Mál nr. 30/2021 -Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 30/2021
Aðgengi að gögnum stjórnar húsfélags.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með álitsbeiðni, dags. 5. apríl 2021, beindi A hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn B, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 29. apríl 2021, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 17. maí 2021, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. ágúst 2021.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 76 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsinu en gagnaðili er stjórn húsfélagsins. Ágreiningur er um aðgengi að gögnum húsfélagsins og hvort álitsbeiðanda sé heimilt að taka ljósmyndir af þeim.
Kröfur álitsbeiðanda eru:
- Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að birta álitsbeiðanda fundargerðir allra funda hans eftir 29. október 2020 og einnig að hann skuli fá aðgang að öllum gögnum og/eða skjölum sem gagnaðili hafi fjallað um og samin hafi verið eða samþykkt á fundunum eða á annan hátt að undirlagi stjórnar eða stjórnarmanna.
- Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi fái að sjá dagskrártillögu sem samkvæmt fundargerð aðalfundar 29. september 2020 hafi verið lögð fram af einum eiganda í nafni þeirra sem hafi verið lengst í húsinu, sbr. það sem segir í fundargerð.
- Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda verði birt krafa á hendur honum og konu hans sem fjallað hafi verið um á fundi gagnaðila 29. október 2020.
Í álitsbeiðni kemur fram að þrátt fyrir að álitsbeiðandi og fleiri eigendur hafi ítrekað óskað eftir því við stjórn gagnaðila að fagaðili yrði fenginn til að annast ýmsan bókhaldslegan rekstur hafi allar stjórnir gagnaðila undanfarinna ára sett sig upp á móti því. Þar af leiðandi hljóti húsfélagsstjórnin sjálf að annast alla upplýsingamiðlun lögum samkvæmt.
Það hafi gengið svo langt á aðalfundi sem haldinn hafi verið 29. september 2020 að framkvæmdastjóri húsfélagaþjónustu hafi verið hrópuð niður af einum fundargesta áður en hún hafi fengið að taka til máls. Þessu hafi ekki verið greint frá í fundargerð. Álitsbeiðandi og nokkrir aðrir eigendur höfðu fengið framkvæmdastjórann á fundinn til kynningar á tilboði fyrirtækisins, sbr. dagskrárlið 12 í fundargerð aðalfundar samkvæmt auglýstu aðalfundarboði. Framkvæmdastjórinn hafi komið á fundinn andmælalaust af hálfu stjórnar. Í fundargerðinni hafi aftur á móti verið greint frá ræðu fyrrnefnds fundargests og dagskrártillögu sem hann hafi lagt fram um að vísa fundarlið 12 til stjórnar gagnaðila. Tillagan hafi verið samþykkt, þrátt fyrir allt gerræðið og fundarskapabrotin með fulltingi fundarstjóra og þegjandi samþykki stjórnar. Þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir álitsbeiðanda til gagnaðila um að fá aðgang að eða afrit af þessari dagskrártillögu, meðal annars til að fá séð allt orðalag hennar og í nafni hve margra og hverra hún hafi raunverulega verið lögð fram, hafi þessum beiðnum í engu verið sinnt eða svarað.
Með tölvupósti 10. nóvember 2020 hafi álitsbeiðandi lagt fram beiðni til gagnaðila um að fá nákvæmt afrit af þeirri formlegu kröfu sem hefði verið rætt um undir dagskrárlið 4 á fundi stjórnar gagnaðila 29. október 2020. Samkvæmt fundargerðinni sé þessari formlegu kröfu beint gegn álitsbeiðanda og konu hans með mjög alvarlegum hætti, og það á fullkomlega fölskum og upplognum forsendum, enda sé umrædd kvaðning lögmanns í fundargerðinni byggð á uppspuna og beinlínis rógi frá rótum, sem liggi fyrir til umfjöllunar í réttarkerfinu. Þrátt fyrir að álitsbeiðandi hafi margsinnis ítrekað beiðni í síðari tölvupóstum um að hann fái aðgang að þessari kröfu með vísan til 6. mgr. 69. greinar fjöleignarhúsalaga, hafi henni aldrei verið svarað.
Þann 17. október 2020 hafi álitsbeiðandi fengið boðsent bréf lögfræðings sem stjórnarmenn gagnaðila höfðu ráðið sér til fulltingis. Bréfið hafi falið í sér hótanir og rakalausar fullyrðingar og meðal annars upploginn sakburð um refsiverða háttsemi álitsbeiðanda. Hér verði ekki vikið frekar að efni þessa hótunarbréfs, enda hafi því verið vísað til umfjöllunar í réttarkerfinu. Á hinn bóginn, þrátt fyrir að lögfræðingurinn hafi ekki vogað sér að fylgja hótunum sínum og stjórnarinnar eftir, hafi stjórn gagnaðila engu að síður lagt þetta bréf til grundvallar óhróðursherferð á hendur álitsbeiðanda og konu hans innan gagnaðila. Um miðjan febrúar hafi þó tekið steininn úr þegar álitsbeiðanda hafi borist til eyrna að tveir eigendur að minnsta kosti, þar á meðal annar tveggja varamanna stjórnar, hafi gengið fyrir dyr hvers og eins í húsinu með blað til undirritunar með óhróðri í garð álitsbeiðanda sem hafi verið byggður á áðurnefndu hótunarbréfi.
Eftir að hafa fengið þetta staðfest hjá nokkrum eigendum hafi álitsbeiðandi sent gagnaðila tölvupóst 17. febrúar með beiðni um að fá aðgang að fundargerðum allra funda sem hann hefði haldið eftir 29. október 2020, ásamt því fá aðgang að öllum gögnum eða skjölum sem samin höfðu verið eða samþykkt á fundunum. Beiðnin hafi verið ítrekuð 19. febrúar 2020. Hann hafi fengið svar næsta dag sem hafi þó einungis falið í sér útúrsnúning ritara gagnaðila á beiðni hans. Álitsbeiðandi hafi brugðist við þessu samdægurs með orðsendingu sem hann hafi lagt í póstkassa allra íbúa (ásamt tölvupóstunum tveimur til stjórnar prentuðum aftan á) þar sem hann hafi upplýst að gagnaðili hefði hafnað því að birta honum skjalfestan róginn og óhróðurinn sem fyrir tilverknað gagnaðila hefði verið borinn út fyrir hvers manns dyr innan húsfélagsins. Þann 25. febrúar 2020 hafi hann svo lagt fjögurra blaðsíðna yfirlýsingu í póstkassa allra íbúa þar sem hann hafi hrakið málatilbúnað gagnaðila frá upphafi til enda.
Álitsbeiðandi hafi ítrekað beiðni sína 23. febrúar 2020, án árangurs. Samdægurs hafi hann þó fengið svar frá formanni gagnaðila sem viðbrögð við tölvupóstinum frá 17. febrúar þess efnis að hann gæti fengið aðgang að gögnum um húsvörð, sem hann hafði óskað eftir í framhjáhlaupi, alls óháð meginbeiðninni. Þá hafi hann ítrekað beiðni sína með tölvupósti 28. febrúar. Einnig hafi hann lýst því yfir að hann myndi mæta kl. 17 í samkomusal hússins næsta dag, enda ljóst af viðbrögðum gagnaðila að hann hafi ekki verið tilbúinn til að nefna stað og stund. Álitsbeiðandi myndi þá láta á það reyna hvort gagnaðili hefði vilja til að hlýta lögboðnum skyldum sínum samkvæmt 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús. Álitsbeiðandi hafi átt um einnar mínútu langan fund með formanni og varamanni. Þau hafi lagt fyrir hann möppu með gögnum sem þau hafi sagt varða upplýsingar um húsvörð og húsvörslu. Þegar álitsbeiðandi hugðist taka ljósmyndir af einstökum skjölum hafi þau þvertekið fyrir það með þeim orðum að hvorki mætti ljósmynda né ljósrita gögnin heldur einungis skoða. Álitsbeiðandi hafi blaðað örstutt í gegnum möppuna og spurt hvort þau hefðu einhver fleiri gögn, önnur er vörðuðu húsvörðinn, en þau hafi bæði neitað því.
Kröfur sínar byggi álitsbeiðandi á 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús. Samkvæmt ákvæðinu séu lagðar þær skyldur á herðar gagnaðila að hann veiti eigendum upplýsingar um öll málefni húsfélagsins undanbragðalaust og án þess að með lögunum séu nokkrar takmarkanir lagðar við afritun gagna, hvorki með handvirkri eftirritun eða með stafrænum hætti, svo sem tölvuafritun, skönnun, ljósritun eða ljósmyndun.
Þá vísar álitsbeiðandi til laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, og tekur fram að þau gildi um félög samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
Í greinargerð gagnaðila segir að með vísan til 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, beri að vísa kröfum álitsbeiðanda frá, enda veiti nefndin ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur taki afstöðu til tiltekinna krafna aðila. Þá verði auk þess ekki séð að álitsbeiðandi hafi leitað eftir skýringum hússtjórnar á málinu með fullnægjandi hætti eins og áskilið sé þegar um sé að ræða ágreining sem stjórn húsfélagsins beri að veita eigendum upplýsingar um samkvæmt lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Þær spurningar sem álitsbeiðandi óski álits á varði ekki afstöðu nefndarinnar til tiltekinna krafna og sé því ómögulegt fyrir hana að taka kröfurnar upp í niðurstöðuorð sín. Nauðsynlegt hefði verið fyrir álitsbeiðanda að afmarka þau atriði sem hann óski upplýsinga og skýringa á, enda sé til að mynda erfitt að henda reiður á hvað falli undir „öll atriði er varða málefni húsfélagsins“. Þá sé ekki sett fram tilgreind krafa um hvaða gögn hann vilji fá að afrita. Álitsbeiðanda hafi með vísan til ofangreinds ekki tekist að gera grein fyrir ágreiningi aðila eða setja fram skýrar kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni.
Viðurkenndur bókari hafi starfað fyrir gagnaðila í mörg ár og séð um að leggja fram rekstrar- og ársreikninga. Hafi samstarf hans við stjórnir húsfélagsins gengið afar vel og hann verið innan handar við ýmis álitamál í rekstri húsfélagsins. Núverandi húsvörður hafi verið ráðinn í gegnum ráðingaskrifstofu og starfslýsing sé alls ekki á reiki. Fundarstjóri og fundarritari hafi verið ráðnir til verksins sökum reynslu þeirra af slíkum verkum. Stjórn gagnaðila hafi ákveðið á stjórnarfundi 17. desember 2019 að fá kynningu frá tveimur fyrirtækjum í rekstur gagnaðila. Niðurstaða meirihluta gagnaðila hafi verið sú að það væri enginn ávinningur fyrir húsfélagið að breyta rekstrarfyrirkomulagi en því gæti á hinn bóginn fylgt aukinn kostnaður. Eins og fram hafi komið í dagskrá aðalfundar sem haldinn hafi verið 29. september 2020 í 12. lið: Kynning íbúa í húsinu og kosning um tilboð […] ehf. um bókhaldslega rekstrarþjónustu o.fl. (þjónustuleið 2), sem sett var á dagskrá að ósk eins íbúa hússins. Ekki hafi verið gert ráð fyrir að utanaðkomandi aðili kæmi inn á fundinn í þessum lið heldur að íbúi í húsinu kynnti málið en leita hefði þurft samþykkis fundarmanna til að utanaðkomandi fengi orðið á fundinum. Í fundargerð hafi komið fram að tiltekinn eigandi hafi lýst þeirri skoðun sinni að mikil vinna væri lögð á stjórnarmenn (hún hafði setið um stutt skeið í stjórn) og því ætti að ráða fyrirtæki til að sjá um daglegan rekstur. Enginn annar stjórnarmaður hafi haft orð á því að vinnuálagið í þessu sjálfboðastarfi væri íþyngjandi. Einn fundarmaður hafi tjáð sig og lagt fram dagskrártillögu þar sem fram hafi komið í fundargerð að hann hafi viljað vísa málinu til gagnaðila en ekki fá kynningu frá rekstraraðila. Sú tillaga hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn fjórum. Fram hafi komið í fundargerð að gera megi þá ráð fyrir að tillagan hafi verið flutt í nafni meirihluta fundarmanna.
Álitsbeiðandi hafi ekki sjálfur verið staddur á fundinum svo að lýsingar hans á því hvað þar hafi farið fram hljóti að koma frá þriðja aðila. Gagnaðili viti ekki hvað hafi orðið um þann miða sem álitsbeiðandi hafi vísað til. Miklu máli skipti í þessu sambandi að fundargerð hafi verið lesin upp í lok fundar eins og vera beri og samþykkt án athugasemda svo að hún hljóti að teljast rétt.
Umfjöllun gagnaðila sem álitsbeiðandi telji vera róg gegn sér varði í raun réttindi annarra eigenda í húsinu um úrbætur sem hafi tekið óeðlilega langan tíma að koma í gegn, sbr. nánar matsbeiðni gagnaðila til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 22. mars 2021, vegna leka og rakatjóns í íbúðum 501 og 502.
Eins og fram hafi komið í fundargerð gagnaðila vegna fundar 29. október 2020 hafi fundarmenn viljað leita leiða til sátta við álitsbeiðanda og hafi það verið reynt. Eftir að hafa þjónað óskum hans um afrit af fundargerðum síðastliðinna þriggja ára og stjórnarfunda jafnframt en aðeins hlotið skömm í hattinn fyrir allar upplýsingarnar sem honum hafi verið sendar, hafi stjórnin ákveðið að þjóna honum ekki umfram lögbundna skyldu en bjóða honum aðgang að öllum pappírum stjórnar til skoðunar eins og lög kveði á um, sbr. tölvupóstur sendur honum þar um 3. desember 2020. Álitsbeiðandi hafi ekki sýnt áhuga á að nýta sér þau réttindi sín en þessi réttindi hans hafi verið ítrekuð í tölvupósti, sendum honum 20. febrúar 2021.
Þann 17. október 2020 hafi álitsbeiðandi fengið senda áskorun um að hleypa iðnaðarmönnum inn til þess að ganga mætti frá þessu lekamáli. Gagnaðili hafi ekki séð það sem hótun en hafi vonast til að það fengi álitsbeiðanda til samvinnu svo að eigendur íbúða sem lekatjón hafi bitnað á fengju úrlausn sinna mála. Álitsbeiðanda hafi verið í mun að bréfið yrði afturkallað og að húsfélagið skipti um tryggingafélag hið snarasta. Gagnaðili hafi svarað álitsbeiðanda með tölvupósti 6. janúar 2021. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir að fá aðgang að öllum fundargerðum og samþykktum gagnaðila með tölvupósti 17. febrúar 2021 og hafi hann ítrekað þá beiðni 19. febrúar. Hann hafi verið afar ósáttur við að frétta af óhefðbundnum húsfundi í ljósi samkomutakmarkana vegna fyrirhugaðrar dómkvaðningar matsmanns fyrir hönd húsfélagsins. Ritari hafi þá ekki verið á landinu og fundargerðarbók því miður ekki aðgengileg. Ritari hafi svarað honum með tölvupósti 20. febrúar 2021 með því sem hann hafi kallað útúrsnúning.
Það sem álitsbeiðandi hafi kallað óhróðursskjal í hans garð sé í raun undirskriftaskjal til eigenda hússins til tryggingar á nægum meirihluta eigenda fyrir því að óska eftir dómkvaðningu matsmanna. Ritari gagnaðila hafi ekki verið á landinu og fundargerðarbók ekki við hendina þegar formaður hafi sent svarpóst við tölvupósti sem álitsbeiðandi hafi sent 17., 19. og 23. febrúar. Hafi þetta verið í fyrsta skipti sem álitsbeiðandi hafi látið í ljós áhuga á að skoða gögn í viðurvist stjórnarmanna.
Kærunefnd húsamála hafi í álitum sínum í gegnum tíðina tekið fyrir mál er varða 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús. Vísað sé til álits nefndarinnar í máli nr. 75/2018.
Líkt og gögn málsins beri með sér hafi gagnaðili aldrei hafnað því að leyfa álitsbeiðanda að sjá og skoða öll þau gögn sem hann hafi óskað eftir heldur þvert á móti. Auk þess hafi honum verið afhent ljósrit fundargerða húsfunda sem og fundargerða hússtjórnar. Óhætt sé að segja að mjög langt hafi verið gengið í því að þjónusta álitsbeiðanda í þessum efnum.
Álitsbeiðandi hafi með engu móti sýnt fram á lögvarinn rétt sinn til þess að afrita ótilgreind gögn né heldur sýnt fram á með hvaða hætti hann ætli sér að afrita hin ótilgreindu gögn án þess að gagnaðila verði gert að afhenda honum þau, sbr. krafa hans um að fá að afrita gögn með ljósritun og skönnun.
Verði kröfum álitsbeiðanda ekki þá þegar vísað frá beri að hafna þeim með vísan til ofangreinds, enda sé og álitsbeiðnin í raun markleysa eins og gögn málsins sýni fram á.
Ekki þyki ástæða til að svara vangaveltum álitsbeiðanda um lagatúlkun á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, enda afmarkist hlutverk kærunefndar húsamála við að fjalla um réttindi og skyldur málsaðila samkvæmt lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sbr. meðal annars 1. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála.
Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að gagnaðili hafi í greinargerð sinni vísað í hin ýmsu gögn sem álitsbeiðanda hafi verið neitað um aðgang að. Þá gerir álitsbeiðandi athugasemdir við vinnu lögmanns fyrir gagnaðila, án þess að húsfundur hafi veitt umboð til þess.
Með greinargerð gagnaðila hafi fylgt undirskriftaskjal frá febrúar 2021 sem álitsbeiðandi hafi fyrst fengið aðgang að í máli þessu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um aðgang að því, sbr. krafa hans í lið II.
Álitsbeiðandi hafi hvergi óskað eftir áliti nefndarinnar á spurningum. Þá hafi álitsbeiðandi ítrekað óskað eftir ákveðnum fundargerðum og gögnum.
Álitsbeiðandi hafi talið ástæðu til að lýsa fundarskapabrotum á aðalfundinum 29. september 2020 og því hvernig dagskrárliður 12 hafi verið blásinn af með dagskrártillögu fyrir gerræði fundarstjóra og þegjandi samþykki gagnaðila þar sem hann hafi viljað leggja áherslu á hve mikilvægt væri að sjá þessa tillögu, enda hafi hún verið lögð til grundvallar því að brotið hafi verið á þeim sem hafi staðið að dagskrárliðnum. Engu máli skiptir hvort álitsbeiðandi hafi verið viðstaddur umræddan aðalfund.
Í greinargerð gagnaðila hafi birst skjalið, sem álitsbeiðandi hafi óskað eftir aðgengi að, sem varði formlega kröfu á hendur honum.
Hvað varði ummæli gagnaðila um að hafa þjónað óskum álitsbeiðanda um afrit af fundargerðum síðastliðinna þriggja ára, það er að segja til og með 29. október 2020, sé alls óháð kröfu hans í máli þessu, hafi álitsbeiðandi haft ástæðu til að óska eftir þeim, meðal annars í kjölfar athugunar hans á ársreikningum húsfélagsins mörg ár aftur í tímann.
Það gildi einu hvort álitsbeiðandi hafi óskað eftir afritum af gögnum eða einungis eftir birtingu þeirra þar sem skylda stjórnarmanna til að heimila skoðun gagna sé jafn ótvíræð og bann þeirra við að afritun sé óheimil, enda geti slíks banns hvergi í lögum. Fullyrðing um að álitsbeiðandi hafi ekki sýnt því áhuga að nýta réttindi sín í því sambandi sé út í hött, enda stangist hún á við urmul gagna sem sanni hið gagnstæða þar sem álitsbeiðandi hafi ítrekað óskað eftir aðgengi að gögnum.
Gagnaðili hafi vísað til máls kærunefndar nr. 75/2018 sem fjalli um kröfu um að viðurkennd verði skylda húsfélags til að afhenda gögn en það komi máli þessu ekki við, enda hafi álitsbeiðandi aldrei óskað eftir afhendingu gagna.
Það sé rangt að álitsbeiðanda hafi verið afhent ljósrit fundargerða húsfunda sem og ljósrit fundargerða hússtjórnar. Eini húsfundurinn sem gæti komið til álita í þessu sambandi eftir 29. október 2020 sé sá óhefðbundni húsfundur sem vísað hafi verið til í greinargerð gagnaðila en ekki hafi verið boðað til húsfundar eftir 29. október 2020. Hvað varði ljósrit fundargerða gagnaðila hafi álitsbeiðanda hvorki verið birt né afhent nokkurt ljósrit frá 29. október 2020.
Hlutverk kærunefndar húsamála afmarkist sannanlega við réttindi og skyldur málsaðila samkvæmt lögum um fjöleignarhús og við reglugerð um nefndina ekki síður en að þau sömu lög afmarkist af fjölda annarra laga.
Í athugasemdum sínum fjallar álitsbeiðandi jafnframt um ýmis önnur ágreiningsefni aðila sem varða ekki kröfur hans í máli þessu og þykir því ekki ástæða til að greina nánar frá þeim hér.
III. Forsendur
Deilt er um aðgengi álitsbeiðanda að gögnum gagnaðila og einnig hvort honum sé heimilt að taka ljósmyndir af þeim. Ljóst er að með greinargerð gagnaðila fékk álitsbeiðandi aðgang að þeim gögnum sem varða kröfur hans í liðum II og III. Er því ekki ágreiningur um þær kröfur lengur og verður því ekki fjallað sérstaklega um þær.
Eftir stendur því krafa álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að veita honum aðgengi að fundargerðum allra funda sem haldnir hafi verið eftir 29. október 2020 og öllum gögnum og/eða skjölum sem gagnaðili hafi fjallað um og samin hafi verið eða samþykkt á fundum eða á annan hátt aflað að undirlagi stjórnar eða stjórnarmanna.
Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varði málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skuli eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Í 68. gr. laga um fjöleignarhús er að finna ákvæði um stjórnarfundi. Segir þar í 7. mgr. að stjórnin skuli færa í fundargerðarbók meginatriði þess sem gert sé og ákveðið á fundum. Skuli fundargerðin undirrituð af öllum viðstöddum stjórnarmönnum.
Með tölvupósti sóknaraðila 17. febrúar 2021 til gagnaðila upplýsti hann að hann hefði fengið upplýsingar um að gagnaðili hefði haldið fund eða fundi og óskaði hann eftir afriti fundargerða vegna funda sem haldnir hafi verið eftir 29. október 2020. Í greinargerð gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi orðið ósáttur við að heyra af óhefðbundnum húsfundi í ljósi samkomutakmarkana vegna fyrirhugaðrar dómkvaðningar matsmanns fyrir hönd húsfélagsins. Ætla má út frá gögnum málsins að hinn óhefðbundni húsfundur hafi falist í söfnun undirskrifta eigenda í þeim tilgangi að tryggja samþykki fyrir því að húsfélagið óski eftir dómkvaðningu matsmanns. Ekki er ágreiningur með aðilum um lögmæti ákvörðunar húsfélagsins en álitsbeiðandi óskar eftir aðgangi að gögnum sem gagnaðili segir að séu ekki til. Krafa álitsbeiðanda lýtur ekki að ákveðnu skjali heldur er krafa hans almennt orðuð um viðurkenningu á því að hann eigi rétt á aðgangi að fundargerðum allra funda gagnaðila eftir 29. október 2020 og einnig að hann skuli fá aðgang að öllum gögnum og/eða skjölum sem gagnaðili hafi fjallað um og samin hafi verið eða samþykkt á fundunum eða á annan hátt að undirlagi stjórnar eða stjórnarmanna. Gagnaðili hefur ekki neitað álitsbeiðanda um aðgang að gögnum og segir enga fundargerð hafa verið ritaða eftir 29. október 2020. Telur kærunefnd ekki vera til staðar ágreining um aðgang að tilteknu skjali og vísar því kröfu álitsbeiðanda frá.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að vísa beri kröfum álitsbeiðanda frá kærunefnd.
Reykjavík, 31. ágúst 2021
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson