Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2021 Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

50 ár frá heimkomu handritanna

Mikill mannfjöldi safnaðist saman á Miðbakka Reykjavíkurhafnar þann 21. apríl 1971 þegar Vædderen lagðist að bryggju með Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða um borð. - mynd

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að styrkja Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um 8 milljónir króna vegna heimkomuafmælis handritanna. 50 ár eru senn liðin frá því fyrstu handritunum var skilað til Íslands frá Danmörku en þann 21. apríl 1971 lagði herskipið Vædderen að bryggju í Reykjavík með Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók í farteskinu. Mikill mannfjöldi beið á bryggjunni og myndast þjóðhátíðarstemning í landinu við þessi tímamót.

Stofnun Árna Magnússonar hefur undanfarna mánuði minnst þessara tímamóta með verkefninu „Handritin til barnanna“, sem felur í sér nýstárlega kynningu á handritaarfinum, handritunum og efni þeirra í skólum um allt land, á vefnum og í fjölmiðlum.

Til stendur að Árnastofnun haldi í apríl hátíð fyrir ungu kynslóðina á afmælisdeginum og verður Konungsbók Eddukvæða í brennidepli þeirrar dagskrár. Þá verður sett upp ljósmyndasýning, fyrir utan Hörpu, frá handritaheimkomunni og af völdum handritum. Í Ásmundarsal verður sýning sem hverfist um Möðruvallabók. Boðið verður upp á lifandi handritasmiðju, listaverk tengd Íslendingasögunum og sagnaskemmtun. Í Bíó Paradís verða sýndar kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir efni handritanna.

Styrkurinn fer af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta