Hoppa yfir valmynd
12. júní 1997 Forsætisráðuneytið

14/1997 - Úrskurður frá 12. júní 1997 í málinu nr. A-14/1997

Hinn 12. júní 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-14/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dags. 30. maí sl., kærði [...] synjun Vestmannaeyjabæjar frá 6. s.m. um að veita honum aðgang að samningi við Hvítasunnusöfnuðinn um rekstur leikskóla í bænum.

Með bréfi, dagsettu 3. júní sl., var kæran send Vestmannaeyjabæ og honum gefinn frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12.00 á hádegi mánudaginn 9. júní sl.

Jafnframt var þess óskað að bærinn léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál það skjal, sem kæran lýtur að, innan sama frests.

Umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 4. júní sl., barst nefndinni hinn 6. s.m. ásamt umbeðnu skjali.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók varamaður Steinunn Guðbjartsdóttir sæti í nefndinni við afgreiðslu málsins.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að hinn 14. júní 1995 gerðu Vestmannaeyjabær og Hvítasunnusöfnuðurinn með sér samning um rekstur leikskóla í bænum. Samkvæmt erindi kæranda hefur hann frá þeim tíma beðið um að fá samninginn í hendur en jafnan verið svarað neitandi.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 4. júní sl., segir að synjun bæjarins byggist á 5. og 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og hugsanlega samkeppnislögum nr. 8/1993.

Að því er 5. gr. varðar er vísað til þess að samningurinn varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Hvítasunnusafnaðarins og því hafi bærinn ekki viljað veita að honum aðgang án samþykkis safnaðarins.

Að því er 6. gr. varðar er vísað til 3. tölul. og aðgangur að samningnum talinn rýra samkeppnisstöðu Vestmannaeyjabæjar enda njóti hann ekki einkaréttar til reksturs leikskóla, og gera samningsstöðu hans lakari m.t.t. annarra samninga sem bærinn kunni að vilja gera í sama skyni.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á síðari málslið greinarinnar, að óheimilt sé að veita almenningi "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu" fyrirtækja.

Í samningi Hvítasunnusafnaðarins og Vestmannaeyjabæjar frá 14. júní 1995 koma fram upplýsingar um styrki frá Vestmannaeyjabæ til reksturs leikskóla Hvítasunnusafnaðarins bæði í formi greiðslna með hverju barni, mismunandi eftir vistunartíma, og eins greiðslur vegna breytinga á húsi og kaupa á búnaði. Í samningnum eru hins vegar engar tölulegar upplýsingar um reksturinn sjálfan.

Hvítasunnusöfnuðurinn er ekki fyrirtæki sem stendur í samkeppni um rekstur leikskóla. Þannig geta upplýsingar um efni samningsins ekki valdið söfnuðinum tjóni á grundvelli viðskiptahagsmuna eða haft áhrif á rekstrar- eða samkeppnisstöðu hans í skilningi 5. gr. upplýsingalaga.

Í 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.

Í 1. gr. laga nr. 78/1994, um leikskóla, kemur fram að leikskóli er fyrsta skólastig í skólakerfinu. Samkvæmt 7. gr. laganna skal bygging og rekstur leikskóla vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og er rekstur annarra aðila háður samþykki viðkomandi sveitarstjórnar.

Samkvæmt þessu er rekstur leikskóla lögboðin þjónusta sem liður í skólakerfi landsins og sveitarstjórnum er skylt að annast. Þegar á þeim grundvelli er ekki fallist á með hinu kærða stjórnvaldi að fyrir hendi séu þeir hagsmunir sem 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er ætlað að verja.

Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga ber að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

Úrskurðarorð:
Vestmannaeyjabæ ber að veita kæranda aðgang að samningi milli Hvítasunnusafnaðarins í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyjabæjar 14. júní 1996.

Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta