrslu. Kærendum hafi verið tilkynnt að refsivert sé að eignast barn utan hjónabands og geti slíkt brot varðað allt að [...] fangelsisvist fyrir hvort foreldri. Kærendur hafi greint lögreglunni frá því að þau hygðust ganga í hjúskap og hafi þau því hlotið fésekt í stað fangelsisrefsingar. Í [...] hafi síðan frændi og bræður K ráðist á M og beitt hann alvarlegu ofbeldi sem hafi leitt til þess að hann hafi þurft að leita á sjúkrahús. Á sjúkrahúsinu hafi lögreglan tekið skýrslu af M vegna árásarinnar en hafi síðan tjáð honum að lögreglan geti ekkert aðhafst vegna ástæðu árásarinnar, þ.e. að kærendur eigi saman barn utan hjónabands. Þá hafi kærendur reynt að leggja fram kæru en verið tjáð að þar sem árásarmennirnir hafi komið frá öðrum bæ þurfi formleg kæra að vera lögð fram þar. Þegar M hafi jafnað sig af afleiðingum árásarinnar hafi kærendur flutt til [...] þar sem M hafi fengið vinnu á markaði og húsaskjól á bóndabæ í gegnum frænda sinn í óþökk annarra fjölskyldumeðlima. Kærendur hafi ráðið sér lögfræðing í lok árs [...] þegar þau hafi náð að afla nægilegra fjármuna og fengið hjúskaparvottorð útgefið í [...]. Í [...] hafi sonur frænda M, sem kærendur hafi verið búsett hjá, lagt fram kæru á hendur M fyrir að hafa eyðilagt tré á bóndabænum og þar með valdið fjárhagslegu tjóni. M hafi greint frá því að um rangar sakargiftir hafi verið að ræða í því skyni að losna við kærendur af bænum. M hafi átt takmarkaða möguleika á að verjast ásökunum þar sem hann hafi barneignir utan hjónabands á sakaskrá sinni. Frændi M hafi þó ekki stutt son sinn og hafi aðstoðað kærendur við að komast til Frakklands. Kærendur hafi greint frá því að þau óttist ekki fjölskyldu M sem hafi afneitað honum en þau óttist að fjölskylda K muni myrða þau vegna þeirrar smánunar sem getnaður utan hjónabands feli í sér í [...] samfélagi. Þá kemur fram að K hafi [...] í lok árs [...] en sé nú barnshafandi að nýju.
Kærendur fjalla í greinargerð sinni um aðstæður í [...], m.a. um aðstæður þeirra sem eignist barn utan hjónabands, spillingu innan lögreglunnar og heiðursmorð. Kærendur vísa til skýrslna um [...] máli sínu til stuðnings.
Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi þar sem þau séu ofsótt í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. laga um útlendinga. Þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, þar sem þau óttist heiðursmorð af hálfu fjölskyldu K sem vilji myrða kærendur til að bjarga heiðri ættarinnar. Mögulegir þolendur heiðurstengds ofbeldis séu sérstakur þjóðfélagshópur í [...], skv. skilgreiningu d-liðar 38. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá óttist kærendur athafnaleysi lögregluyfirvalda þar sem þau skorti vilja til að vernda þau þar sem kærendur séu nú þegar talin glæpamenn þar sem þau hafi átt barn utan hjónabands. Kærendur vísa til heimilda um heimaríki sitt kröfunni til stuðnings og þess að þau hafi nú þegar orðið fyrir alvarlegum árásum af hálfu fjölskyldu K en lögreglan hafi neitað að rannsaka málið stöðu þeirra vegna. Þá séu líkur á að þau séu í áframhaldandi hættu verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis og geti þau ekki leitað ásjár yfirvalda. Þá hafi kærendur reynt að flýja innanlands en fjölskylda K hafi fundið þau og ráðist á þau. Endursending kærenda myndi jafnframt brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá myndi slík ákvörðun jafnframt brjóta gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu og 33. gr. flóttamannasamningsins. Þá reifa kærendur sjónarmið handbókar Flóttamannastofnunar máli sínu til stuðnings.
Þá krefjast kærendur til vara að þeim verði veitt viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau hafi ekki fengið aðstoð lögreglu vegna árásar fjölskyldu K á M. Þá þurfi að hafa í huga að kærendur séu talin vera sakamenn skv. sakaskrá þeirra í heimaríki og séu berskjölduð fyrir árásum fjölskyldu K. Með vísan til þess sem fram komi í viðtölum við kærendur sé ljóst að þau eigi í raunverulegri hættu á alvarlegum skaða verði þeim gert að snúa til baka til heimaríkis.
Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða annarra atvika sem ekki megi með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Kærendur vísa til þeirra sjónarmiða sem fram komi í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 um 74. gr. laganna. Kærendur hafi sætt ofbeldi af hálfu fjölskyldu K sem telji þau hafa smánað ættina. Þá séu félagslegar aðstæður kærenda erfiðar þar sem þau hafi ekki bakland í heimaríki og hafi verið útskúfuð vegna framangreindra atvika. Þá muni lögregla og yfirvöld ekki veita kærendum vernd gegn því ofbeldi sem þau standi frammi fyrir við endursendingu. Nauðsynlegt sé að heildarmat fari fram á aðstæðum kærenda.
Kærendur fjalla í greinargerð um hagsmuni barns sín en þau eigi eitt barn sem sé á viðkvæmum aldri og í erfiðum aðstæðum. Börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Kærendur vísa til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmálans, laga um útlendinga og tilskipana Evrópusambandsins nr. 2011/95/ESB, 2013/32/ESB og 2013/33/ESB máli sínu til stuðnings. Þá vísa kærendur til þess að í reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 sé lögð áhersla á að hagsmunir barns séu hafðir að leiðarljósi við ákvörðun um hvort mál þess verði tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi. Þá vitna kærendur til almennra athugasemda Barnaréttarnefndar um hvað sé barni fyrir bestu. Mikilvægt sé að búa kærendum aðstæður sem geri þeim kleift að veita barni sínu þá umönnun og það öryggi sem það þarfnist og eigi rétt á. Brýnt sé fyrir andlega og líkamlega heilsu þess sem og framtíð að það alist upp í öruggu umhverfi.
Kærendur gera í greinargerð athugasemdir við hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar. Kærendur geri m.a. athugasemdir við þær heimildir sem Útlendingastofnun styðjist við varðandi aðstæður í heimaríki kærenda en þær séu allt að tíu ára gamlar. Þá komi fram í ákvörðunum stofnunarinnar að breytingar hafi orðið í heimaríki kærenda en ekki hvort þær hafi haft áhrif í raun. Kærendur gera jafnframt athugasemd við að í ákvörðununum komi ekki fram að kærendur hafi aðeins getað fengið viðeigandi skráningu fyrir dóttur sínar gegn mútugreiðslum. Þá sé ekki tekið tillit til þess að kærendur séu á sakaskrá og aðstæðna þeirra í heimaríki sökum þess. Af framangreindu virtu sé það mat kærenda að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur árétta loks að vafa beri að meta þeim í hag.
Þá barst viðbótargreinargerð í máli kærenda þar sem krafa er gerð um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða skv. lögum nr. 81/2017. Sú krafa er grundvölluð á því að kærendur hafi ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 15 mánaða frá því að þau hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað [...] vegabréfum fyrir sig og barn þeirra. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra séu [...] ríkisborgarar.
Réttarstaða barns kærenda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
• […]
[...]
[...].
Samkvæmt skýrslu UN Women frá [...] sem byggir hvoru tveggja á heimildum um stöðu kynjanna í [...] og rannsókn sem stofnunin hafi framkvæmt í ríkinu kemur fram að nokkurrar togstreitu gæti í [...] varðandi jafnrétti kynjanna þar sem íhaldssöm kynjahlutverk tíðkist en vilji sé til breytinga á sumum sviðum, m.a. sé mikill stuðningur við að konur vinni úti og taki þátt í stjórnmálum. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2018 kemur fram að tilkoma fjölskyldulaga árið [...] hafi bætt réttarstöðu kvenna varðandi hjúskap, hjónaskilnað og forsjármál. Þó mismuni lögin enn konum, t.a.m. varðandi erfðarétt. Þá sé kynlíf utan hjónabands refsivert og geti konur og stúlkur sem verði barnshafandi eða eignist barn utan hjónabands átt í hættu að verða sóttar til saka. Í skýrslu UN Women kemur fram að hjúskapur í [...] byggist bæði á einstaklingsvali og þátttöku fjölskyldunnar. Samkvæmt skýrslu norsku útlendingastofnunar frá árinu 2017 er val á maka almennt einstaklingsbundið en fjölskylda brúðgumans hafi þó enn veigamikið hlutverk í ákvörðuninni. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að samkvæmt fjölskyldulögum sé fjölskyldan á ábyrgð beggja aðila, skilnaður sé leyfilegur með samþykki beggja og fjölkvæni hafi verið takmarkað.
Í ofangreindri skýrslu UN Women kemur fram að [...] % karlkyns þátttakenda í rannsókninni hafi greint frá því að þeir telji heiður sinn sem karlmanns beintengdan kvenkyns ættingjum sínum, t.a.m. hegðun þeirra og klæðaburði. Þá telji meirihluti [...] karlmanna það skyldu sína að vernda heiður kvenna og stúlkna í fjölskyldu sinni og tæplega þriðjungur styðji í sumum tilfellum sæmdarmorð. Sæmdarmorð séu framin þegar fjölskyldumeðlimir, oftast konur, eru taldar hafa varpað rýrð á heiður fjölskyldunnar með ákveðinni hegðun sem talin sé syndsamleg, oftast kynferðislegs eðlis. Fáir þátttakendur í rannsókninni hafi greint frá því að þekkja dæmi um sæmdarmorð í samfélögum sínum síðastliðið ár en tölfræðiskýrslum um slík morð sé ábótavant. Þriðjungur karlmanna telji að þolendur sæmdarmorða eigi refsinguna skilið en afgerandi meirihluti kvenna telji slíka refsingu ekki réttlætanlega. Engin sértæk ákvæði sé að finna í [...] lögum sem banni sæmdarmorð og heiðurstengt ofbeldi en slík brot falli undir önnur refsiákvæði.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 kemur fram að stjórnvöld hafi skilvirka stjórn á löggæslustofnunum ríkisins. Nokkur dæmi hafi verið árið 2017 um rannsóknir eða saksóknir á mannréttindabrotum opinberra starfsmanna, bæði í öryggissveitum og öðrum stjórnvöldum. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að löggæslunni í landinu sé dreift niður á nokkrar mismunandi stofnanir, þ. á m. ríkislögregluna sem sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Til staðar sé til að mynda embætti umboðsmanns, sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum og rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans vegna brota á grundvallarréttindum borgara landsins. Gögn kveði á um að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá gæti virðingarleysis gagnvart landslögum hjá öryggissveitum landsins. Dómskerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála.
Samkvæmt vefsíðu bandarísku velferðarstofnunarinnar er almannatryggingakerfi við lýði í [...]. Þá eigi íbúar landsins m.a. rétt á atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og barnabótum. Þá kemur fram í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að stjórnarskrá ríkisins tryggi borgurum þess rétt til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið og hafi allir íbúar landsins aðgengi að endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu hins opinbera.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærendur byggja ástæður flótta síns á því að þau óttist ofsóknir af hálfu fjölskyldu K þar sem þau hafi átt í ástarsambandi og eignast barn utan hjónabands. Fjölskylda K hafi beitt hana alvarlegu ofbeldi í byrjun árs [...] þegar þau hafi komist að því að hún hafi verið barnshafandi. Þá hafi kærendur flúið saman innan [...] en fjölskylda K hafi fundið þau árið [...] og beitt M alvarlegu ofbeldi. Kærendur kveða lögreglu í heimaríki ekki hafa vilja til að aðstoða þau þar sem þau hafi hlotið sekt fyrir barneignir utan hjónabands og séu á sakarskrá vegna brotsins. Einnig hafi kærendur reynt að tilkynna árásina sem M hafi orðið fyrir til lögreglu en hún hafi ekki viljað aðhafast þar sem um fjölskyldumál sé að ræða og vegna þess að gerendurnir hafi verið búsettir í öðrum bæ.
Eins og að framan greinir óttist kærendur um líf sitt verði þeim gert að snúa aftur til [...]. Hafa kærendur greint frá hótunum og ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir af hálfu fjölskyldu K. Kærendur hafa lagt fram [...] fjölskyldubók, heilsubók barns þeirra, staðfestingu [...] yfirvalda á málaferlum vegna hjúskaparleyfis, afrit af hjúskaparvottorði þeirra og ráðningarsamning M við frænda sinn við meðferð málsins. Jafnframt hafa kærendur lagt fram læknisfræðileg gögn, m.a. gögn frá Göngudeild sóttvarna, greinargerð sálfræðings og samskiptaseðil mæðraverndar þar sem fram kemur að K sé barnshafandi. Kærendur hafa ekki lagt fram lögregluskýrslur né læknisfræðileg gögn um afleiðingar árásanna sem þau hafi orðið fyrir í heimaríki. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um aðstæður í heimaríki kærenda kemur fram að samlífi og barneignir utan hjónabands séu refsiverðar athafnir í heimaríki þeirra jafnframt sem heiðurstengt ofbeldi tíðkist í einhverjum mæli. Gögn benda til þess að einstaklingar sem hafi gerst sekir um framangreindan verknað kunni að standa höllum fæti í heimaríki kærenda. Kærendur hafa hins vegar lagt fram gögn um að þau séu nú í löggildum hjúskap og að barn þeirra hafi verið skráð í fjölskyldubók í heimaríki. Það er mat kærunefndar í ljósi frásagnar kærenda, gagna málsins og fyrirliggjandi gagna um heimaríki þeirra að aðstæður kærenda við endurkomu til heimaríkis séu ekki þess eðlis að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna hjúskaparstöðu.
Í greinargerð kærenda kemur fram að sonur frænda M sem M og K hafi verið búsett á sveitabýli hjá hafi sakað M um að hafa eyðilagt tré á býlinu og kært M af þeim sökum til lögreglunnar. Í viðtali við M hjá Útlendingastofnun kom fram að frændi M styddi hann í málinu auk þess að M kvaðst ekki telja á hann ætti hættu á saksókn vegna málsins í heimaríki. Í ljósi framburðar kæranda er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna þessa atburðar.
Kærendur hafa ekki borið fyrir sig ofsóknum af hálfu [...] stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim og ekkert í gögnum málsins bendir til ofsókna af þeirra hálfu gagnvart kærendum. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka að kærendur verði fyrir áreiti af hálfu fjölskyldu K við endurkomu til heimaríkis þá hafi kærendur aflað allra tilhlýðilegra skráninga og vottorða um hjúskap þeirra og barn sitt og er það því mat kærunefndar að þau geti leitað aðstoðar lögreglu eða annarra stjórnvalda verði þau fyrir áreiti af hálfu fjölskyldu K. Það er því mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í [...] geti ekki eða vilji ekki veita þeim vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá sé einnig til staðar embætti umboðsmanns í ríkinu sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum. Kærendur hafa því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef þau telja sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barns kærenda, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska.
Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barns þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendingaÞar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga.
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a-d lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Með lögum um breytingu á lögum um útlendinga nr. 81/2017, sem tóku gildi þann 29. september 2017, hefur til bráðabirgða verið bætt tveimur nýjum ákvæðum við lög um útlendinga nr. 80/2016.
Í ákvæði II til bráðabirgða við lögin segir m.a.:
Þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. skal miða við 15 mánuði í stað 18 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.
Kærendur lögðu fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 14. ágúst 2017 ásamt barni sínu. Kærendur og barn þeirra hafa ekki enn þá fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærendur og barn þeirra sóttu fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 22. nóvember 2018, eru liðnir rúmir 15 mánuðir. Barn kærenda telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin.
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem koma fram í a- til d-lið málsgreinarinnar. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu verður því ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Hvað varðar dóttur kærenda þá telur nefndin að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. 74. gr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar er dóttir kærenda það ung að árum að ekki sé raunhæft að ætla að hún hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af henni. Þegar litið er til gagna málsins er það því mat kærunefndar að kærendur og dóttir þeirra uppfylli skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er enn fremur mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga gildi ekki um barn kærenda af ástæðum sem raktar eru í a. – d. lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og með vísan til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2018 um breytingu á lögum um útlendinga verður kærendum einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin.
Úrskurðarorð
Lagt er fyrir stofnunina að veita kærenda og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kærenda og barni þeirra varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.
The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellants and their child based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child related to their applications for international protection are affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvason Þorbjörg Inga Jónsdóttir