Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 494/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 494/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080011

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. ágúst 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. júlí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er aðallega krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 20. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 4. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 7. ágúst 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 27. ágúst 2018. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu dagana 3. og 10. september sl. Kærandi óskaði eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 1. nóvember sl. ásamt talsmanni sínum og túlki. Lagði kærandi þá fram frekari gögn í máli sínu. Þá lagði kærandi fram fyrir kærunefnd frekari viðbótargögn og upplýsingar með tölvupóstum dags. 1., 5. og 9. nóvember sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sæti ofsóknum af hálfu yfirvalda í heimaríki sínu vegna mannréttindabaráttu sinnar, þátttöku í stjórnarandstöðu, rannsóknar á andláti embættiskonu og þess að hann tilheyri þjóðernisminnihluta í heimaríki.

Það var mat Útlendingastofnunar að misræmi væri í frásögn kæranda sem væri til þess fallið að draga úr trúverðugleika hans. Þá var það mat stofnunarinnar að flótta kæranda frá heimaríki hefði ekki borið það brátt að að ósanngjarnt þætti að krefjast gagna af einhverju tagi sem væru til þess fallin að leggja grunn að málsástæðum hans. Með vísan til frásagnar kæranda, að virtu trúverðugleikamati og heimildum sem stofnunin hefði skoðað var ekki fallist á að kærandi hefði ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu [...]stjórnvalda.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá frestaði kæra réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að flótta hans frá [...] megi annars vegar rekja til virkni hans sem stjórnarandstæðings, baráttu hans fyrir mannréttindum og rannsóknar hans á andláti [...], skattstjóra landsins. Hins vegar megi rekja flótta hans til aðstæðna þjóðernisminnihlutans [...] og vandamála sem hann standi frammi fyrir í heimaríki kæranda. Kveður kærandi að eftir viðtal hans hjá Útlendingastofnun hafi brotist út eins konar stríð á milli þjóðflokka í landinu. Einstaklingar af [...]-uppruna hafi einfaldlega fengið nóg, þeir fái enga atvinnu, hafi engin réttindi og því hafi þeir gert uppreisn. Kærandi kveður að hann sé sannfærður um að hann verði tekinn af lífi snúi hann aftur til [...]. Hann hafi verið eftirlýstur í öllum fjölmiðlum og í [...] sé heimilt að beita dauðarefsingu. Kærandi óttist refsileysi og lögleysu, forseta landsins og ofbeldi [...] hersins.

Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni ítarlega um aðstæður í [...] og vísar í því sambandi til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um ástand mannréttindamála í [...] fyrir árið 2017. Í skýrslunni komi m.a. fram að meðal alvarlegustu mannréttindabrota þar í landi séu morð og ofbeldi af hálfu öryggissveita, þ. á m. pyndingar, handahófskenndar handtökur, óhófleg beiting varðhalds, þ. á m. gagnvart pólitískum föngum án aðkomu dómsvaldsins, handahófskennd afskipti yfirvalda af friðhelgi einkalífs einstaklinga, takmarkanir á funda- og fjölmiðlafrelsi, gríðarleg spilling á öllum stigum stjórnkerfisins, ofbeldi gagnvart konum og stúlkum, þvinguð hjónabönd, kynfæralimlesting kvenna, mismunun gagnvart fólki með fötlun, mansal og refsileysi gagnvart valdamönnum.

Til stuðnings kröfu sinni um alþjóðlega vernd vísar kærandi til 1. mgr. 37. gr., 38. gr. og 40. gr. laga um útlendinga, sbr. a-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967. Kveður kærandi að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, þjóðernis og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá fjallar kærandi m.a. um hugtökin ofsóknir, þjóðfélagshópar og ástæðuríkur ótti í skilningi flóttamannasamningsins og vísar í því sambandi m.a. til 33. gr. samningsins og handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Kærandi sé í stjórnarandstöðu, tilheyri minnihlutahópi og hafi margsinnis verið handtekinn og beittur ofbeldi af hálfu lögreglunnar og hersins. Hann óttist að stjórnvöld, forseti landsins, [...], og hersveitir muni ráða hann af dögum þar sem hann sé virkur í stjórnarandstöðu og hafi gagnrýnt yfirvöld á opinberum vettvangi. Þá sé hann í mannréttindaráði [...], hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðum og sé meðlimur samtaka sem séu á móti forseta landsins og berjist gegn pólitískum morðum. Kærandi vísar jafnframt, kröfu sinni til stuðnings, til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um meðlimi tiltekinna þjóðfélagshópa. Þá kveður kærandi að endursending hans til [...] myndi fela í sér brot gegn meginreglunni um non-refoulement og vísar í því sambandi til 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til stuðnings varakröfu sinni um viðbótarvernd vísar kærandi m.a. til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, lögskýringargagna að baki ákvæðinu, 2. gr. e og 15. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins 2004/83/EB, meginreglunnar um non-refoulement og áðugreindra þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands.

Þá kveður kærandi að 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, um vernd í öðrum landshluta heimalands, eigi ekki við í máli hans. Í ljósi þess að kærandi sé ofsóttur af stjórnvöldum eigi hann ekki möguleika á raunverulegri vernd nokkurs staðar í [...]. Þá séu aðstæður almennt mjög slæmar í [...] og grundvallarmannréttindi ekki virt.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Að mati kæranda sé ljóst að mannréttindabrot eigi sér stað í [...] og yfirvöld veiti þegnum sínum ekki alltaf vernd gegn slíkum brotum heldur standi þvert á móti oft fyrir þeim.

Í greinargerð kæranda er jafnframt gerð athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar. Að mati kæranda virðist ákvörðun stofnunarinnar eingöngu byggð á því að stofnunin hafi metið kæranda ótrúverðugan og framburð hans óskýran og ónákvæman. Kærandi geri athugasemd við það m.a. með vísan til umfjöllunar í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þess efnis að umsækjandi um alþjóðlega vernd geti sjaldnast fært sönnur á allan framburð sinn. Að mati kæranda skorti á rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar hvað þetta varði. Þá skorti á umfjöllun um almennt ástand í [...] og stöðu einstaklinga sem tilheyri [...] ættbálkinum. Kærandi gerir enn fremur athugasemd við kröfu Útlendingastofnunar um framlagningu frekari gagna af hans hálfu.

Kærandi skýrir misræmi í framburði sínum m.a. með vísan til þess að túlkur í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi greint frá því a.m.k. einu sinni að eitthvað gæti hafa tapast í túlkuninni og ekki komist nógu vel til skila. Hvað framboð hans til forsetakosninga í [...] árið [...] varði kveður kærandi að ekki sé búið að birta opinberan lista yfir formlega forsetaframbjóðendur. Þá sé hann aðeins í framboði til að vekja athygli á mannréttindabrotum í [...] en geri sér ekki vonir um að verða kosinn. Kærandi kveður jafnframt að fylgiskjal 1, sem hann hafi lagt fram, snúi að samþykktum meðlima úr mismunandi flokkum fyrir samþykktum regnhlífarsamtakanna [...], en ekki sé um að ræða framboðslista til kosninganna [...]. Þá telji Útlendingastofnun ótrúverðugt að kærandi hafi stýrt útvarpsþættinum [...] og sé lögfræðingur. Kærandi mótmæli því og vísi í því sambandi til framlagðra myndbanda þar sem hann ræði mannréttindamál.

Svo sem fram hefur komið lagði kærandi fram ýmis viðbótargögn með kæru sinni, þ. á m. myndbönd þar sem kærandi kveðst ræða ýmis lögfræðileg álitaefni en hann hafi haldið úti lögfræðilegum fræðsluþætti frá heimili sínu í heimaríki. Þá lagði kærandi fram stefnuskrá samtakanna [...], myndir af einstaklingum sem kærandi kveður að hafi verið myrtir í kjölfar þess að þeir hafi gefið honum upplýsingar um andlát áðurgreindrar [...], skjal sem kærandi kveður að sé handtökuskipun á hendur honum, skjal sem kærandi kveður vera boð nefndarinnar [...] á alþjóðafund sósíalistaflokka í París, heimildarmynd um hvarf fr. [...] sem kærandi kveður að hann hafi meðframleitt, myndband sem kærandi kveður vera af pyndingum á fyrrum bílstjóra fr. [...], myndir sem kærandi kveður að séu af honum á pólitískum vettvangi o.fl.

Þá lagði kærandi fram ýmis gögn í kjölfar þess að hann kom fyrir nefndina þann 1. nóvember sl. Þar á meðal eru viðbótarathugasemdir kæranda og afrit af skjali sem kærandi kveður vera meðlimaskírteini sitt frá samtökunum [...], yfirlýsing frá samtökunum, tölvupóstsamskipti vegna þeirra og tengill á almennar upplýsingar um starfsemi þeirra, svo og myndir sem kærandi kveður vera af sér og fjölskyldu sinni, þ. á m. með fr. [...] og hr. [...].

Í framlögðum viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 1. nóvember sl., kemur m.a. fram að kærandi vilji útskýra misræmi í framburði sínum fyrir Útlendingastofnun. Í fyrra viðtali hjá stofnuninni hafi kærandi greint frá því að barn hans sé í [...] ásamt móður sinni, en í síðara viðtali hafi hann greint frá því að það sé í [...]. Skýringin á því sé einföld, barnsmóðir kæranda sé frá [...] og á þeim níu mánuðum sem hafi liðið milli framangreindra viðtala kæranda hjá Útlendingastofnun hafi barnsmóðirin flutt sig um set frá [...] til [...] með barn þeirra. Þá skýrir kærandi misræmi á uppgefinni tímasetningu flótta frá heimaríki á þann veg að hann hafi ruglast á dagsetningum, erfitt sé að rifja þess atburði upp og greina frá svo miklu magni upplýsinga, kærandi hafi verið í tilfinningalegu uppnámi og í slíkum aðstæðum sé eðlilegt að fipast. Þá vilji kærandi leiðrétta áðurgreinda staðhæfingu í greinargerð um að hann hafi verið pyndaður á sama hátt og birtist í framlögðu myndbandi kæranda af meintum bílstjóra fr. [...]. Kærandi hafi ekki verið pyndaður á sama hátt heldur hafi gætt misskilnings milli hans og talsmanns. Hið rétta sé að kærandi telji að hann eigi á hættu að verða pyndaður á sama hátt, snúi hann aftur til heimaríkis.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

• [...].

[...] er lýðræðisríki með [...]milljónir íbúa. Árið [...] komst ríkið undir borgaraleg yfirráð, í kjölfar valdaráns eftir áratugalöng völd einræðisstjórna að loknu nýlendutímabili [...], en [...] varð sjálfstætt ríki árið 1958. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann [...]. Árið [...] gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið [...] og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið [...].

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um ástand mannréttindamála í [...], kemur m.a. fram að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að morðum og óhóflegri valdbeitingu fulltrúa yfirvalda gegn almennum borgurum, pyndingum til að ná fram játningum, handahófskenndum handtökum og langdregnu varðhaldi án dómsúrskurða, þ. á m. á samviskuföngum. Enn fremur handahófskenndum afskiptum af fjölskyldu og heimili, takmörkunum á fjölmiðla- og fundafrelsi, spillingu á öllum stigum ríkisvalds, ofbeldi gegn konum og stúlkum, þvinguðum og snemmbúnum hjónaböndum, kynfæralimlestingu kvenna, refsivæðingu samkynhneigðar, ofbeldi gegn einstaklingum með litarleysi (e. albinism) og mansali.

Þá sé í stjórnarskrá og almennum lögum í [...] lagt bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Her og lögregla hafi hins vegar beitt fanga og aðra frelsissvipta harðræði, m.a. í þeim tilgangi að draga fram játningar. Afplánunar- og varðhaldsfangar eigi rétt á því að leggja fram kvartanir en geri það sjaldan af ótta við hefndaraðgerðir fangavarða eða fulltrúa hersins. Þá þurfi þeir á lögfræðiaðstoð að halda til að leggja fram kvartanir, en lögfræðingar séu fáir og þjónusta þeirra kostnaðarsöm. Enn fremur hafi fangelsisyfirvöld ekki rannsakað trúverðugar ásakanir um misþyrmingar.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að refsileysi opinberra starfsmanna sé útbreitt vandamál og yfirvöld hafi einungis gripið til lágmarksaðgerða í þeim tilgangi að refsa fulltrúum yfirvalda sem hafi misnotað eða misþyrmt borgurum. Þá viðgangist mútuþægni og refsileysi gagnvart fjárdrætti og öðru fjármálamisferli opinberra starfsmanna. Í skýrslu Transparency International kemur fram að [...] sé í [...] sæti af 180 löndum á lista yfir spillingu í heiminum, en fyrsta sæti endurspegli síst spillta ríkið.

Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að engar opinberar takmarkanir séu á myndun stjórnmálaflokka umfram skráningu, utan þess að flokkar megi ekki endurspegla eitt svæði eða þjóðerni. Í skýrslu Freedom House, um frelsi í heiminum árið 2018, kemur m.a. fram að alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafi talið síðustu forsetakosningar í [...] árið [...] lögmætar. Hins vegar kemur fram að þó að fjölflokka kosningar hafi verið haldnar frá tíunda áratugnum sé ekki komin hefð fyrir því að valdið færist friðsamlega milli andstæðra fylkinga.

Í framangreindum gögnum kemur fram að lagabreytingar á árinu 2010, þar á meðal stjórnarskrárbreytingar, hafi bætt lagaumhverfi fjölmiðla til muna. Þá séu margir sjálfstæðir fjölmiðlar starfandi í [...] sem tali máli stjórnarandstöðu. Hins vegar séu dæmi þess að fréttamenn sæti hótunum og ofbeldi, s.s. þeir sem fjalli um pólitíska fundi og mótmæli. Samkvæmt skýrslu frönsku flóttamannastofnunarinnar frá 2018 hafa [...] stjórnvöld vald til að beita fjölmiðla viðurlögum og hafa m.a. stöðvað tímabundið útsendingar tiltekinna fjölmiðla.

Í skýrslu Minority Rights Group International um minnihlutahópa og frumbyggja kemur m.a. fram að [...]% íbúa [...] tilheyri [...] þjóðarbrotinu. [...] hafi hlotið mikinn framgang í kjölfar herforingjastjórnar sem hafi rutt sér til rúms árið [...], undir stjórn ofurstans [...], og leikið lykilhlutverk í [...] stjórnmálum allar götur síðan. Hlutfall fulltrúa [...] þjóðarbrotsins í stjórnkerfinu sé því hátt.

Í skýrslu Amnesty International um dauðarefsingar árið 2017 kemur fram að [...] hafi afnumið dauðarefsingu á [...], fyrir alla glæpi, í kjölfar þess að hafa afnumið dauðarefsingu fyrir hefðbundna glæpi (e. ordinary crimes) árið [...]. Þá kemur fram í skýrslu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna að ásamt afnámi dauðarefsingar hafi tilkoma skilgreiningar á pyndingarhugtakinu og viðeigandi refsingar fyrir þann glæp, ásamt tilkomu nýrra héraðs- og áfrýjunardómstóla falið í sér mikilvægar umbætur á refsivörslukerfinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Sem fyrr segir var niðurstaða Útlendingastofnunar m.a. byggð á því að misræmi væri í frásögn kæranda sem væri til þess fallið að draga úr trúverðugleika hans.

Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að til stuðnings framburði um forsetaframboð sitt í [...] hefði kærandi lagt fram gagn sem hann kvað vera lista yfir frambjóðendur til [...] forsetakosninganna. Við rannsókn Útlendingastofnunar hefði komið í ljós að umrætt gagn væri samþykktir hreyfingarinnar [...] en ekki framboðslisti fyrir umræddar kosningar. Þá hefði kærandi lagt fram gagn sem hann kvað vera handtökuskipun á hendur sér, til stuðnings framburði sínum um að herlögreglan hefði handtekið hann og yfirheyrt í nokkur skipti í kjölfar mótmæla. Útlendingastofnun hefði látið þýða framangreint skjal og samkvæmt þýðingu væri um að ræða yfirlýsingu hr. [...] þess efnis að hann fordæmdi líflátshótanir sem kæranda hefði borist. Ekki væri séð að um handtökuskipun á hendur kæranda væri að ræða.

Kærandi kvað í viðtali hjá Útlendingastofnun að ofsóknirnar af hálfu yfirvalda í [...] væru að hluta til vegna rannsóknar hans og æskuvinar hans, [...], á andláti [...], sem hefði verið skattstjóri. Hún hefði verið myrt þann [...] vegna rannsóknar sinnar á spillingu í [...]. Þá hefði eiginmaður hennar, [...], starfað sem prófessor í lögfræði við háskóla þar sem kærandi hefði lært lögfræði. [...] hefði verið boðið starf umhverfisráðherra eftir andlát eiginkonu sinnar en hann hefði afþakkað starfið. Þá kvað kærandi að hann hefði stjórnað útvarpsþætti, [...], ásamt framangreindum æskuvini sínum, [...], en þeir félagar hefðu jafnframt gert heimildarmynd um morðið á [...]. Þann [...] hefði [...] horfið, í kjölfar þess að hermenn hefðu ráðist inn á skrifstofu þeirra félaga í [...] háskólanum í höfuðborginni [...]. Samkvæmt rannsókn Útlendingastofnunar hefði forseti [...], [...], skipað framangreinda [...] forstjóra ríkissjóðs (e. [...]). Hún hefði verið myrt þann [...] á heimleið frá vinnu en morðið hefði verið tengt við rannsókn hennar á spillingu í stjórnkerfi [...]. Þá bæru heimildir með sér að [...] væri prófessor í líffræði en ekki lögfræði, líkt og kærandi hefði haldið fram, og að hann hefði verið skipaður og þegið stöðu umhverfisráðherra skömmu eftir morðið á eiginkonu sinni. Enn fremur bæru heimildir með sér að þann [...] hefði [...] verið á heimleið frá höfuðstöðvum [...], þar sem hann hefði starfað, þegar ráðist hefði verið á hann og hann horfið í kjölfarið.

Kvað kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hefði tekið viðtöl við ýmsa stjórnmála- og embættismenn, vegna framangreindar heimildarmyndar, sem hefðu verið myrtir í kjölfarið. Samkvæmt rannsókn Útlendingastofnunar á umræddri mynd væri ekki séð að slík viðtöl hefðu farið fram. Þá væri myndin aðgengileg á ýmsum vefmiðlum en hvergi kæmi fram hverjir heimildarmyndargerðarmenn hennar væru. Þá kvað kærandi að hann hefði fengið afhent gögn frá einum viðmælanda, sem hann hygðist leggja fram ásamt blaðagreinum, en það hefði hann síðan ekki gert.

Sem fyrr segir kom kærandi til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 1. nóvember sl. Í viðtalinu kom m.a. fram að kærandi kvaðst hafa flúið heimaríki í kjölfar þess að vinur hans og samstarfsfélagi hefði verið myrtur. Aðspurður hvers vegna kærandi hefði þurft að flýja af þeim sökum kvað hann að þeir félagar hefðu unnið saman að verkefnum sem hefðu upplýst um spillingu yfirvalda og því óttaðist hann að yfirvöld væru á höttunum eftir sér. Aðspurður um samband sitt við áðurgreindan félaga, [...], kvað kærandi að hann hefði hitt hann í menntaskóla og þeir hefðu einnig verið saman í háskóla. Þá hefðu þeir m.a. gert saman heimildarmyndir um hvarf [...] og morð á æskulýðsráðherra og yfirmanni í lögreglunni. Aðspurður um hlutverk sitt í útvarpsþættinum [...] kvað kærandi að félagi hans hefði verið í forgrunni en kærandi hefði verið meira á bak við tjöldin. Aðspurður hvort kærandi hefði undir höndum gögn sem staðfestu þátttöku hans í téðum útvarpsþætti kvað kærandi að hann hefði ekki áttað sig á mikilvægi veraldarvefsins þegar hann hefði verið í [...]. Aðspurður hvers vegna ekkert fyndist um hann við leit á vefsíðu útvarpsstöðvarinnar [...] kvað kærandi að hann hefði ekki verið á launaskrá hjá [...] en hann hefði verið hluti af nefnd sem hefði aðstoðað einstaklinga við að tala máli þeirra.

Þegar kærandi var spurður hvort til væru gögn um hann og [...], s.s. myndir af þeim saman, lagði kærandi fram myndir sem hann kvað vera af sér og bróður [...] og syni, svo og myndir sem kærandi kvað vera af móður hans með [...] og föður hans með [...]. Þá kvað kærandi að hann hefði ekki möguleika á að nálgast upplýsingar frá [...]. Af hálfu kærunefndar var ítrekað mikilvægi þess að kærandi legði fram gögn til stuðnings framburði sínum. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd hvar og hvenær kærandi hefði séð [...] síðast kvað hann að það hefði verið þann [...]. Kærandi og [...] hefðu verið að vinna saman að verkefni á skrifstofu í háskólanum, sem þeir hefðu haft afnot af. Í kjölfar þess að [...] hefði yfirgefið háskólann á mótorhjóli sínu hefði honum verið rænt. Aðspurður hvers vegna það kæmi fram í fréttum að [...] hefði horfið að loknum störfum sínum á skrifstofu [...] kvað kærandi að skrifstofur fréttastofunnar væru staðsettar skammt frá háskólanum og [...] hefði farið þangað á hverjum degi.

Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd um pólitíska þátttöku sína, einkum um hreyfinguna [...], kvað kærandi að um væri að ræða hreyfingu ungs fólks sem hefði komið saman í þeim tilgangi að hafa næga pólitíska vigt til að tala máli sínu fyrir kosningar. Aðspurður hvort kærandi óttaðist um líf sitt og velferð vegna pólitískrar þátttöku svaraði hann játandi, enda hefði [...] verið sett á fót til að mótmæla ríkjandi stjórn. Aðspurður hvort aðrir meðlimir hreyfingarinnar hefðu flúið [...] svaraði kærandi því játandi. Aðspurður hvort hreyfingin væri nú óvirk kvað kærandi að hreyfingin væri nú aðeins virk á veraldarvefnum þar sem meðlimir þeirra væru annað hvort horfnir eða flúnir. Aðspurður hvort hann hefði undir höndum gögn sem sýndu fram á þátttöku hans í hreyfingunni kvað kærandi að hann gæti bent á slík gögn á veraldarvefnum og þá væri hann með meðlimaskírteini sitt. Aðspurður hvers vegna ekkert fyndist um þátttöku hans í samtökunum við vefleit kvað kærandi að hann hefði ekki viljað hafa sig í frammi eða vera í forgrunni í starfi hreyfingarinnar.

Aðspurður hvort kærandi hefði verið handtekinn svaraði kærandi því játandi, hann hefði verið handtekinn, afklæddur, barinn, hlekkjaður, handjárnaður og niðurlægður. Aðspurður hversu oft og hvenær hann hefði verið handtekinn og honum misþyrmt kvað kærandi að um væri að ræða 20-30 skipti. Aðspurður hvernig meðferðin hefði verið kvað kærandi að hann hefði iðulega verið handtekinn fyrir eða í kjölfar mótmæla, þá hefðu hermenn sótt hann og aðra mótmælendur í sendiferðabílum og barið þá og sparkað í þá. Þá hefðu verið tekin af þeim myndbönd og ljósmyndir og þeim lekið í fjölmiðla. Loks hefðu mótmælendur sætt varðhaldsvist á lögreglustöðinni. Aðspurður hvort kærandi hefði undir höndum téð myndbönd eða ljósmyndir svaraði kærandi því neitandi. Aðspurður um innihald framlagðs skjals kæranda, á [...], með yfirskriftinni „handtökuheimild“ kvað kærandi að um handtökuheimild væri að ræða. Aðspurður hvers vegna þýðing á skjalinu gæfi annað til kynna kvað kærandi að fjölskyldu hans hefði verið afhent skjalið og þannig hefði hann fengið veður af því.

Hefur kærunefnd lagt mat á trúverðugleika kæranda með tilliti til endurrita af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, framburðar hans fyrir kærunefnd þann 1. nóvember sl. og annarra fyrirliggjandi gagna. Við mat á trúverðugleika framburðar kæranda tekur kærunefnd tillit til þess að umsækjendur hafa í mörgum tilvikum upplifað atburði sem gera það að verkum að minni þeirra um tiltekin atvik, sem leiddu til flótta þeirra frá heimaríki, getur verið reikult. Við þær aðstæður og þegar er langt er um liðið síðan atvik áttu sér stað lítur kærunefnd ekki svo á að misræmi, t.d. að því er varðar nákvæma tímaröð atburða og dagsetningar þeirra, hafi þau áhrif að framburður umsækjenda verði í heild sinni metinn ótrúverðugur af þeim sökum eingöngu. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að ýmsar skýringar kæranda á misræmi í framburði hans milli viðtala hjá stjórnvöldum, svo og atriðum sem stangast á við opinberar og aðgengilegar upplýsingar, s.s. af veraldarvefnum, eru ótrúverðugar og nokkuð á reiki.

Kærandi hefur vísað í ýmsa þekkta atburði sem hafa átt sér stað í [...] á nýliðnum árum, þ. á m. hvarf embættismanns og blaðamanns, svo sem fram hefur komið. Kveður kærandi að hann og fjölskylda hans hafi haft náin tengsl við framangreinda aðila. Lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings framburði sínum, þ. á m. myndir sem hann kveður vera af sér og [...], svo og myndir sem hann kveður vera af móður sinni og föður ásamt [...]. Eru myndirnar nokkuð óskýrar og óljóst hvern um ræðir hverju sinni. Af samanburði á framlögðum myndum kæranda og aðgengilegum myndum á veraldarvefnum, þ. á m. af [...], [...] og fjölskyldu kæranda af reikningi hans á samfélagsmiðlinum Facebook er það þó mat kærunefndar að kærandi hafi ekki, með framlögðum gögnum, sýnt fram á tengsl sín og fjölskyldu sinnar við téða aðila. Þá lagði kærandi fram ýmis önnur gögn, þ. á m. skjal sem kærandi kveður vera stefnuskrá hreyfingarinnar [...] og afrit af skjali sem kærandi kveður vera meðlimaskírteini sitt útgefið af hreyfingunni. Á hinn bóginn hefur rannsókn nefndarinnar, þ. á m. almenn vefleit, svo og leit á vefsíðum útvarpsstöðvarinnar [...] og hreyfingarinnar [...], ekki leitt í ljós ætluð tengsl kæranda við áðurgreinda aðila, fjölmiðla eða pólitískar hreyfingar. Þá eru skýringar kæranda þar um, þ.e. að hann hafi að mestu haldið sig á bak við tjöldin, ótrúverðugar í ljósi fyrri framburðar kæranda sem gaf til kynna að hann hafi haft sig verulega í frammi og m.a. hyggst bjóða sig fram til forseta í heimaríki.

Kærandi kveður jafnframt að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu [...] yfirvalda, þ. á m. handtökum, frelsissviptingum og misþyrmingum. Lagði kærandi m.a. fram skjal undir yfirskriftinni „handtökuheimild“ máli sínu til stuðnings. Þýðing á framlögðu skjali kæranda gefur hins vegar til kynna að um sé að ræða yfirlýsingu til stuðnings kæranda en ekki handtökuheimild. Þá hefur kæranda verið leiðbeint um framlagningu gagna, einkum heilsufarsgagna, til stuðnings framburði sínum um pyndingar og aðrar misþyrmingar og mögulegar líkamlegar og andlegar afleiðingar þeirra. Hefur kærandi ekki lagt fram gögn þar um.

Það er mat kærunefndar að kærandi hafi hvorki sýnt fram á tengsl sín við framangreinda aðila eða atburði né ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki. Þá fær sú málsástæða kæranda, að hann sæti mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna síns, ekki stoð í gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í heimaríki hans.

Það er mat kærunefndar að innra ósamræmi sé í framburði kæranda milli viðtala hjá Útlendingastofnun og fyrir kærunefnd. Að mati nefndarinnar hefur kærandi hvorki lagt fram haldbærar skýringar á framangreindu ósamræmi í framburði sínum né ósamræmi við aðrar fyrirliggjandi upplýsingar. Í ljósi ætlaðrar virkni kæranda í stjórnmálum telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að hann styðji framburð sinn, um ótta við ofsóknir [...] yfirvalda vegna pólitískrar andstöðu hans og umfjöllunar um spillingu, haldbærum gögnum. Sem fyrr segir hefur trúverðugleikamat kærunefndar tekið mið af aðferðarfræði sem birtist í áðurgreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat.

Af framburði kæranda og framlögðum gögnum verður ekki útilokað að hann hafi að einhverju leyti tekið þátt í stjórnmálaumræðu í heimaríki sínu. Af upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda, þ. á m. um virkni ýmissa stjórnmálaflokka og ólíkra fjölmiðla, er ljóst að þótt dæmi séu um að [...] stjórnvöld grípi til aðgerða gagnvart einstaklingum sem taka þátt í stjórnmálaumræðu þar í landi er ekki um að ræða aðgerðir sem ná því alvarleikastigi að geta talist ofsóknir, sbr. 1. og 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Því er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki leitt nægilegar líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir [...] yfirvalda af þeim sökum.

Því er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið, m.a. um trúverðugleika framburðar kæranda, og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga kemur m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hefur greint frá því að hann óttist yfirvöld í heimaríki sínu vegna pólitískrar þátttöku sinnar. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ. á m. upplýsinga um aðstæður í [...], framburðar kæranda og annarra gagna málsins, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki.

Kærandi er [...] árs gamall karlmaður og ekki liggur annað fyrir en að hann sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. trúverðugleikamat og rökstuðning stofnunarinnar.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir þar um. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 24. maí 2017 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta