Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2024

Stækkunarstefna ESB og viðbrögð ESB við sigri Trumps

 Að þessu sinni er fjallað um:

  • viðbrögð leiðtoga ESB við sigri Trumps
  • skýrslu um stækkunarstefnu ESB fyrir árið 2024
  • leiðtogafundi EPC og ESB
  • rafræna auðkenningu við ferðir inn og út af Schengen-svæðinu
  • framtíðarhorfur evrópska rannsóknarsvæðisins
  • yfirheyrslur Evrópuþingsins yfir framkvæmdastjóraefnum

Vaktin kemur næst út föstudaginn 6. desember nk.

 

Viðbrögð leiðtoga ESB við sigri Trumps

Úrslit forsetakosninga í Bandaríkjunum (BNA) þar sem Donald Trump bar sigur úr bítum hafa eins og við var að búast valdið titringi á vettvangi ESB. Viðbrögð leiðtoga ESB við sigri Trumps hafa þó verið afar diplómatísk, yfirveguð og varfærin.

Ursula von der Leyen (VdL), forseti framkvæmdastjórnar ESB, reið á vaðið og sendi  Trump, með sérstakri yfirlýsingu, hlýjar hamingjuóskir með sigurinn. Í yfirlýsingu sinni segist VdL hlakka til að vinna með Trump með það að markmiði að styrkja vestræna samvinnu. ESB og BNA væru meira en bara bandamenn enda byggðu samskipti þeirra á sameiginlegri sögu og stuðningi við frelsi og lýðræði. Í yfirlýsingunni leggur VdL áherslu á mikilvægi viðskipta og fjárfestinga beggja vegna Atlantshafsins fyrir lífskjör fólks í BNA og ESB.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, óskaði Trump einnig til hamingju og vísaði til þess að ESB og BNA væru varanlegir bandalagsaðilar með söguleg tengsl. Sem bandamenn og vinir hlakki ESB til þess að halda áfram uppbyggilegri samvinnu. Þá tók hann fram að ESB muni framfylgja stefnu sinni í samræmi við fyrirliggjandi stefnuáætlun leiðtogaráðsins (e. strategic agenda) sem sterkur, sameinaður, samkeppnishæfur og fullvalda samstarfsaðili á sama tíma og ESB hyggist standa vörð um fjölþjóðakerfi sem byggt er á reglum (e. rules-based multilateral system).

Roberta Metsola, forseti Evrópuþingsins, óskaði Trump sömuleiðis til hamingju með kosningasigurinn og sagði ESB tilbúið til samvinnu og til að takast á við fordæmislausar landfræðilega pólitískar áskoranir. Vilji ESB stæði til þess að viðhalda sterkum tengslum yfir Atlantshafið sem eigi rætur sínar í sameiginlegum gildum frelsis, mannréttinda, lýðræðis og frjálsra viðskipa.

Þá hafa leiðtogar aðildarríkja ESB vitaskuld einnig sent Trump hamingjuóskir.

Stækkunarskýrsla ESB fyrir árið 2024

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Formlegur ferill við meðferð umsókna um aðild að ESB
  • Umsóknarríkin og staða þeirra í ferlinu

Inngangur

Framkvæmdastjórn ESB birti í síðustu viku árlega skýrslu um framgang stækkunarstefnu ESB (e. EU Enlargement Policy). Skýrslan er birt í formi orðsendingar til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar. Orðsendingunni fylgja sérstakar framvinduskýrslur og stutt staðreyndarblað (e. fact sheet) um stöðu mála í hverju umsóknarríki fyrir sig en þau eru nú 10 talsins, þ.e. Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Kósovó, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Georgía, Moldóva, Úkraína og Tyrkland.

Eins og rakið var í umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember 2023 um stækkunarskýrslu ESB fyrir árið 2023 þá er mikill þungi og áhersla á framgang stækkunarmála innan ESB um þessar mundir og er ljóst að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og sú þróun sem orðið hefur í alþjóðamálum í kjölfarið, þar sem virkt lýðræði og réttarríkið á í auknum mæli undir högg að sækja, hefur sannfært marga um mikilvægi stækkunar fyrir hagsmuni ESB og Evrópu í heild sinni. Eru tilraunir stjórnvalda í Rússlandi til að seilast til áhrifa í einstökum umsóknarríkjum að undanförnu, svo sem í Moldóvu og Georgíu og fleiri ríkjum til vitnis um þá hagsmuni sem í húfi eru, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 25. október sl. um stöðu aðildarviðræðna við Moldóvu.

Hér á eftir verður núverandi staða einstakra umsóknarríkja í umsóknarferlinu rakin en áður en vikið verður að henni er hér til upprifjunar og glöggvunar fjallað stuttlega um lögformlegan feril við meðferð umsókna um aðild að ESB.

Formlegur ferill við meðferð umsókna um aðild að ESB

Kveðið er á um grunnreglur við meðferð umsókna um aðild að ESB í 49. gr. sáttmála um Evrópusambandið (The Treaty on European Union – TEU). Eins og fram kemur í ákvæðinu þá er sérhverju Evrópuríki sem virðir grundvallargildi ESB, sbr. 2. gr. TEU, og einsetur sér að stuðla að þeim, heimilt að sækja um aðild. Gildin eru eftirfarandi:

  • virðing fyrir mannlegri reisn
  • frelsi
  • lýðræði
  • jafnrétti
  • réttarríkið
  • virðing fyrir mannréttindum, þ.m.t. réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum.

Við frummat á umsóknum er framangreint metið en auk þess ber við mat á umsóknum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 49. gr. sáttmála um ESB, að taka tillit til skilyrða sem leiðtogaráð ESB hefur samþykkt að umsóknarríki verði að uppfylla. Slík skilyrði voru samþykkt af leiðtogaráðinu á fundi þess í Kaupmannahöfn árið 1993 og eru þau nefnd Kaupmannahafnarskilyrðin (e. Copenhagen criteria). Kaupmannahafnarskilyrðin eru þríþætt og fela í sér pólitísk skilyrði, efnahagsleg skilyrði og lagaleg skilyrði, nánar tiltekið:

  • um stöðugt stjórnarfar og stofnanir sem tryggja lýðræði, réttarríki og mannréttindi,
  • um virkt markaðshagkerfi, sem hefur burði til að takast á við þá samkeppni sem fylgir þátttöku á innri markaði ESB,
  • að ríkið geti og vilji samþykkja og innleiða regluverk ESB og grundvallarmarkmið sambandsins í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Umsóknarferlið og samningaviðræður fara fram í mörgum þrepum og er afar ítarlegt eins og Íslendingar þekkja frá þeim tíma er Ísland sótti um aðild að sambandinu árið 2009, sbr. skýrslu um framvinnu og stöðu viðræðanna sem utanríkisráðuneytið gaf út í apríl árið 2013, en umsókn Íslands var eins og kunnugt er dregin til baka í kjölfar alþingiskosninga síðar það ár.

Lögformlegt ákvörðunarvald í ferlinu liggur hjá aðildarríkjunum á vettvangi leiðtogaráðs ESB og á vettvangi ráðherraráðs ESB þar sem formleg ákvarðanataka á sér stað og er gerð krafa um einróma samþykki innan ráðsins í allri ákvörðunartöku. Efnisleg meðferð umsókna og undirbúningur samningaviðræðna og viðræðurnar sjálfar eru hins vegar að mestu á herðum framkvæmdastjórnar ESB. Endanlegt ákvörðunarvald, þ.e. um hvort aðildarsamningur við umsóknarríki er samþykktur, liggur loks hjá Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB sameiginlega og þurfa báðar þessar stofnanir ESB að samþykkja aðildarsamning áður en lokafasi samþykktarferlisins getur hafist en það felst í því að aðildarsamningurinn er borinn upp til fullgildingar í öllum aðildaríkjum ESB, og í viðkomandi umsóknarríki jafnframt að sjálfsögðu, í samræmi við stjórnskipunarreglur í hverju ríki.

Í grófum dráttum er aðildarferlið eftirfarandi:

  1. Ríki beinir umsókn um aðild til ráðherraráðs ESB.
  2. Evrópuþinginu og þjóðþingum aðildarríkja er tilkynnt um umsókn.
  3. Ráðherraráð ESB biður framkvæmdastjórn ESB um álit á umsókninni.
  4. Að fengu jákvæðu áliti getur ráðherraráðið ákveðið að veita viðkomandi ríki formlega stöðu umsóknarríkis (e. Candidate status).
  5. Enda þótt ríki hafi fengið formlega stöðu umsóknarríkis þýðir það ekki að aðildarviðræður hefjist heldur er slíkt háð sérstakri ákvörðun ráðherraráðs ESB og er ákvörðun þar að lútandi tekin á grundvelli mats framkvæmdastjórnar ESB á því hvort skilyrðum hafi verið fullnægt af hálfu umsóknarríkis.
  6. Þegar ákvörðun um að hefja aðildarviðræður hefur verið tekin, tekur framkvæmdastjórn ESB í samvinnu við umsóknarríki saman yfirlitsskýrslur um efni löggjafar í umsóknarríki á mismunandi málefnasviðum (efniskaflar/klasar) samanborið við löggjöf ESB og leggur til viðræðuáætlun. Sú áætlun þarf síðan enn á ný að fá einróma samþykki af hálfu aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB.
  7. Samið er um hvern efniskafla eða klasa, sbr. skýringarmynd hér að neðan, sérstaklega og tekur ráðherraráð ESB jafnframt ákvarðanir um það hvenær og hvort samningaviðræður um einstaka kafla skuli hafnar á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni.
  8. Ráðherraráð ESB tekur jafnframt ákvarðanir um það hvort og þá hvenær loka megi, til bráðabirgða, samningaviðræðum um einstaka efniskafla.
  9. Þegar samningaviðræðum um alla efniskaflana hefur verið lokað er aðildarsamningur í heild sinni borin undir Evrópuþingið og ráðherraráð ESB til samþykktar.
  10. Að fengnu samþykki Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB þarf loks að leggja samninginn fram til fullgildingar í öllum aðildarríkjum ESB og í umsóknarríkinu í samræmi við stjórnskipunarreglur í hverju ríki, þ.e. með þinglegri meðferð og þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir atvikum.
  11. Öll ríkin þurfa að fullgilda aðildarsamning til að hann geti öðlast gildi.

Sjá hér yfirlitsmynd yfir samningskafla sem teknar eru fyrir í viðræðunum og hvernig þeim er skipt í klasa.

 

Umsóknarríkin og staða þeirra í ferlinu

Í eftirfarandi töflu er staða umsóknarríkjanna í framangreindu ferli tilgreind í grófum dráttum. Tilgreint röðunarnúmer endurspeglar mat á því hversu langt löndin eru komið í ferlinu en þar eru fremst Svartfjallaland, Serbía og Albanía. Þar á eftir koma Norður-Makedónía og svo Úkraína og Moldóva sem hafa fengið hraðan framgang að undanförnu. Þar næst kemur Bosnía og Hersegóvína. Loks eru þrjú ríki sem reka lestina þar sem viðræður hafa stöðvast eða viss ómöguleiki er til staðar eins og í tilfelli Kósovó en þau eru Tyrkland, Georgía og Kósovó.

Tafla:

 

Nánar um stöðuna í einstökum ríkjum:

Albanía
Grunnklasinn með mikilvægustu köflunum var opnaður á 2. ríkjaráðstefnu Albaníu með ESB 15. október sl. Af hálfu ESB er áhersla lögð á að Albanía setji aukinn kraft í umbætur og aðlögun að gildum ESB, einkum því sem lýtur að réttarríkinu, löggæslu, baráttunni gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi og eflingu grunnréttinda s.s. fjölmiðlafrelsi, eignarrétti og réttindum minnihlutahópa.

Bosnía og Hersegóvína
Sýnilegur árangur hefur verið í framgangi aðildarumsóknar Bosníu og Hersegóvínu þar á meðal í málefnum er snúa að stjórnun fólksflutninga, samræmingu við utanríkisöryggisstefnu ESB og með lagasetningu um heilindi dómskerfisins, lögum um varnir gegn peningaþvætti og lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Í mars sl. ákvað leiðtogaráð ESB að hefja aðildarviðræður við Bosníu og Hersegóvínu. Næst á dagskrá er fyrsta ríkjaráðstefna ESB og Bosníu og Hersegóvínu sem mun marka formlegt upphaf samningaviðræðnanna, en til hennar hefur en sem komið er ekki verið boðað.

Kósovó
Kósovó sótti um aðild að ESB í desember 2022 en ríkið hefur þó enn ekki fengið formlega stöðu umsóknarríkis. Framfarir þykja hafa orðið í ríkinu í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og einnig þykir viðskiptaumhverfi í ríkinu hafa batnað. Kósovó þarf að efla viðleitni sína til að styrkja réttarríkið og opinbera stjórnsýslu og vernda tjáningarfrelsið. Ljóst er að það hamlar framgangi aðildarumsóknar ríkisins að nokkur aðildarríki ESB hafa enn ekki viðurkennt sjálfstæði þess en þau eru Spánn, Slóvakía, Kýpur, Rúmenía og Grikkland.

Svartfjallaland
Í júní 2024 var staðfest á ríkjaráðstefnu að Svartfjallaland uppfyllti í heildina bráðabirgðaviðmið fyrir kafla 23 og 24, sem fjalla um réttarríkið, og jafnframt var opnað fyrir möguleikann á því að loka öðrum köflum til bráðabirgða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á sviði réttarríkisins og dómsmála þykir þó þörf á frekari úrbótum. Svartfjallaland er komið einna lengst í aðildarferlinu þar sem búið er að opna alla kaflana í samningaviðræðunum og loka þremur 25, 26 og 30.

Norður-Makedónía:
Í tilviki Norður-Makedóníu þarf landið að halda áfram að innleiða umbætur, sérstaklega í grunnklasanum og þá einkum á sviðum sem lúta að dómskerfinu, baráttunni gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi. Einnig er talin þörf á því að efla traust á réttarkerfinu. Rýni á öllum sex klösunum var lokið í desember 2023.

Serbía:
Framkvæmdastjórnin ítrekar mat sitt á því að Serbía hafi uppfyllt viðmiðin til að opna klasa 3 um samkeppnishæfni og vöxt. Gert er ráð fyrir að Serbía muni hraða vinnu við innleiðingu á umbótum tengdum ESB-aðild á öllum sviðum á næsta ári með sérstakri áherslu á réttarríkið, umhverfi borgaralegs samfélags og fjölmiðla og grípa til trúverðugra aðgerða til að sporna gegn upplýsingaóreiðu og erlendum afskiptum. Alls hafa 22 kaflar verið opnaðir og tveimur hefur verið lokað til bráðabirgða, þ.e. köflum 25 og 26.

Georgía
Leiðtogaráðið veitti Georgíu stöðu umsóknarríkis í desember 2023 en umsóknarferlið stöðvaðist í raun sl. vor þegar þing landsins samþykkti umdeild lög sem þykja sniðin að sambærilegum lögum í Rússlandi og talin eru takmarka verulega starfsemi frjálsra félagasamtaka í landinu og frelsi fjölmiðla, sbr. einnig nýlega löggjöf sem talin er beinast gegn réttinum hinsegin fólks. Georgía sótti um aðild árið 2022 ásamt Úkraínu og Moldóvu í kjölfar árásarstríðs Rússa gagnvart Úkraínu. Þannig fylgdust löndin að í umsóknarferlinu í byrjun þar til ferlið var stöðvað í Georgíu. Samkvæmt opinberum niðurstöðum nýafstaðinna þingkosninga í Georgíu sigraði stjórnmálaflokkurinn Georgíski draumurinn og fékk hreinan meirihluta en flokkurinn hefur verið við völd síðan 2012 og undir hans stjórn sótti landið um aðild að ESB árið 2022. En svo virðist sem stjórnvöldum í Rússlandi hafi tekist að hlutast til um mál í ríkinu með framangreindum afleiðingum.

Moldóva
Samþykkt var hefja samningaviðræður við Moldóvu í desember sl. Fyrsta ríkjaráðstefnan var síðan haldin í júní 2024 og í kjölfar hennar hófst rýni á regluverki landsins sem miðar vel. Vonast er til að samningaviðræður geti hafist á næsta ári með opnun fyrstu samningskaflanna sem tilheyra grunnklasanum. Eins og áður segir var fjallað um aðildaviðræður Moldóvu í Vaktinni 25. október sl. í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu sem þar var haldin um hvort binda ætti markmið um aðild að ESB í stjórnarskrá landsins sem var samþykkt með naumum meirihluta. Þann 3. nóvember fór svo fram seinni umferð forsetakosninga í landinu þar sem Maia Sandu, núverandi forseti og stuðningsmaður ESB aðildar Moldóvu, vann sigur á andstæðingi sínum Alexandr Stoianoglo sem þykir hallur undir stjórnvöld í Rússlandi.

Úkraína
Líkt og með Moldóvu var samþykkt að hefja samningaviðræður við Úkraínu í desember sl. Fyrsta ríkjaráðstefnan var síðan haldinn í júní sl. og í kjölfar hennar hófst rýni á regluverki landsins sem miðar vel. Opnun aðildarviðræðna við Úkraínu er mikilvæg viðurkenning á vilja Úkraínu til að halda áfram umbótum og aðlögun að gildum ESB. Úkraína sótti um aðild að ESB fljótlega eftir að árásarstríð Rússlands gagnvart ríkinu hófst. Moldóva og Georgía fylgdu í kjölfarið. Vonast er til að efnislegar samningaviðræður geti hafist fljótlega á næsta ári með opnun fyrstu samningskaflanna sem tilheyra grunnklasanum.

Tyrkland
Tyrkland sótti um aðild að ESB árið 1987 og hefur verið lengst allra umsóknarríkja í aðildarferlinu. Samþykkt var að hefja samningaviðræður árið 2004 en eftir það hefur ekki orðið mikill framgangur í aðlögun landsins að ESB sem orðið hefur til þess að aðildarviðræður hafa staðið í stað síðan 2018. ESB hefur áhyggjur af stöðu landsins á sviði grundvallarréttinda og réttarríkisins þar á meðal sjálfstæði dómstóla. Viðræður um réttarríkið og grundvallarréttindi eru þó áfram órjúfanlegur þáttur í samskiptum ESB og Tyrklands

Erfitt er að spá fyrir um hvenær samningaviðræðum við einstök ríki getur lokið. Í skýrslunni er nú sem áður skýrlega tekið fram að framgangur samningaviðræðna verði að byggjast á verðleikum (e. merit based). Ekki þarf einungis að tryggja að umsóknarríkin uppfylli skilyrði og gildi ESB um virkt lýðræði, réttarríkið og mannréttindavernd o.s.frv. heldur þurfa þau jafnframt að uppfylla pólitísk, efnahagsleg og lagaleg skilyrði aðildar áður en til inngöngu kemur.

Ekki er heldur nægjanlegt að umsóknarríkin sjálf uppfylli skilyrði aðildar heldur þarf sambandið sjálft að vera viss um að það ráði við það aukna umfang og flækjustig sem fjölgun aðildaríkja hefur óhjákvæmilega í för með sér. Í því skyni hyggst sambandið gera ýmsar innri umbætur á stjórnskipulagi sínu sem þörf er talin á áður en fleiri aðildarríki bætast í hópinn, s.s. að fækka þeim ákvörðunum sem krefjast einróma samþykkis meðal aðildarríkjanna, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 3. maí sl.,  um umbætur á stjórnkerfi ESB í aðdraganda stækkunar.

Leiðtogafundir EPC og ESB

Leiðtogar Evrópu komu saman í Búdapest í Ungverjalandi í gær og í dag.

Annars vegar var um að ræða fund, sem fram fór í gær, á vettvangi sem nefndur hefur verið European Political Community (EPC) þar sem leiðtogum 44 Evrópuríkja, þar á meðal leiðtogum allra 27 ESB-ríkjanna, er boðið að mæta.

Er þetta í fimmta  skiptið sem evrópskir leiðtogar hittast á þessum vettvangi, en fyrsti fundurinn fór fram í Prag í október 2022, sbr. umfjöllun um þann fund í Vaktinni 7. október 2022. Yfirlýst markmið hins nýja vettvangs er að skapa leiðtogum Evrópuríkja innan og utan ESB vettvang til skoðanaskipta og stuðla að samvinnu um viðbrögð við þeim margbrotnu áskorunum sem við er að etja á þeim viðsjáverðu tímum sem nú eru. Er ljóst að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu með þeim alvarlegu ógnum og áskorunum sem það hefur haft í för með sér var megin aflvaki að stofnun vettvangsins enda þótt aðrar veigamiklar áskoranir eins og fyrirhuguð stækkunaráform ESB, sbr. umfjöllun hér að framan, loftslagsbreytingar og flóttamannamál o.fl. hafi einnig knúið þar á um

Eins og á fyrri fundum þá voru öryggis- og varnarmál með hliðsjón af árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu til umræðu á fundinum en einnig málefni flótta- og farandfólks, hagvarnir og öryggi flutningskerfa á sviði orkumála, fjarskipta og samgangna. Þá voru samskiptin við Bandaríkin, í ljósi nýafstaðinna forsetakosninga, einnig til umræðu.

Hins vegar var um að ræða óformlegan fund leiðtogaráðs ESB sem hófst í gær og lauk síðdegis í dag, 8. nóvember, og var megin umræðuefnið nýr sáttmáli ríkjanna um aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness deal) sem nú er unnið að í línu við þá stefnumörkun sem mótuð hefur verið á vettvangi ráðsins, sbr. einkum Versalayfirlýsingu ráðsins (e. Versailles Declaration) sem samþykkt var á fundi ráðsins 10. og 11. mars 2022, og Granadayfirlýsinguna (e. Granada declaration) sbr. umfjöllun um þessar yfirlýsingar í Vaktinni 13. október 2023, sbr. einnig nýja stefnuáætlun ráðsins, sbr. umfjöllun um hana í Vaktinni 28. júní sl. Samskipti ESB við Bandaríkin voru einnig til umræðu o.fl.

Að loknum fundinum síðdegis í dag sendu leiðtogar ESB-ríkjanna frá sér sameiginlega yfirlýsingu sem nefnd er Búdapestyfirlýsingin þar sem fjallað er um framangreindan sáttmála um aukna samkeppnishæfni ESB. Sjá nánar um yfirlýsinguna og niðurstöður fundarins hér.

Rafræn auðkenning við ferðir inn og út af Schengen-svæðinu

Hinn 8. október sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tvær löggjafartillögur um rafræna auðkenningu við ferðir til og frá Schengen-svæðinu. Markmið tillagnanna er að auðvelda og auka öryggi landamæraeftirlits á svæðinu.

Í samræmi við gildandi regluverk þurfa allir einstaklingar, þ. á m. ríkisborgarar allra aðildarríkja Schengen-samstarfsins, að fara í gegnum kerfisbundið eftirlit á ytri landamærum þess. Í fyrra voru um 600 milljón ferðir farnar yfir landamærin og er talin þörf á því að flýta landamæraeftirliti án þess þó að gefa eftir í öryggiskröfum og tryggja að hver einasti einstaklingur sé skoðaður. Í tillögunum tveimur er annars vegar lagt til að komið verði á sameiginlegu regluverki um stafvæðingu skilríkja, einkum vegabréfa og nafnskírteina, og hins vegar að gefið verði út sérstakt stafrænt ferðaforrit (e. EU Digital Travel application) vegna ferðalaga til og frá Schengen-svæðinu.

Með rafrænum skilríkjum er átt við stafræna útgáfu af þeim gögnum og upplýsingum sem skráðar eru í örflögur vegabréfa og persónuskilríkja. Gert er ráð fyrir að öllum verði frjálst að sækja um eða nota stafræna útgáfu sinna skilríkja og er jafnframt gert ráð fyrir að slík notkun verði fólki að kostnaðarlausu. Þá er stefnt að því að unnt verði að vista stafræn skilríki í farsímum. Með þessum hætti verður einstaklingum til dæmis unnt að leggja fram stafræna útgáfu sinna ferðaskilríkja fyrir brottför í forskoðun til að tryggja skilvirkari afgreiðslu við komu á landamærastöð. Þannig verður auðveldara að sannreyna auðkenni handhafa og koma betur í veg fyrir notkun falsaðra skilríkja. Þá munu einstaklingar jafnframt eiga þess kost að nota stafrænu skilríkin sín við önnur tilefni, svo sem við flutninga á milli aðildarríkja.

Hið stafræna ferðaforrit verður þróað af framkvæmdastjórn ESB með stuðningi frá Eu-LISA, sem er stofnun ESB um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa á sviði frelsis, öryggis og réttlætis. Gert er ráð fyrir að forritið verði aðgengilegt öllum þeim einstaklingum sem hyggjast ferðast til eða frá Schengen-svæðinu á grundvelli vegabréfs eða evrópsks nafnskírteinis sem inniheldur lífkenni (e. biometric data). Einstaklingar geta með þessum hætti tilkynnt inn í forritið sínar ferðaáætlanir með notkun stafrænna ferðaskilríkja áður en lagt er af stað til að flýta fyrir afgreiðslu á landamærastöð og verður þess gætt að forritið uppfylli öll persónuverndarskilyrði ESB.

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru hluti af stefnu Schengen-samstarfsins, sem samþykktar voru árið 2021, um að stafvæða enn frekar málsmeðferð á ytri landamærum svæðisins. Þá eru þær tengdar stofnun evrópska auðkennisveskisins (e. European Digital Identity Wallets), sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. júlí 2023, þar sem á að vera unnt að vista rafræn vegabréf og skilríki ásamt rafrænum ökuskírteinum, lyfseðlum og öðrum skjölum. Enn fremur er framtakið stutt af stefnu framkvæmdastjórnarinnar um stafræna Evrópu (e. Digital Europe) og stafrænan áttavita (e. Digital Compass), sem falla undir stafræna starfsskrá ESB (e. Europe‘s Digital Decade), sem miða að því að stafvæða alla opinbera þjónustu og veita öllum ríkisborgurum aðildarríkja ESB rafræna auðkenningu fyrir árið 2030.

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Framtíðarhorfur evrópska rannsóknarsvæðisins

Þann 22. október 2024 birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu um stöðu innleiðingar á áætlunum ESB um uppbyggingu á hinu svonefnda sameiginlega evrópska rannsóknarsvæði (e. European Research Area - ERA) sem felur í sér að byggður verði upp sameiginlegur markaður fyrir rannsóknir og nýsköpun innan ESB.

Í orðsendingunni eru ítrekaðar skuldbindingar um að rannsóknir og nýsköpun verði í öndvegi í stefnumótun ESB á sviði efnahagsmála.

Meginniðurstaða orðsendingarinnar er sú að með ERA hafi náðst umtalsverður árangur. Enn sé þó mikið verk að vinna til þess að hámarka þau tækifæri sem felast í samstarfi á þessum vettvangi. Tryggja þurfi samfellu í fjármögnun, bæta starfsþróun og auka stuðning við rannsóknaraðila og sprotafyrirtæki til að taka skrefið frá hugmynd til fjárfestinga og framkvæmda sem er forsenda vaxtar og aukningar samkeppnishæfni til framtíðar.

Í orðsendingunni koma meðal annars fram eftirfarandi áherslur:

1. Forgangsröðun fjárfestinga og umbætur í regluverki

Að stefnt skuli að því að a.m.k. 3% af vergri landsframleiðslu aðildarríkja ESB (GDP) fari til rannsókna og þróunar þar sem tveir þriðju hlutar fjárfestingafjármagns komi frá einkageiranum. Kemur fram að þótt náðst hefði árangur með áætlunum svo sem Recovery and Resilience Facility (RRF) og Horizon Europe, þá nemi fjárfesting ESB ríkja aðeins í 2,3% af vergri landsframleiðslu eins og staðan er nú og skortir þar mest á hlutdeild einkageirans auk þess sem mikill munur er á milli aðildarríkjanna er kemur að fjárfestingu einkaaðila. Þykja ýmsar lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir m.a. standa í vegi aukinnar einkafjárfestingar.

2. Bætt aðgengi að öndvegisvísindastarfi

Að unnið skuli að því að öll aðildarríki geti tekið fullan þátt í því samstarfi sem ERA felur í sér en að því hefur m.a. verið unnið á vettvangi Horizon Europe að beina samstarfi og fjármögnun til minna þróaðra svæða.

3. Hagnýting rannsókna til efnahagslegs ávinnings

Í orðsendingunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að árangur í rannsóknum sé nýttur til nýsköpunar og fjárfestinga í því skyni að styrkja samkeppnishæfni Evrópu. Kemur fram að Evrópska nýsköpunarráðið (European Innovation Council - EIC) hafi orðið leiðandi á sviði fjárfestinga í hátækni og dregið að sér einkafjárfestingar. Þó þurfi meira til að efla nýsköpunarfyrirtæki en talið er að skortur á áhættufjármagni sé ein orsök þess að ESB hafi dregist aftur úr helstu samkeppnisaðilum.

4. Dýpkun evrópska rannsóknarsvæðisins

Þá er í orðsendingunni lögð áhersla á að nýta ERA áfram til að stuðla að betra starfsumhverfi fyrir vísindamenn og til að auka jafnrétti á sviði rannsókna og nýsköpunar. Nýlegar aðgerðir, svo sem tillögur ERA-nefndar ráðherraráðs ESB (European Research Area and Innovation Committee – ERAC) um störf á sviði rannsókna og kynning á aðgerðum eins og ERA Talent Platform og EURAXESS hafa verið hvetjandi en tækifæri til starfsþróunar eru þó enn talin ójöfn á milli aðildarríkja, sérstaklega á minna þróuðum svæðum innan sambandsins.

Ísland tekur virkan þátt í ERA með þátttöku í samstarfsáætlunum ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar á grundvelli EES-samningsins, þar á meðal Horizon Europe, og er óhætt að segja að þátttaka Íslands hafi opnað dyr að mikilvægum fjármögnunartækifærum sem styðja við nýsköpun og tækniþróun hér á landi.

Yfirheyrslur Evrópuþingsins yfir framkvæmdastjóraefnum

Yfirheyrslur yfir framkvæmdastjóraefnum í nýrri framkvæmdastjórn, skv. tillögu Ursulu von der Leyen (VdL), hófust í þingnefndum Evrópuþingsins á mánudaginn sl. og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í næstu viku, þriðjudaginn 12. nóvember, en þann dag er gert ráð fyrir að yfirheyrslur yfir varaforsetaefnum nýrrar framkvæmdastjórnar fari fram, sbr. dagskrá.

Maroš Šefčovič sem einnig á sæti í núverandi framkvæmdastjórn þar sem hann hefur m.a. borið ábyrgð á rekstri EES-samningsins og samskiptum við EES/EFTA-ríkin var fyrstur til að mæta til yfirheyrslu á mánudaginn, en gert er ráð fyrir því að hann beri áfram m.a. ábyrgð á EES-málefnum í nýrri framkvæmdastjórn, skv. tillögu VdL. Sjá hér upplýsingasíðu hjá þinginu um Šefčovič þar sem m.a. má finna svör hans við skriflegum spurningum þingsins og upptöku af yfirheyrslunni yfir honum.

Almennt má segja að yfirheyrslur hafi gengið vel í vikunni og samkvæmt fréttum hefur tilskilinn meiri hluti í þingnefndunum þegar náðst um framgang allra framkvæmdastjóraefnanna að frátöldum Olivér Várhelyi sem tilnefndur var af hálfu Ungverjalands og hefur honum verið gert að svara viðbótarspurningum frá viðkomandi þingnefndum og í framhaldi af því má vænta að hann verði boðaður til framhaldsyfirheyrslufunda í viðkomandi þingnefndum áður en ákvörðun um brautargengi hans verður tekin.

Samkvæmt núverandi áætlun er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla í þinginu um nýja framkvæmastjórn í heild sinni geti mögulega fari fram í vikunni 25. – 28. nóvember nk. en sú áætlun er þó fyrirvörum háð.

Sjá nánar um ferlið framundan við skipun nýrrar framkvæmdastjórnar og um hina þinglegu meðferð sem og um tillögu VdL að nýrri framkvæmdastjórn í Vaktinni 27. september sl. og í Vaktinni 11. október sl.

Sjá einnig upplýsingasíðu Evrópuþingsins um hina þinglegu meðferð þar sem m.a. má nálgast upptökur af yfirheyrslum yfir öllum framkvæmdastjóraefnunum og svör þeirra við skriflegum fyrirspurnum þingsins.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta