Fundargerð 12. fundar stjórnarskrárnefndar
Fundargerð 12. fundar stjórnarskrárnefndar
1. Inngangur
Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 12. desember 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson var veðurtepptur. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.
Þá var lögð fram til upplýsingar fundargerð 20. fundar sérfræðinganefndarinnar.
2. Erindi sem borist hafa nefndinni
Lagt var fram erindi frá séra Baldri Kristjánssyni þar sem hann vakti athygli á ábendingu Evrópunefndar gegn kynþáttahatri og umburðarleysi um að það vantaði í stjórnarskrána ákvæði um bann við kynþáttamisrétti.
Formaður kynnti einnig erindi sem borist hefði frá Sagnfræðingafélagi Íslands með tillögu um sameiginlegt málþing um embætti forseta Íslands og stjórnarskrána í sögulegu ljósi. Tillaga þessi fékk góðar undirtektir og var ritara falið að ræða við Sagnfræðingafélagið um nánari útfærslu.
3. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
Lögð voru fram frumdrög að endurskoðuðum 3.-10. gr. stjórnarskrárinnar sem sérfræðinganefndin hafði unnið í kjölfar umræðu á síðasta fundi. Eiríkur Tómasson fylgdi frumdrögunum úr hlaði. Formaður lagði til að ekki yrði umræða á þessum fundi um drögin heldur yrði haldið áfram yfirferð yfir ákvæði II. kafla stjórnarskrárinnar þar sem frá var horfið.
Að því búnu hóf formaður umræðu um 11. gr. stjórnarskrárinnar. Var einkum rætt um það hvað fælist í því orðalagi 1. mgr. að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Eins var fjallað um það að stjórnarskráin mætti vera skýrari um hlutverk og heimildir forseta til dæmis á sviði samskipta við önnur ríki. Sumir nefndarmenn voru reyndar á því að þetta hefði ekki skapað sérstök vandamál, hægt væri að treysta því að forseti hverju sinni hefði samráð við ríkisstjórn eftir því sem þörf krefði.
Formaður kvað þessa umræðu hafa verið gagnlega. Hann ályktaði af umræðunni að það væri þörf á ítarlegri ákvæðum um hlutverk forseta, t.d. varðandi samskipti við erlend ríki. Var samþykkt að fela sérfræðinganefndinni að huga að þessu milli funda.
4. Önnur mál
Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 3. janúar frá kl. 13-17.