Hoppa yfir valmynd
7. maí 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný arðgreiðslustefna fyrir Landsvirkjun: 10 milljarða króna arðgreiðsla á árinu 2020

Ný arðgreiðslustefna fyrir Landsvirkjun: 10 milljarða króna arðgreiðsla á árinu 2020 - myndMynd/Landsvirkjun

Ný arðgreiðslustefna Landsvirkjunar var samþykkt á fundi stjórnar fyrirtækisins í lok apríl sl. Á grundvelli hennar gerði stjórnin tillögu þann 20. apríl um að fyrirtækið greiddi 10 milljarða króna til ríkisins, sem er eini eigandi Landsvirkjunar og féllst aðalfundur á þessa ráðstöfun undir lok mánaðarins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem fer með eigendahlutverk ríkisins gagnvart fyrirtækjum í eigu þess, tók hið nýja arðgreiðslufyrirkomulag til skoðunar í samráði við stjórn og forsvarsmenn Landsvirkjunar. Markmiðið með arðgreiðslustefnunni er að hámarka arðstekjur ríkissjóðs af þeim fjármunum sem bundnir eru í Landsvirkjun og afraksturinn af orkuauðlindunum. Einnig þarf að gæta að því að fyrirtækið standi til frambúðar á traustum fjárhagslegum stoðum og að það geti viðhaldið áþekkri lánshæfiseinkunn og sambærileg fyrirtæki í öðrum löndum. Í arðgreiðslustefnunni er litið sérstaklega til aðstæðna í rekstri orkuvinnslufyrirtækja og til nýtingar á orkuauðlindum á forræði ríkisins. Þá þykir mikilvægt fyrir stjórnvöld jafnt sem fyrirtækið að arðgreiðslustefnan byggi á skýrum og gagnsæjum viðmiðum, verði einföld í framkvæmd og feli í sér sem mestan fyrirsjáanleika um greiðslur.

Í stefnunni felst að arðgreiðslan verður jöfn handbæru fé frá rekstri að frádregnu hlutfalli af fjárfestingum, margfaldað með útgreiðsluhlutfalli og verða hlutföllin háð skuldsetningu félagsins á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að stjórn félagsins rökstyðji fyrir eiganda frávik frá reiknireglunni ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til þess að arðgreiðslan verði hærri eða lægri.

Forsendur fyrir auknum arðgreiðslum hafa skapast

Eftir að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu árið 2007 hefur fjárbinding ríkisins í fyrirtækinu verið mikil. Heildareignir þess námu um 530 ma.kr. og eigið fé nærri 270 ma.kr. í árslok 2019. Hins vegar hafa arðgreiðslur frá fyrirtækinu alla tíð verið fremur lágar, raunar engar á árunum 2009-2011, en um 1,5 – 2 ma.kr. á ári síðan þá. Forsendur fyrir auknum arðgreiðslum nú hafa skapast þar sem eiginfjárstaða Landsvirkjunar hefur styrkst mikið á undanförnum árum, skuldastaða hefur lækkað niður í hóflegt horf, miklar afskriftir af mannvirkjum eru að baki og ekki horfur á mjög mikilli fjárfestingarþörf á komandi árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta