Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mælti fyrir aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

Menningar- og viðskiptaráðherra á kynningu ráðherranefndarinnar í Hörpu. - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson
„Þetta er eitt brýnasta mál samtímans, vegna þess að ef við fjárfestum ekki verulega í öllu sem tengist tungumálinu okkar og menntun, drögumst við hægt og rólega aftur úr,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu á Alþingi en um er að ræða 19 aðgerðir. Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnti fyrir viku tillögur sínar, sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar.

Aðgerðirnar 19 verða kynntar betur hér á vef Stjórnarráðsins á næstu vikum.

Yfirlit yfir aðgerðir:

1. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu.
2. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
3. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
4. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
5. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
6. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
7. Viðhorf til íslensku.
8. Mikilvægi lista og menningar.
9. Aukin talsetning og textun á íslensku.
10. Íslenskugátt.
11. Öflug skólasöfn.
12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik og grunnskólum og frístundastarfi.
15. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum
16. Framtíð máltækni.
17. Íslenska handa öllum.
18. Íslenska er sjálfsagt mál.
19. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.

Með áætluninni eru forgangsverkefni stjórnvalda í málefnum íslenskunnar skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu.

Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda sl. sumar. Alls bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna, auk þess sem fjölmargir umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju sinni með aðgerðaáætlunina í heild sinni.

Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri. Auk aðgerðanna 19 í áætluninni er víðar unnið að fjölbreyttum verkefnum í þágu íslenskrar tungu; hjá ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum og félagasamtökum.

Sjá einnig:

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 

Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnir aðgerðir 

Er þetta málið? 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta