Hoppa yfir valmynd
14. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 41/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 41/2012

Tímabundinn leigusamningur: Fjárhæð leigu.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 2. ágúst 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 22. ágúst 2012, og athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 10. september 2012, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 14. desember 2012.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 4. janúar 2012, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila að C. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 25. janúar 2012 til 31. janúar 2013. Ágreiningur er um fjárhæð leigu.

Kærunefnd telur að kröfur álitsbeiðanda séu:

I.    Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að krefja álitsbeiðanda um hærri húsaleigu en 145.000 kr. fyrir mánuðina maí, júní og júlí 2012 og gagnaðila beri að fjarlægja innheimtukröfur úr heimabanka.

II.   Álitsbeiðandi óskar að kærunefndin veiti álit á því hvort að krafa hans í málinu geti réttlætt riftun af hans hálfu þar sem tafir á leiðréttingu hafi tekið langan tíma.

Í álitsbeiðni kemur fram gerður hafi verið tímabundinn leigusamningur milli aðila og leiga ákveðin 145.000 kr. á mánuði. Í leigusamningi sé tekið fram að leiga skuli haldast óbreytt út leigutímann. Álitsbeiðandi segir að þegar nokkrir mánuðir hafi verið liðnir af leigutímanum hafi leigan farið að hækka, og sé komin upp í 148.959 kr. í maí, líkt og hún fylgi neysluvísitölu. Álitsbeiðandi hafi haft samband við gagnaðila og beðið hann að leiðrétta leiguna. Gagnaðili á svo að hafa haft samband við bankann. Álitsbeiðandi hafi fengið þær upplýsingar að bankastarfsmaðurinn hafi beðið um staðfestingu frá gagnaðila en ekki fengið hana. Greiðslukrafa sú er birtist í heimabanka álitsbeiðanda sé þess eðlis að hann geti ritað þá fjárhæð sem hann vilji greiða. Álitsbeiðandi hafi nýtt sér það og greiði rétta fjárhæð, þ.e. 145.000 kr., en eftir sitji lág fjárhæð sem álitsbeiðandi hafi beðið gagnaðila um að leiðrétta og fjarlægja.

Í næsta mánuði, þ.e. júní, hafi krafan enn verið óbreytt og álitsbeiðandi fengið greiðslukröfu upp á sömu fjárhæð og hafi verið sú sama og mánuðinn á undan. Álitsbeiðandi hafi fengið innheimtu frá D vegna þeirrar fjárhæðar sem staðið hafi eftir og því hafi hann sent fyrirtækinu skilaboð um að fjárhæð leigunnar sé ekki rétt. D hafi sagst ætla að hafa samband við gagnaðila, en auk þess hafi álitsbeiðandi sent gagnaðila tölvupóst og beðið hann um að fjarlægja innheimtuna.

Greiðslukrafa vegna júlímánaðar hafi enn verið óbreytt. Síðan þá hafi álitsbeiðandi neitað að greiða leiguna þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar frá gagnaðila að álitsbeiðandi skuldi honum enn fyrir maí og júní auk þess sem greiðslukröfurnar hafi verið settar aftur í heimabankann með hærri fjárhæð. Álitsbeiðandi hafi sent gagnaðila tölvupóst vegna þess með kvittunum fyrir greiðslunum á sínum tíma en hafi ekki enn fengið svar.

Álitsbeiðandi tekur fram að samskipti um uppsögn komi málinu ekki við. 

Í greinargerð gagnaðila vísar hann til tölvupóstsamskipta aðila frá 3. júlí 2012 sem hann segir skýra málið. Í þeim samskiptum komi fram að gagnaðili hafi ekki fengið neina uppsögn frá álitsbeiðanda auk þess sem samningurinn sé bindandi til 31. janúar 2013. Gagnaðili sé tilbúinn að leysa álitsbeiðanda undan samningnum svo lengi sem gagnaðili geti fengið annan leigjanda sem hann búist við að gangi fljótlega en tekur fram að samningurinn gildi þangað til.

Í greinargerð gagnaðila kemur einnig fram að í kjölfar samskiptanna hafi gagnaðili fundið nýjan leigjanda sem hafi flutt inn 20. ágúst 2012. Álitsbeiðandi hafi flutt út um miðjan júlí svo ekki sé um langan tíma að ræða. Þó hafi verið verra að það hafi þurft að mála og þrífa íbúðina töluvert. Gagnaðili tekur fram að hann sé enn með bankaábyrgð vegna samningsins upp á 300.000 kr. auk þess sem hann sé tilbúinn til að semja við álitsbeiðanda um uppsögnina. 

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að greinargerð gagnaðila fjalli ekki um atriði sem snerti þetta mál. Greinargerðin fjalli um uppsögn en ekki fjárhæð leigunnar líkt og álitsbeiðandi hafi tekið fram í álitsbeiðni. Álitsbeiðandi hafi þó verið tilbúinn að skoða hvað gagnaðili hafi verið tilbúinn að semja um. Auk þess tekur álitsbeiðandi fram að hann hafi ljósmyndir af íbúðinni þegar hann hafi flutt inn. Álitsbeiðandi segir gagnaðila biðja um meira en það, engir veggir hafi verið málaðir, bara sparslað.

III. Forsendur

Með leigusamningi, dags. 4. janúar 2012, tók álitsbeiðandi á leigu húsnæði í eigu gagnaðila. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 25. janúar 2012 til 31. janúar 2013. Fjárhæð leigunnar var ákveðin 145.000 kr. á mánuði og lagði álitsbeiðandi fram tryggingu í formi bankaábyrgðar að fjárhæð 300.000 kr.

Í leigusamningi aðila er merkt við að leigan skuli vera óbreytt út leigutímann en auk þess er skráð sú útskýring að leigan skuli breytast í samræmi við neysluvísitölu. Í máli þessu er deilt um hvort gagnaðila hafi verið heimilt að krefja álitsbeiðanda um meira en 145.000 kr. leigu fyrir mánuðina maí, júní og júlí 2012. Álitsbeiðandi segir leiguna hafa átt að haldast óbreytta út leigutímann. Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstar milli aðila. Af þeim verður ekki annað ráðið en ágreiningslaust sé að leigan eigi ekki að vera bundin vísitölu neysluverðs. Þá liggur fyrir tölvupóstur gagnaðila til bankastarfsmanns 2. maí 2012 þar sem óskað er eftir að samningurinn verði leiðréttur þar sem leigan eigi ekki að vera bundin vísitölu. Með vísan til þess er það álit kærunefndar að gagnaðila sé óheimilt að krefja álitsbeiðanda um hærri leigugreiðslur en samið var um í leigusamningi aðila, þ.e. 145.000 kr., og ber gagnaðila að fjarlægja úr heimabanka þær kröfur sem hafa verið greiddar.

Álitsbeiðandi óskar að kærunefndin veiti álit á því hvort að krafa hans í málinu geti réttlætt riftun af hans hálfu þar sem tafir á leiðréttingu hafi tekið langan tíma. Samkvæmt 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, geta aðilar leigusamnings sem greinir á við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings leitað álits kærunefndar húsamála. Í 5. gr. reglugerðar um kærunefnd húsaleigumála, nr. 878/2001, kemur fram að gera skuli skýrar kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og skal rökstyðja kröfurnar með eins ítarlegum hætti og unnt er. Nefndin veitir ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur tekur afstöðu til krafna aðila. Kærunefnd telur að kröfugerð álitsbeiðanda í öðrum kröfulið í máli þessu varði ekki raunverulegan ágreining heldur að um sé að ræða spurningar sem kærunefndin er beðin um að svara og meta. Þegar af þeirri ástæðu er seinni kröfulið álitsbeiðanda vísað frá.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé óheimilt að krefja álitsbeiðanda um hærri leigugreiðslur en samið var um í leigusamningi aðila, þ.e. 145.000 kr., og ber gagnaðila að fjarlægja úr heimabanka þær kröfur sem hafa verið greiddar.

Reykjavík, 14. desember 2012

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
Benedikt Bogason

Ásmundur Ásmundsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta