Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 114/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 114/2017

Mánudaginn 21. ágúst 2017

A og B

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. mars 2017, kærir C hdl., f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. mars 2017, um synjun á umsóknum þeirra um hámarksgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsóknum til Fæðingarorlofssjóð, dags. 13. febrúar 2017, sóttu kærendur um greiðslu/styrk frá íslenska ríkinu vegna fæðingar barns, nánar tiltekið hámarksgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Með bréfum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. mars 2017, var umsóknum kærenda, eins og þær voru lagðar fram, synjað. Kærendur fóru fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti 6. mars 2017 og var hann veittur með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. mars 2017. Kærendur fóru fram á frekari rökstuðning með tölvupósti 7. mars 2017 og var hann veittur með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. mars 2017.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með kæru dagsettri 14. mars 2017. Með bréfi, dags. 11. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 27. apríl 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. maí 2017, var greinargerðin send kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi, dags. 16. maí 2017, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá Fæðingarorlofssjóði með tölvupósti 24. maí 2017 og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti 31. maí 2017 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2017. Frekari athugasemdir bárust frá Fæðingarorlofssjóði með tölvupósti 7. júní 2017 og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júlí 2017, var kærendum tilkynnt um töf á afgreiðslu málsins, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og taki nýja ákvörðun þar sem staðfest sé að íslenska ríkinu beri að greiða þeim hvoru fyrir sig 500.000 kr. á mánuði í tilefni af fæðingu barns þeirra. Til stuðnings kröfu þeirra vísa kærendur til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Kærendur vísa til þess að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og ekki megi mismuna út frá efnahag. Mælikvarði 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. reglugerð nr. 850/2016, um hámarksgreiðslu til þeirra sem hafi 625.000 kr. í mánaðarlaun eða meira, sé efnahagslegur og því í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig sé ólögmætt að nota laun sem mælikvarða en eina tæka túlkunin á lögum nr. 95/2000 og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er sú að allir nýbakaðir foreldrar fái greidda sömu fjárhæð í tilefni af fæðingu barns. Kærendur gera athugasemd við að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki rökstutt hina kærðu ákvörðun í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þannig ekki rökstutt hvernig sjóðurinn teldi það löglegt að miða greiðslur til nýbakaðra foreldra við efnahag þeirra.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof hafi löggjafinn kveðið á um fjárhagslega aðstoð til foreldra að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Það sé viðurkennt að löggjafanum sé heimilt að kveða á um mismunandi skipulag greiðslukerfa eigi slíkt skipulag við málefnaleg rök að styðjast og sé almennt. Það hafi löggjafinn gert með lögum nr. 95/2000 sem kveði á um réttindi foreldra á vinnumarkaði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 13. gr. laganna, réttindi foreldra utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks í 18. gr. þeirra og réttindi foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks í 19. gr. laganna. Þá séu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á vinnumarkaði fjármagnaðar með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000 á meðan fæðingarstyrkir séu greiddir beint úr ríkissjóði samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé fjallað um útreikninga á greiðslum til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Í 5. mgr. sé fjallað um útreikninga til sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 3. mgr. 7. gr. og í 6. mgr. sé fjallað um útreikninga til foreldra sem séu bæði starfsmenn og sjálfstætt starfandi. Öll þau ákvæði séu almenn þar sem meðal annars sé kveðið á um að greiðslur skuli vera 80% af meðaltali heildarlauna og/eða reiknaðs endurgjalds á tilteknum tímabilum. Þrátt fyrir þá meginreglu hafi löggjafinn ákveðið að setja þak á fjárhæð greiðslna, sbr. 3. mgr., auk þess að kveða á um lágmarksgreiðslu, sbr. 7. mgr. Þannig hafi 3. mgr. verið sett til takmörkunar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og 7. mgr. til að tryggja tekjulægri foreldrum lágmarksfjárhæð úr Fæðingarorlofssjóði. Þá séu fæðingarstyrkir samkvæmt 18. og 19. gr. laganna fastákveðnar fjárhæðir. Að mati Fæðingarorlofssjóðs verði ekki annað séð en að mismunandi skipulag greiðslukerfa, sem löggjafinn hafi kveðið á um í lögum nr. 95/2000, eigi bæði við málefnaleg rök að styðjast og sé almennt. Lögin séu túlkuð til samræmis við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og leyst sé úr sambærilegum málum á sambærilegan hátt og ósambærilegum málum á ósambærilegan hátt, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að það leiði ekki sjálfkrafa af 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar að greiða beri öllum nýbökuðum foreldrum sömu fjárhæð í tilefni af fæðingu barns. Þá hafi kærendur réttilega verið afgreidd með fæðingarstyrk sem foreldrar í fullu námi, sbr. greiðsluáætlun til þeirra, dags. 27. mars 2017.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsóknum kærenda um hámarksgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Lög nr. 95/2000 taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi, sbr. 1. gr. laganna, en einnig taka þau til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi þó aldrei nema hærri fjárhæð en 370.000 kr. en sú fjárhæð komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, sbr. 8. mgr. 13. gr. laganna og sé nú 500.000 kr., sbr. reglugerð nr. 850/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af og miða skuli við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 segir að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Sá réttur sé ekki framseljanlegur. Auk þess eigi foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri geti fengið í heild eða foreldrar skipt með sér. Í 3. mgr. 18. gr. er kveðið á um fjárhæð fæðingarstyrks en sú fjárhæð komi einnig til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, sbr. 5. mgr. 18. gr. laganna og sé nú 118.335 kr., sbr. reglugerð nr. 850/2016.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Sá réttur sé ekki framseljanlegur. Auk þess eigi foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri geti tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Í 3. mgr. 19. gr. er kveðið á um fjárhæð fæðingarstyrks en sú fjárhæð komi einnig til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, sbr. 5. mgr. 19. gr. laganna og sé nú 164.003 kr., sbr. reglugerð nr. 850/2016.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið að framan er ljóst að í lögum nr. 95/2000 er gerður greinarmunur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á vinnumarkaði annars vegar og foreldra utan vinnumarkaðar og í námi hins vegar. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn þess efnis að þau hafi áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 13. gr. laga nr. 95/2000 sem foreldrar á vinnumarkaði. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur uppfylltu hins vegar skilyrði 19. gr. laganna um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi, sbr. greiðsluáætlanir til þeirra, dags. 27. mars 2017. Að því virtu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsóknum þeirra um hámarksgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 því staðfest.

Kærendur hafa vísað til þess að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki rökstutt hina kærðu ákvörðun í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati úrskurðarnefndarinnar er rökstuðningur sjóðsins fullnægjandi og verður því ekki fallist á þetta sjónarmið kærenda.

Kærendur byggja á því að mælikvarði 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. reglugerð nr. 850/2016, um hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sé í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Að mati þeirra sé ólögmætt að nota laun sem mælikvarða fyrir greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og því eigi allir nýbakaðir foreldrar að fá greidda sömu fjárhæð í tilefni af fæðingu barns, óháð því hvort þeir séu á vinnumarkaði, utan vinnumarkaðar eða í námi. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur fram að samkvæmt stjórnskipunarvenju hafa dómstólar úrskurðar- og endurskoðunarvald um stjórnskipulegt gildi laga. Úrskurðarnefnd velferðarmála er stjórnvald og hefur ekki hliðstætt hlutverk, hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli. Dómstólar geta því einir skorið úr um hvort almenn lög brjóti í bága við stjórnarskrá. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að hún sé ekki bær til að fjalla um málsástæður sem byggja á þessum sjónarmiðum og þykir því ekki tilefni til að fjalla frekar um þær.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. mars 2017, um synjun á umsóknum A og B um hámarksgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta