Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

938/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 938/2020 í máli ÚNU 20030008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. mars 2020, kærði A afgreiðslu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands (KMÍ) á beiðni hans.

Þann 14. janúar 2020 óskaði kærandi í fyrsta lagi eftir öllum upplýsingum og gögnum varðandi fullyrðingar starfsmanns KMÍ um ágreining á meðal aðstandenda kvikmyndarinnar Ljósmáls, sem fram komu í tölvupósti til kæranda, dags. 8. janúar 2020. Í öðru lagi óskaði kærandi eftir öllum upplýsingum og gögnum varðandi greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins og greiðslu framleiðslustyrks til Ljósmáls ehf. sem framkvæmd var þann 10. desember 2019. Beiðnin náði meðal annars til tölvupóstsamskipta, formlegra erinda, minnisblaða og fundargerða.

Í svari KMÍ til kæranda, dags. 18. febrúar 2020, kemur fram að beiðnin sé afgreidd á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fyrirliggjandi gögn geymi að einhverju leyti upplýsingar sem varði kæranda sjálfan. Þá telji KMÍ að þær takmarkanir á upplýsingarétti aðila sem getið er um í 2.-4. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eigi ekki við um afgreiðslu erindisins. Varðandi fyrri hluta beiðni kæranda, þ.e. fullyrðingar starfsmanns í tölvupósti til kæranda, dags. 8. janúar 2020, segir að einhver misskilningur virðist vera fyrir hendi um til hvers starfsmaður KMÍ vísi í tilvitnuðum texta. Í tölvupóstinum sé einfaldlega verið að vitna til fyrri samskipta stofnunarinnar við kæranda þar sem ítrekað hafi komið fram að ágreiningur hafi verið milli aðilanna sem standi að Ljósmáli ehf., m.a. um framkvæmd samkomulags sem gert hafi verið um lok myndarinnar Ljósmáls. Einu fyrirliggjandi gögnin í málaskrá KMÍ um ofangreint séu tölvupóstsamskipti sem kærandi hafi sjálfur verið aðili að. Þótt KMÍ reikni með því að kærandi hafi aðgang að tölvupóstsamskiptunum hafi helstu samskipti stofnunarinnar varðandi ofangreint verið tekin saman og fylgi sem viðhengi með svarinu.

Varðandi seinni hluta beiðni kæranda sem snýr að greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins vegna kvikmyndarinnar Ljósmáls afhenti KMÍ kæranda eftirfarandi gögn: 1) Afrit tölvupósta um skil gagna til KMÍ frá umsækjanda, 2) samning á milli Vitafélags Íslands og kæranda um verklok heimildarmyndarinnar Ljósmáls, 3) samkomulag á milli KMÍ og Ljósmáls ehf. um yfirfærslu réttinda og skuldbindinga úthlutunarsamnings um veittan framleiðslustyrk til heimildarmyndarinnar Ljósmáls auk umboðs kæranda til undirritunar fyrir hans hönd og 4) afrit af greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins vegna Ljósmáls ehf. Í svari KMÍ kom jafnframt fram að önnur gögn en þessi væri ekki að finna í málaskrá stofnunarinnar.

Í kæru segir að kærandi hafi móttekið afrit tölvupósta og annarra gagna frá KMÍ en hann telji sér hafa verið ranglega synjað um aðgang að gögnum sem varði ríka hagsmuni sína. Varðandi fyrri hluta beiðninnar telji kærandi að afrit samskipta Sigurbjargar Árnadóttur (forsvarsmanns Ljósmáls ehf.) við KMÍ vanti í gögnin. Í tölvupósti frá KMÍ, dags. 6. desember 2019, sé óskað eftir upplýsingum frá málsaðilum, þ.e. kæranda og Sigurbjörgu Árnadóttur, og vænta megi að slíkt hafi borist frá henni. Í tölvupósti um skil gagna til KMÍ frá umsækjanda, sem afhent voru kæranda í kjölfar beiðninnar, vanti tiltekinn tölvupóst frá starfsmanni KMÍ sem þó hafi ekki verið óskað eftir. Engar líkur séu á að Sigurbjörg Árnadóttir hafi ekki átt í samskiptum við KMÍ vegna þeirra atvika sem beiðni kæranda snúi að og framvinda þeirra hefði ekki getað átt sér stað nema með aðkomu hennar.

Varðandi seinni hluta beiðni kæranda segir hann að gögn sem fylgi svari KMÍ varpi ekki ljósi á hvers vegna greiðsla Fjársýslu ríkisins var framkvæmd þann 10. desember 2019, eftir að KMÍ hafði óskað eftir því að greiðslunni yrði frestað að beiðni kæranda. Aðeins hafi verið afhent gögn vegna upphaflegrar greiðslubeiðni dags. 6. desember 2019. Engir tölvupóstar, minnisblöð, fundargerðir eða önnur sambærileg gögn hafi verið afhent varðandi ákvörðun Fjársýslu ríkisins um að framfylgja greiðslubeiðni KMÍ þann 10. desember 2019. Kærandi telji því víst að upplýsingum um þetta hafi ranglega verið haldið frá sér. Þá liggi afrit samkomulags milli KMÍ og Ljósmáls, dags. 24. apríl, ekki fyrir nema að hluta. Kærandi hafi ekki fengið samkomulagið í heild sinni. Einnig sé þar vísað í samning, dags. 12. apríl 2019, en ekkert samkomulag liggi fyrir með þeirri dagsetningu.

Í kærunni er að lokum ítrekað að kærandi krefjist afrita allra tölvupósta Sigurbjargar Árnadóttur sem málið varði, afrits af samningi á milli KMÍ og Ljósmáls ehf. um yfirfærslu réttinda og skuldbindinga úthlutunarsamnings um veittan framleiðslustyrk til heimildarmyndarinnar Ljósmáls, í heild sinni, og öll gögn er varði greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins vegna Ljósmáls sem framkvæmd var 10. desember 2019, svo sem tölvupósta frá KMÍ og öll gögn sem varpað geti ljósi á eða upplýst um ákvörðunartökuna og rökstuðning KMÍ fyrir greiðslunni.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt KMÍ með bréfi, dags. 5. mars 2020, og henni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn KMÍ, dags. 20. mars 2020, segir að KMÍ hafi afgreitt upplýsingabeiðni kæranda á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga og honum hafi verið veittur aðgangur að fyrirliggjandi gögnum sem geymi að einhverju leyti upplýsingar sem varði hann sjálfan. KMÍ hafni þeirri staðhæfingu kæranda að stofnunin hafi ranglega synjað kæranda um aðgang að gögnum er varði ríka hagsmuni hans. Tölvupóstarnir og skjölin sem KMÍ hafi veitt aðgang að hafi verið tæmandi.

Að mati KMÍ vanti nokkuð upp á, bæði í upplýsingabeiðni kæranda og kærunni að það sé með skýrum og afmörkuðum hætti vísað til hvaða gagna óskað sé eftir aðgangi að, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. KMÍ muni þó eftir fremsta megni svara kærunni að því marki sem hún snúi að beiðni um aðgang að gögnum. KMÍ telji engar þær takmarkanir á upplýsingarétti aðila sem getið sé um í 2.-4. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eiga við um afgreiðslu kærunnar.

Í fyrsta lagi óski kærandi eftir öllum tölvupóstum frá Sigurbjörgu Árnadóttur sem málið varði. Þeir hafi ekki verið afhentir kæranda þann 18. febrúar 2020 þar sem aðgangur að gögnum hafi verið veittur á grundvelli sjónarmiðs um rétt aðila til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum er varði hann sjálfan. Samskipti KMÍ við aðra aðila hafi því verið undanskilin enda hafi þau ekki verið talin varða kæranda með beinum hætti.

KMÍ telji þó rétt að veita kæranda aðgang að samskiptum stofnunarinnar við Sigurbjörgu. Afrit af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum er málið varði voru látin fylgja umsögn KMÍ og þannig afhent kæranda samhliða umsögninni þann 20. mars 2020. Tekið er fram að tölvupóstarnir séu frá því tímabili sem kæran taki til eða frá hausti 2019 til dagsetningar gagnabeiðni kæranda, 14. janúar 2020. Í umsögn KMÍ er vísað í kæru þar sem kærandi kveður vanta tiltekin tölvupóstsamskipti Sigurbjargar við KMÍ. Kærandi vísi sérstaklega í tölvupóst frá KMÍ, dags. 6. desember 2019, þar sem óskað er eftir upplýsingum frá málsaðilum, þ.e. kæranda sjálfum og Sigurbjörgu Árnadóttur, og kærandi gerir ráð fyrir að fyrir liggi svör frá Sigurbjörgu vegna þessa. KMÍ segir hins vegar að þessi tilteknu samskipti séu ekki til, óskað hafi verið eftir greinargerðum frá kæranda og Ljósmáli ehf. Í kjölfarið hafi ætlunin verið að funda með báðum aðilum og freista þess að fá sjónarmið þeirra og afstöðu sem nýta mætti til þess að leysa úr ágreiningi. Ekkert hafi þó orðið úr fundinum og hvorugur aðili hafi skilað greinargerð til KMÍ.

Í öðru lagi sé í kæru óskað eftir afriti samkomulags milli KMÍ og Ljósmáls ehf. í heild sinni. Í fyrra svari KMÍ hafi vantað hluta umbeðins samnings, ástæða þess sé að skönnun skjalsins hafi misfarist. Samkomulagið sé því afhent í heild sinni samhliða umsögninni.

Í þriðja lagi óski kærandi eftir öllum gögnum varðandi greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins. KMÍ segir að greiðslubeiðnin hafi verið send þann 10. desember 2019 en hafi síðar verið afturkölluð. Um þetta vísist til tölvupósta í fyrra svari KMÍ við erindi kæranda. Í tölvupóstsamskiptunum komi fram að Fjársýsla ríkisins hyggist ógilda greiðslubeiðnina og endursenda hana svo til KMÍ, þ.e. að KMÍ fái skjalið óafgreitt til baka þar sem því verði eytt. Þegar KMÍ hafi ákveðið að nægar upplýsingar lægju fyrir til að samþykkja greiðsluna hafi verið haft samband við Fjársýslu ríkisins símleiðis og spurst fyrir um endursendinguna, þar sem skjalið/greiðslubeiðnin hafi ekki borist til baka. KMÍ hafi ekki viljað senda aðra greiðslubeiðni ef hin væri enn til afgreiðslu hjá Fjársýslu ríkisins vegna hættu á tvígreiðslu. Fjársýslan hafi talið greiðslubeiðnina fullgilda og greitt umrædda framvindugreiðslu styrksins samkvæmt úthlutunarsamningi í samræmi við hana. Þess vegna sé í raun ein greiðslubeiðni til vegna þessarar útborgunar. Öll gögn vegna þessa liggi fyrir í svari KMÍ við beiðni kæranda og sé engu við það að bæta.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á beiðni kæranda um upplýsingar varðandi staðhæfingar starfsmanns stofnunarinnar um ágreining aðstandenda kvikmyndarinnar Ljósmáls, sem fram komu í tölvupósti til kæranda, dags. 8. janúar 2020, og upplýsingar varðandi greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins vegna greiðslu framleiðslustyrks til Ljósmáls ehf. sem framkvæmd var þann 10. desember 2019.

KMÍ afhenti kæranda hluta umbeðinna gagna þann 18. febrúar 2020 en í kæru kemur fram að tiltekin gögn vanti, þ.e. tölvupósta Sigurbjargar Árnadóttur sem málið varði, einhverjar blaðsíður vanti í afrit af samningi á milli KMÍ og Ljósmáls ehf. um yfirfærslu réttinda og skuldbindinga úthlutunarsamnings um veittan framleiðslustyrk, og gögn er varði beiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins um greiðslu sem framkvæmd var þann 10. desember 2019.

Fyrirliggjandi tölvupóstsamskipti á milli KMÍ og Sigurbjargar Árnadóttur og þær blaðsíður sem vantaði í samninginn voru afhentar kæranda við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni svo ekki verður litið svo á að kæranda hafi verið synjað um þau gögn. Hvað varðar greiðslubeiðni KMÍ til Fjársýslu ríkisins vegna greiðslu sem framkvæmd var þann 10. desember 2019 kemur fram í umsögn KMÍ að það skýrist af því að beiðnin hafi farið fram símleiðis og greiðslan hafi verið framkvæmd á grundvelli eldri greiðslubeiðni, dags. 6. desember 2019. Þannig séu engin gögn fyrirliggjandi hjá stofnuninni sem hægt sé að afhenda kæranda varðandi framkvæmd greiðslunnar.

Í ljósi atvika málsins og skýringa KMÍ hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að ekki séu fyrirliggjandi önnur gögn sem heyri undir beiðni kæranda en þegar hafa verið afhent, annars vegar í svari KMÍ við gagnabeiðni kæranda þann 18. febrúar 2020 og hins vegar samhliða umsögn stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar vegna kæru þessarar, dags. 20. mars 2020.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 4. mars 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta