Hoppa yfir valmynd
9. apríl 1997 Forsætisráðuneytið

11/1997 - Úrskurður frá 9. apríl 1997 í málinu nr. A-11/1997

Hinn 9. apríl 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-11/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 2. apríl 1997, kærði [...] hdl., f.h. [...], synjun Byggðastofnunar, dagsetta 5. mars 1997, "um aðgang að gögnum og upplýsingum varðandi afreiðslu Byggðastofnunar á lánsumsókn [A] hf. á [...] og/eða [B] hf. [...] og/eða [C] hf., um lán samkvæmt lögum nr. 96/1994 um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla." Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veittur "aðgangur að gögnum er varða afgreiðslu á lánsumsókn vegna sameiningar ofangreindra fyrirtækja", en til vara "aðgangur að þeim gögnum er ekki varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila, eða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, hvort sem um er að ræða dagbókarfærslur, lista yfir málsgögn, önnur gögn eða upplýsingar."

Með bréfi, dagsettu 3. apríl sl., var kæran send Byggðastofnun og henni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12 á hádegi hinn 7. apríl sl. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál þau gögn, sem kæran lýtur að, innan þessa frests.

Umsögn Byggðastofnunar, dagsett 3. apríl sl., barst nefndinni hinn 4.apríl sl., ásamt ljósritum af eftirgreindum málsskjölum, sem eru í vörslum stofnunarinnar, alls 31 talsins:

1. Umsókn [B] hf., [...], og [C] hf., [...], um víkjandi lán frá Byggðastofnun vegna sameiningar fyrirtækja á Vestfjörðum, dagsett 9. september 1994.
2. Ódagsettar áætlanir [B] hf. um rekstur í [...].
3. Samþykkt kauptilboð [B] hf., f.h. væntanlegs hlutafélags í [...], í alla fastafjármuni [C] hf., dagsett 28. febrúar 1995.
4. Kauptilboð [B] hf. um öll hlutabréf [D] í [A] hf., dagsett 9. mars 1995.
5. Erindi [B] hf. til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, dagsett 15. mars 1995, um skilyrði í kauptilboði, sbr. 4. tölul.
6. Minnispunktar til veðkröfuhafa, dagsettir í mars 1995, um endurskipulagningu og fyrirhugaðan rekstur [B] hf. og [A] hf. í framtíðinni.
7. Fundargerð 19. fundar starfshóps um stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum, haldinn 21. mars 1995.
8. Erindi starfshóps um stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum til Byggðastofnunar, dagsett 27. mars 1995.
9. Ódagsett yfirlit yfir varanlegar aflaheimildir [B] og [A], sent til Byggðastofnunar með símbréfi 30. mars 1995.
10. Ákvörðun atvinnutryggingardeildar Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, dagsett 4. apríl 1995, um beiðni [A] hf./[B] hf. um skuldbreytingar.
11. Erindi fjármálaráðuneytis til [B] hf., dagsett 6. apríl 1995, um skuldbreytingu.
12. Útdráttur úr fundargerð 162. fundar stjórnar Byggðastofnunar, haldinn 25. apríl 1995.
13. Yfirlit Byggðastofnunar yfir veðstöðu [E], dagsett 28. apríl 1995.
14. Yfirlit Byggðastofnunar yfir veðstöðu [F], dagsett 28. apríl 1995.
15. Erindi Endurskoðunarstofu Sig. Stefánssonar hf. til Byggðastofnunar, dagsett 3. maí 1995, um húftryggingamat og kvóta skipsins [G].
16. Erindi Endurskoðunarstofu Sig. Stefánssonar hf. til Byggðastofnunar, dagsett 3. maí 1995, um veðtöflu fyrir [H] (áður [G]).
17. Drög að samningi milli [B] hf. og [I] um breytingar á samþykktu kauptilboði [B] í öll hlutabréf [I] í [A] hf.
18. Fylgiskjal C með samningsdrögum, sbr. 17. tölul., dagsett 12. maí 1995.
19. Ódagsett fylgiskjal B með samningsdrögum, sbr. 17. tölul.
20. Sýnishorn af kauptilboði [B] hf. til hluthafa í [A] hf., dagsett 15. júní 1995, í hlutabréf þeirra.
21. Samþykkt áskrift [B] hf. að hlutafé vegna aukningar hlutafjár í [A] hf. samkvæmt ákvörðun hluthafafundar 14. júlí 1995, dagsett 28. júlí 1995.
22. Ódagsett erindi [A] hf. til Byggðastofnunar um skilyrði starfshóps um stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum fyrir víkjandi láni til [B] hf.
23. Kaupsamningur [B] hf. og [A] hf. um ms. [H], dagsettur 29. júlí 1995.
24. Ódagsett yfirlit um aðila sem óska eftir innlausn hlutafjár í [A] hf.
25. Kaupsamningur [C] hf. og Útgerðarfélagsins [A] hf. um fasteignina [J] ásamt lóðarréttindum, dagsettur 26. júní 1995.
26. Greiðslukvittun [A] hf. til [B] hf. fyrir hlutafjáraukningu, dagsett 3. ágúst 1995.
27. Erindi Byggðastofnunar til starfshóps um stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum, dagsett 4. ágúst 1995, um skilyrði fyrir lánveitingu af Vestfjarðafé til [A] hf.
28. Minnisblað svæðisskrifstofu Byggðastofnunar á Ísafirði, dagsett 31. ágúst 1995, um afgreiðslu víkjandi láns til [A] hf.
29. Erindi starfshóps um stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum til Byggðastofnunar, dagsett 20. september 1995, um málefni [A] hf.
30. Erindi [K] ehf. til Byggðastofnunar, dagsett 3. október 1995, um innlausn á hlutabréfum þess í [A] hf.
31. Yfirlýsing forstjóra Byggðastofnunar, dagsett 9. nóvember 1995, um samþykkt stjórnar Byggðastofnunar frá 25. apríl 1995 um að veita Útgerðarfélaginu [A] hf. víkjandi lán.

Málsatvik
Með 1. gr. laga nr. 96/1994, um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla, var ríkissjóði heimilað að veita Byggðastofnun sérstakt framlag, að fjárhæð allt að 300 milljónir króna, til að standa straum af víkjandi lánum til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem vildu sameinast. Skv. 3. gr. laganna var það forsenda fyrir lánveitingu samkvæmt lögunum að sérstakur starfshópur, sem forsætisráðherra skipaði, hefði gert tillögu um afgreiðslu á lánsumsóknum viðkomandi fyrirtækja til stjórnar Byggðastofnunar. Starfshópurinn setti sér verklagsreglur, sem fyrir liggja í máli þessu, og auglýsti samkvæmt þeim eftir umsóknum um lán á grundvelli laganna.

Í símbréfi, dagsettu 27. febrúar 1997, fór kærandi fram á það við Byggðastofnun, svo og við ritara framangreinds starfshóps, að fá aðgang að upplýsingum um afgreiðslu umsókna frá [A] hf., [B] hf. og/eða [C] hf. um lán á grundvelli laga nr. 96/1994, þ. á m. aðgang að dagbókarfærslum og lista yfir málsgögn. Í beiðninni fór kærandi fram á aðgang að frumritum málsgagna og jafnframt að hún fengi í hendur ljósrit þeirra gagna er hún óskaði eftir. Ennfremur segir í símbréfinu að beiðnin "beinist að svo stöddu fyrst og fremst að því að afla upplýsinga um hvaða gögn liggi fyrir hjá þeim aðilum er um lánsumsóknina fjölluðu, er geti gefið vísbendingar um hvaða mat á fyrirtækinu [B] hf. var lagt til grundvallar á umræddum tíma og hvernig fyrirhugað var að sameiningin leiddi til hagræðingar sem stefnt var að með lögunum."

Byggðastofnun svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 5. mars 1997, þar sem fram kemur að mál þetta snúi að víkjandi láni til [A] hf. 1995, nú [B] hf., samkvæmt lögum nr. 96/1994. Síðan segir í svarbréfinu: "Umfjöllun um lánveitingar og tillögur um þær voru í höndum starfshóps skv. 3. gr. laganna. Starfshópur þessi mun hafa lokið störfum." Þá er í bréfinu vísað til þagnarskylduákvæða í 22. gr. laga nr. 64/1985 um Byggðastofnun og 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, sem jafnframt gildi um stofnunina, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, svo og til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Á grundvelli þessara ákvæða synjaði stofnunin um að "láta af hendi umbeðnar upplýsingar eða gögn, nema fyrir liggi sérstakt samþykki [B] hf., [...]."

Í umsögn Byggðastofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 3. apríl sl., segir að öflun gagna og úrvinnsla þeirra hafi aðallega verið á hendi sérstaks starfshóps skv. 3. gr. laga nr. 96/1994 og sé ekki vitað til þess að haldin hafi verið málaskrá eða gögn skráð sérstaklega.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni og hið kærða stjórnvald ítrekað fyrri afstöðu sína. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins og tekið afstöðu til þeirra í niðurstöðu sinni.

Niðurstaða

1.
Samkvæmt lögum nr. 96/1994 veitti Byggðastofnun [A] hf., nú [B] hf., víkjandi lán, en mál þetta snýst um aðgang að gögnum vegna þeirrar lánveitingar. Beiðni kæranda er því réttilega beint að stofnuninni skv. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

Upplýst er að hvorki eru fyrir hendi dagbókarfærslur, sem lúta að gögnum varðandi umrædda lánveitingu, né listi yfir málsgögn í skilningi 3. tölul. 3. gr. upplýsingalaga. Hins vegar hefur Byggðastofnun í vörslum sínum skjöl, sem talin eru upp hér að framan og öll varða lánveitinguna með einum eða öðrum hætti. Verður nú leyst úr því hvort skylt sé að verða við beiðni kæranda um aðgang að þeim öllum eða hluta af þeim.


2.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5.gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar, að óheimilt sé að veita almenningi "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu" fyrirtækja. Þá segir þar ennfremur að oft komi sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum.

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Ákvæði 22. gr. laga nr. 64/1985, sem er samhljóða mörgum öðrum ákvæðum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna, t.d. 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hlýtur að teljast almennt þagnarskylduákvæði í skilningi hins tilvitnaða ákvæðis í upplýsingalögum. Öðru máli gegnir hins vegar um 43. gr. laga nr. 113/1996, sem ótvírætt gildir um Byggðastofnun, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1993.

Í 43. gr. laga nr. 113/1996 segir orðrétt: "Bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar og sparisjóðsstjórar, endurskoðendur og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eða sparisjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi." Þótt ákvæði þetta geti, með vísun til 4. gr. laga nr. 123/1993, staðið í vegi fyrir almennum aðgangi að upplýsingum um hagi viðskiptamanna annarra lánastofnana en banka og sparisjóða og önnur atriði, sem fyrirsvarsmenn og trúnaðarmenn slíkra stofnana fá vitneskju um í starfi sínu, verður að skýra það með hliðsjón af reglum upplýsingalaga þegar opinberar lánastofnanir eiga í hlut.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra skjala sem að framan er upp talin. Fellst nefndin á það sjónarmið Byggðastofnunar að í flestum þeirra sé að finna upplýsingar um svo mikilvæga fjárhagsmuni einkafyrirtækja, að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Er þá og tekið tillit til þess að um er að ræða lánveitingu þótt lánið sé þess eðlis að það víki fyrir öllum öðrum kröfum á hendur fyrirtækinu. Umræddar upplýsingar er að finna svo víða í skjölunum að ekki er fært að veita aðgang að hluta þeirra skv. 7. gr. upplýsingalaga.

Í þremur skjölum, sem að framan eru greind, er á hinn bóginn ekki að finna neinar þær upplýsingar um fjárhagsmuni eða annars konar viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra einkaaðila, sem nefndin telur að sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga, að teknu tilliti til 43. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1993. Ber því, með vísun til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, að veita kæranda aðgang að þeim skjölum, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun Byggðastofnunar er staðfest, að öðru leyti en því að stofnuninni ber að veita kæranda, [...], aðgang að eftirtöldum skjölum í heild sinni:
Skjal, auðkennt nr. 1: Umsókn [B] hf., [...], og [C] hf., [...], um víkjandi lán frá Byggðastofnun vegna sameiningar fyrirtækja á Vestfjörðum, dagsett 9. september 1994.
Skjal, auðkennt nr. 5: Erindi [B] hf. til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, dagsett 15. mars 1995, um skilyrði í kauptilboði, sbr. 4. tölul.
Skjal, auðkennt nr. 9: Ódagsett yfirlit yfir varanlegar aflaheimildir [B] og [A], sent til Byggðastofnunar með símbréfi 30. mars 1995.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta