Tækninýjungar gætu umbylt mannúðaraðstoð í heiminum
Nýjungar í tækni hafa alla burði til þess að umbylta mannúðaraðstoð í heiminum og skapa tækifæri til skjótari viðbragða, hraðari og skilvirkari aðgerða. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá OCHA, Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum.
Skýrslan ber yfirskriftina „Frá stafrænum fyrirheitum til framlínustarfa“ (From Digital Promise to Frontline Practice). Þar segir að unnt verði með gervigreind að auðvelda greiningu og túlka flókin gögn til að bæta áætlanir og ákvarðanatöku í mannúðarastarfi. Bent er á að þeir sem lenda í mannúðarkrísum geti nýtt sér farsímaöpp, snjallmenni (chatbots) og samfélagsmiðla til að lýsa aðstæðum sínum og fengið endurgjöf. Enn fremur segir að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi sýnt að margvísleg starfsemi hafi á einni nóttu verið flutt yfir í stafrænt umhverfi.
Í skýrslunni er hins vegar einnig undirstrikað að slíkum kostum fylgi flóknar áskoranir og áhætta. Til dæmis geti ófullnægjandi gagnavernd og persónuvernd valdið tjóni og aukið óöryggi, aðgengi að tækni eða stafrænt læsi geti aukið á veikleika og kynjamun, svo dæmi séu nefnd.
Skýrsluhöfundar segja tæknina sjálfa og innleiðingu hennar ekki breyta hugmyndafræði mannúðar, mikilvægast sé að tryggja að hún verndi umfram allt mannlíf og reisn.
Skýrslan verður formlega kynnt á stafrænum fundi á vegum OCHA á fimmtudag í næstu viku.