Þjóðræknisfélag Íslendinga 80 ára
Þjóðræknisfélag Íslendinga fagnar 80 ára afmæli sínu í ár. Félagið var stofnað 1. desember 1939 en markmið þess er að efla samskipti og samvinnu Íslendinga og Vestur-Íslendinga með ýmsum hætti. Afmælisárinu var fagnað á Þjóðræknisþingi sem fram fór í dag.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sótti þingið en hún var heiðursgestur á Íslendingadögunum í Mountain í Norður-Dakóta Í Bandaríkjunum og í Gimli í Manitobafylki í Kanada fyrr í sumar. „Tengsl Íslendinga og Vestur-Íslendinga eru einstök. Skýr birtingamynd þeirra er hið öfluga og óeigingjarna starf sem fer fram innan þjóðræknisfélaganna beggja megin Atlantshafsins. Það er skylda okkar að halda áfram að rækta þessi tengsl og byggja enn fleiri brýr yfir til skyldfólks okkar í Vesturheimi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Talið er að milli 15.000-20.000 Íslendingar hafi flust búferlum og hafið nýtt líf í Vesturheimi á árunum 1875-1914. Í heimsókn sinni þangað fyrr í sumar greindi ráðherra frá samkomulagi mennta- og menningarmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og Háskóla Íslands um aukinn stuðning við íslenskudeildina við Manitobaháskóla í Winnipeg. Í því felst ráðning kennara til þriggja ára við deildina sem mun meðal annars kenna námskeið í íslenskum bókmenntum, sinna framhaldsnemum deildarinnar, hafa umsjón með sumarnámskeiði á Íslandi fyrir nemendur deildarinnar og koma að útgáfustarfsemi í tengslum við bókmennta- og menningararf Vesturfaranna og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku.
Á mynd: Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Jeffery Ross Gunter sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Hjálmar W. Hannesson fyrrverandi sendiherra, Sunna Pam Furstenau forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Bandaríkjunum, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Anne-Tamara Lorre sendiherra Kanada á Íslandi, Hulda Karen Daníelsdóttir formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga, Hugi Hreiðarsson, Beverly Arason-Gaudet forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og Svavar Gestsson fyrrverandi sendiherra og ráðherra.