Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 1997 Forsætisráðuneytið

21/1997 - Úrskurður frá 22. ágúst 1997 í málinu nr. A-21/1997

Hinn 22. ágúst 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-21/1997:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 29. júlí sl., kærði [...], f.h. [A], synjun Framkvæmdasýslu ríkisins, dagsetta 15. júlí sl., um að veita honum upplýsingar um það fyrir hve marga fermetra stofnunin greiddi vegna þriggja tiltekinna þátta í múrverki við [...]stöð ríkisins fyrir [...] samkvæmt verksamningi við fyrirtækið [B].

Með bréfi, dagsettu 1. ágúst sl., var kæran kynnt Framkvæmdasýslu ríkisins og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 12. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að upplýst yrði á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar hjá stofnuninni. Með bréfi, dagsettu 7. ágúst sl., var því ennfremur beint til stofnunarinnar að gefa viðsemjanda sínum, [B], kost á að koma að sjónarmiðum sínum í kærumáli þessu. Af því tilefni var frestur til að skila umsögnum um málið framlengdur til kl. 16.00 hinn 15. ágúst sl. Þann dag fóru [...], f.h. Framkvæmdasýslunnar, fram á að frestur þessi yrði framlengdur til 20. ágúst sl. og var við því orðið. Sama dag bárust umsagnir [...], f.h. Framkvæmdasýslu ríksins, dagsett samdægurs, og [...], f.h. [B], dagsett 19. ágúst sl.

Í fjarveru Elínar Hirst og Valtýs Sigurðssonar taka varamennirnir Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir sæti þeirra við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þess þau að kærandi, [A], var undirverktaki hjá aðalverktaka, [B], í múrverki fyrir aðalverkkaupa, Framkvæmdasýslu ríkisins, við [...]stöð ríkisins fyrir [...]. Með bréfi, dagsettu 26. júní sl., greindi umboðsmaður kæranda Framkvæmdasýslunni frá því að aðalverktakinn hefði ekki greitt umbjóðanda hans lokareikning vegna múrverksins vegna ágreinings um magntölur. Aðalverktaki bæri fyrir sig mælingu aðalverkkaupa, en hefði þó hvorki fengist til að leggja hana fram né uppgjör við aðalverkkaupa. Af þessum sökum fór hann þess á leit við stofnunina að umbjóðanda hans yrðu látnar í té upplýsingar um hve marga fermetra hún hefði greitt aðalverktakanum af eftirtöldu: "a) Bindineti - b) Múrhúðun, undirmúr M-140 - c) Slétthúðuðum flötum, semkís M-240". Jafnframt var frá því skýrt að kærandi hygðist nota þessar upplýsingar gagnvart [B] við uppgjör þeirra á milli og ef þörf krefði yrðu þær lagðar fram í dómsmáli sem höfðað kynni að verða til innheimtu á kröfu hans.

Umboðsmenn Framkvæmdasýslunnar, [...], synjuðu beiðni umboðsmanns kæranda með bréfi, dagsettu 15. júlí sl. Þar segir m.a.: "Þær upplýsingar sem umbj. y. hefur farið fram á að fá afhentar varða viðskiptaleyndarmál og viðskiptahagsmuni. Þá verður að telja að aðgangur almennings að upplýsingunum sé til þess fallinn að valda verkkaupa tjóni. Umbj. m. telur því að honum sé óheimilt að veita umbeðnar upplýsingar til almennings, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996."

Í umsögn umboðsmanna Framkvæmdasýslunnar til úrskurðarnefndar, dagsettri 20. ágúst sl., er síðastgreint sjónarmið áréttað. Síðan er sérstaklega bent á að "magntölur [séu] samningsatriði, sem falla undir viðskiptaleyndarmál. Því gefa þær vísbendingu um hvernig samninga og uppgjör viðsemjandi umbj. m. hefur gert og veita þannig upplýsingar um fjárhagsstöðu hans. Þannig varða upplýsingarnar einnig viðskiptahagsmuni hans." Ennfremur er að beiðni nefndarinnar greint frá því, að umbeðnar upplýsingar séu varðveittar í heildarmagnuppgjöri milli stofnunarinnar og aðalverktakans, þar sem einnig komi fram verð á hverri einingu.
Í umsögn umboðsmanns aðalverktakans, [B], dagsettri 19. ágúst sl., í tilefni af kærumáli þessu, kemur fram að umbjóðandi hans veiti ekki samþykki sitt til að Framkvæmdasýsla ríkisins veiti kæranda upplýsingar um uppgjör þeirra. Jafnframt greinir hann svo frá að umbjóðandi hans hafi talið "að búið væri að setja niður þann ágreining sem upp kom við lokauppgjör, eða a.m.k. að finna til þess leið sem báðir aðilar sættust á." Um þetta segir síðan í umsögninni: "Um mánaðamótin maí/júní s.l. náðu lögmenn aðila samkomulagi um að fela tilteknum tæknifræðingi í Reykjavík það hlutverk að mæla það magn sem ágreiningur stæði um við lokauppgjör. Jafnframt var fastmælum bundið að una niðurstöðu þeirrar mælingar, á hvorn veg sem hún yrði. Mælingin fór fram nokkru síðar, að viðstöddum [C] og starfsmanni [A]. Mælingunni hefur hins vegar ekki verið skilað." Þá greinir umboðsmaður aðalverktakans svo frá að við gerð verksamnings við kæranda hafi kærandi stuðst við verklýsingu Framkvæmdasýslunnar, þ.e. sömu verklýsingu og lá til grundvallar aðalverksamningi. Við lokaúttekt og uppgjör hafi orðið einhverjar breytingar á magntölum og hafi verið gert upp við undirverktaka, kæranda í máli þessu, samkvæmt því.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Enginn vafi leikur á því að upplýsingalög taka til Framkvæmdasýslu ríkisins, sbr. 1. gr. laganna.

Upplýsingar þær, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, tengjast ekki stjórnsýslumáli þar sem tekin er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir hins vegar svo um gildissvið þeirra laga: "Öfugt við stjórnsýslulög er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvers eðlis sú starfsemi er sem stjórnvöld hafa með höndum. Lögin taka því ekki einvörðungu til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna ... heldur og til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi." Samkvæmt þessu og með vísun til 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga taka lögin til aðgangs kæranda að hinum umbeðnu upplýsingum, eftir því sem við á, enda liggur fyrir að þær eru varðveittar í skjali eða sambærilegu gagni, sbr. 3. gr. laganna.

2.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga er sérstaklega tekið fram að aðili samkvæmt þessu ákvæði geti verið jafnt einstaklingur sem lögaðili. Þótt kærandi sé ekki aðili að verksamningnum milli Framkvæmdasýslu ríkisins og [B] verður samt sem áður, með hliðsjón af málsatvikum, að telja hann aðila máls í skilningi 1. mgr. 9. gr. þar eð hann hefur, að áliti úrskurðarnefndar, einstaklega og verulega hagsmuni af því að fá aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum. Þá verður, m.a. með vísun til meginmarkmiðs upplýsingalaga og athugasemda með frumvarpi til laganna, að skýra orðalagið "upplýsingar um hann sjálfan" svo rúmt að það taki til upplýsinga sem varða aðila máls sérstaklega. Í ljósi þess lítur úrskurðarnefnd svo á að beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um afmörkuð atriði í uppgjöri vegna verks, er hann vann sjálfur sem undirverktaki, falli undir III. kafla upplýsingalaga.

Samkvæmt framansögðu er 1. mgr. 9. gr. laganna mælt svo fyrir að skylt sé að veita aðila máls aðgang að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar er snerta hann sjálfan. Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum." Að áliti úrskurðarnefndar hefur hvorki Framkvæmdasýsla ríksins né [B] fært fyrir því haldbær rök að hagsmunir fyrirtækisins af því að halda hinum umbeðnu upplýsingum leyndum gagnvart kæranda vegi þyngra en hagsmunir hans af því að fá aðgang að þeim, þ. á m. verður ekki séð að lögvarðir hagsmunir fyrirtækisins geti skerst þótt kærandi fái umbeðnar upplýsingar. Vegna mótmæla [B] við því skal tekið fram að í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga segir berum orðum að yfirlýsing þess, sem á andstæðra hagsmuna að gæta, um að hann vilji ekki að upplýsingar, sem leitað er eftir skv. 9. gr. laganna, séu gefnar, sé ein og sér ekki nægileg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.

Með vísun til alls þess, sem hér hefur verið rakið, er það því niðurstaða úrskurðarnefndar að Framkvæmdasýslu ríkisins sé skylt að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum.



Úrskurðarorð:

Framkvæmdasýslu ríkisins er skylt að veita [umboðsmanni] kæranda, [...] f.h. [A], aðgang að upplýsingum um það fyrir hve marga fermetra stofnunin hafi greitt vegna þriggja þátta í múrverki við [...]stöð ríkisins fyrir [...] samkvæmt verksamningi við fyrirtækið [B], þ.e. af bindineti, múrhúðun (undirmúr M-140) og slétthúðuðum flötum (semkís M-240).

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta