Nr. 454/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 454/2018
Miðvikudaginn 6. mars 2019
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 29. desember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2018, um innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun með umsókn 6. desember 2017. Umsókn kæranda var samþykkt og fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í maí 2018 kom í ljós að kærandi hafði fengið greiðslu sjúkradagpeninga frá B í janúar 2018 samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna um greiðsluna til stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. maí 2018, óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum kæranda vegna ótilkynntra tekna. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun, dags. 30. maí 2018, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna tekna frá B. Kæranda var einnig tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 6. desember 2017 til 2. janúar 2018 að fjárhæð 286.966 kr. að meðtöldu álagi og að þær yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Í október 2018 var skuld kæranda enn ógreidd og með ákvörðun, dags. 24. október 2018, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni 200.571 kr. að meðtöldu álagi á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. desember 2018 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2018. Með bréfi, dags. 14. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 1. febrúar 2019 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um greiðslur úr sjúkrasjóði B áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Greiðslan hafi komið á meðan hann hafi fengið atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi ekki áttað sig á því að tilkynna greiðsluna til Vinnumálastofnunar en sent afrit af launaseðli eftir fyrirspurn stofnunarinnar. Vegna þessa hafi kærandi misst bætur í tvo mánuði, sem að hans mati sé hæfileg refsing þar sem hann hafi átt að vita betur, en til viðbótar þurfi hann að greiða 286.966 kr. Það sé að mati kæranda frekar hörð refsing þar sem hann hafi sent skýringu samdægurs og þar sem um mannleg mistök hafi verið að ræða. Kærandi óski því eftir að fallið verði frá framangreindri endurkröfu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 6. desember 2017. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í maí 2018 hafi komið í ljós að kærandi hafi þegið greiðslu sjúkradagpeninga frá B í janúar 2018. Í kjölfarið hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar auk þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 286.966 kr. að meðtöldu 15% álagi. Hluta skuldar kæranda hafi verið skuldajafnað við síðari greiðslur atvinnuleysisbóta þar til hann hafi verið afskráður hjá Vinnumálastofnun þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit í ágúst 2018. Þann 24. október 2018 hafi kæranda verið sent innheimtubréf vegna skuldarinnar sem hafi þá numið 200.571 kr. að meðtöldu 15% álagi.
Vinnumálastofnun tekur fram að málið lúti meðal annars að 1. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006. Í ákvæðinu komi meðal annars fram að hver sá sem fái greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem komi til vegna óvinnufærni að fullu teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili. Samkvæmt a-lið 14. gr. laga nr. 54/2006 sé það skilyrði fyrir því að teljast tryggður samkvæmt lögunum að vera fær til flestra almennra starfa. Það sé því skýrt kveðið á um það í 51. gr. laganna að greiðslur sem eigi að bæta óvinnufærni að fullu séu ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysistrygginga. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiðslur úr sjúkrasjóði B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kæranda hafi verið gert að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar frá umsóknardegi 6. desember [2017] til 3. janúar 2018 í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Sökum þess að kærandi hafi hvorki tilkynnt um óvinnufærni sína né um greiðslu frá sjúkrasjóði hafi greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda verið leiðréttar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem greiðslur atvinnuleysistrygginga í máli kæranda hafi verið skertar afturvirkt hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar sem honum beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem hafi verið ofgreiddar. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2018, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 200.571 kr. að meðtöldu 15% álagi á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2018, var kæranda tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekna frá B og að þær yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Af kæru má ráða að ágreiningur málsins lúti að framangreindri ofgreiðslu. Úrskurðarnefndin tekur fram að í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. maí 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um þriggja mánaða kærufrest. Ljóst er að sá frestur var liðinn þegar kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndarinnar 29. desember 2018 og verður sá þáttur kærunnar því ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.
Í hinni kærðu ákvörðun er farið fram á að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda er gefinn kostur á að semja um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að mál hans verði sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2018, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson