Hoppa yfir valmynd
26. maí 2015 Innviðaráðuneytið

Auknum húsnæðiskostnaði leigjenda mætt með húsnæðisbótum

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Húsnæðiskostnaður fólks á leigumarkaði sem hlutfall af tekjum hefur hækkað verulega síðustu ár meðan húsnæðiskostnaður fólks sem býr í eigin húsnæði hefur lækkað. Leigjendum hefur jafnframt fjölgað umtalsvert. Þörf fyrir aukinn húsnæðisstuðning við leigjendur er augljós og nýju húsnæðisbótakerfi er ætlað að mæta breyttum veruleika á húsnæðismarkaði.

Fjölmiðlar hafa síðustu daga fjallað um frumvarp til húsnæðisbóta og er umfjöllunin á þá leið að upptaka húsnæðisbóta samkvæmt frumvarpinu muni nýtast best þeim sem eru tekjuháir og að niðurgreiðsla húsaleigu verði hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Mikilvægum forsendum að baki útreikningi húsnæðisbóta er þar sleppt. Vegur þar þyngst að grunnbætur eru hækkaðar verulega, og frítekjumarkið hækkar einnig þar sem aukið tillit er tekið til fjölskyldustærðar.

Aðstæður á húsnæðismarkaði hafa breyst verulega í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þar sem leigjendum á húsnæðismarkaði hefur fjölgað umtalsvert og byrði húsnæðiskostnaðar hjá leigjendum hefur þyngst. Árið 2007 bjuggu rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið í tæp 25%. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2013 voru rúm 22% leigjenda á almennum markaði undir lágtekjumörkum í samanburði við tæp 6% fjölskyldna í eigin húsnæði.

Fjölgun leigjenda á almennum markaði er mest í hópi þeirra tekjulægstu. Með hækkun grunnbóta er stuðningur við þá aukinn umtalsvert en jafnframt er leitast við að koma til móts við stærri hóp leigjenda sem ber aukinn húsnæðiskostnað vegna fjölskyldustærðar.

Þótt frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sé einkum ætlað að auka húsnæðisstuðning við tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga er markmiðið jafnframt að jafna opinberan húsnæðisstuðning til að skapa fólki raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma, þ.e. eignaríbúða, leiguíbúða eða búsetuíbúða. Af þessu leiðir að hópurinn sem getur átt rétt á húsnæðisstuðningi vegna leiguhúsnæðis mun stækka með innleiðingu nýrra húsnæðisbóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta