Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 1997 Forsætisráðuneytið

19/1997 - Úrskurður frá 8. ágúst 1997 í málinu nr. A-19/1997

Hinn 8. ágúst 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-19/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 18. júlí sl., kærði [...], til heimilis að [...], synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsetta 3. júlí sl., á hluta af beiðni hans, dagsettri 12. júní sl., um upplýsingar "er varða útreikninga og vinnureglur sem notaðar eru við uppkvaðningu úrskurða um aukameðlagsgreiðslur". Nánar tiltekið fór kærandi fram á úrskurð vegna þess að ráðuneytið hefði ekki svarað þremur spurningum í fyrrgreindri beiðni hans. Með hliðsjón af skýringum kæranda í kærunni 18. júlí sl. og umsögn ráðuneytisins, sem gerð verður grein fyrir hér á eftir, verður að líta svo á að kærð sé synjun um að veita honum aðgang að (1) leiðbeiningum til sýslumanna "um hvernig taka skuli tillit til framfærslu annarra barna á framfæri meðlagsgreiðanda en þeirra, sem krafið er um aukameðlag með" og (2) útreikningum, sem svonefnd "viðmiðunargildi" eru byggð á, svo og nafn á þeirri stofnun sem þá gerði.

Með bréfi, dagsettu 18. júlí sl., var kæran kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir afgreiðslu sinni til kl. 16.00 hinn 5. ágúst sl. Jafnframt var ráðuneytið beðið um að upplýsa hvort þau gögn, sem kæran tók til, væru fyrir hendi og ef svo væri, var einnig farið fram á að nefndinni yrðu látin þau í té sem trúnaðarmál innan sama frests.
Umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsett 30. júlí sl., barst innan tilskilins frests ásamt eftirtöldum skjölum:

1. Reifun á áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 195/1989 um ákvörðun og endurskoðun meðlagsfjárhæðar (SUA 1990/108).

2. Útdrætti úr svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 31. maí 1990, til umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar um að ráðuneytið hefði ekki farið að lögum við ákvörðun um aukið meðlag.

3. Kafla III., 4.3.3., um fjárhæð meðlags á bls. 3-6 í handbók dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir sýslumenn um meðlagsmál.

4. Umburðarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 1. apríl 1997, til sýslumanna um viðmiðunartekjur til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna krafna um aukið meðlag með börnum.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum máls þessa eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 12. júní sl., til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins óskaði kærandi eftir tilteknum upplýsingum um ákvörðun aukameðlagsgreiðslna í sjö liðum með vísan til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Með bréfi til ráðuneytisstjóra ráðuneytisins, dagsettu 26. júní sl., ítrekaði kærandi fyrirspurn sína með vísan til 11. gr. upplýsingalaga.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði erindi kæranda með bréfi, dagsettu 3. júlí sl. Í svari þess kemur fram að ráðuneytið telji að ekki beri að leysa úr beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga þar eð hún lúti ekki að gögnum tiltekins máls í skilningi 1. mgr. 3. gr. laganna og feli að hluta í sér ósk um lögfræðilega álitsgerð. Bréfinu fylgdu þó tvö af framangreindum skjölum, auðkennd nr. 1 og 4, ásamt upplýsingum um að ákvarðanir sýslumanna og ráðuneytisins um aukið meðlag byggist á sömu sjónarmiðum og þar greini.

Kærandi taldi sem fyrr segir í kæru sinni til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. júlí sl., að ráðuneytið hefði ekki svarað þremur af eftirtöldum spurningum hans:

"Ef gert er ráð fyrir að sá einstaklingur sem krafinn er um aukameðlag eigi barn/börn með öðrum aðila en þeim er krefst aukameðlags. Hvernig er hækkun viðmiðunarmarka vegna framfærslu þess/þeirra reiknuð?"

"Upplýsingar [um] hvaða stofnun annaðist útreikninga viðmiðunargilda og hvaða grundvallarforsendur voru notaðar við útreikninga."

"Ljósrit af öllum útreikningum sem liggja til grundvallar ákvörðun viðmiðunargilda."

Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 30. júlí sl., er ítrekuð sú afstaða þess, að beiðni kæranda hafi ekki lotið að gögnum tiltekins máls, heldur því hvaða reglur og sjónarmið gildi við ákvarðanatöku í málum í tilteknum málaflokki. Ennfremur er m.a. svo að orði komist í umsögninni: "Ráðuneytið vill fyrst taka fram ... að við meðferð meðlagsmála í ráðuneytinu og hjá sýslumönnum hafa verið lagðar til grundvallar þær meginreglur og -sjónarmið, sem stuðst er við á Norðurlöndum við meðferð slíkra mála. Eru reglur þessar og sjónarmið lagðar til grundvallar eftir því sem tilefni er í hverju einstöku máli. Eru þau helstu reifuð í handbók, sem ráðuneytið hefur látið útbúa til leiðbeiningar fyrir sýslumenn, m.a. í meðlagsmálum ... Hvað varðar útreikninga viðmiðunarfjárhæða vill ráðuneytið taka fram, að á sínum tíma var tekið mið af fyrrgreindum reglum á Norðurlöndum. Grunnútreikningar og vinnugögn þeirra starfsmanna sem þá önnuðust, eru ekki lengur til staðar í ráðuneytinu. Á árinu 1992 voru viðmiðunarfjárhæðir þessar endurskoðaðar í óformlegri samvinnu við starfsmann Þjóðhagsstofnunar. Vinnugögn vegna þessa liggja ekki lengur fyrir í ráðuneytinu en viðmiðunarfjárhæðir ráðuneytisins eru á þeim byggðar og hafa árlega verið framreiknaðar með hliðsjón af vísitölu neysluverðs."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Fram er komið að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur þegar látið kæranda í té tvö af þeim fjórum skjölum, er fylgdu umsögn þess, þ.e. þau sem auðkennd eru nr. 1 og 4.

Skjöl þau, sem auðkennd eru nr. 2 og 3, hafa að áliti úrskurðarnefndar að geyma upplýsingar um þau kæruatriði sem til úrlausnar eru fyrir nefndinni og gerð er grein fyrir í kaflanum um kæruefni hér að framan. Í báðum tilvikum er um að ræða útdrætti, annars vegar úr svarbréfi ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis og hins vegar úr handbók ráðuneytisins fyrir sýslumenn. Af ítarlegri umsögn ráðuneytisins má ráða að í þessum útdráttum sé fjallað með almennum hætti um þau atriði, sem kæran lýtur að, og ekki séu til önnur gögn í vörslum ráðuneytisins er hafi að geyma upplýsingar um þau atriði.

2.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 3. tölul. 4. gr. laganna segir ennfremur að réttur almennings til aðgangs að gögnum nái ekki til "vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá".

Með hliðsjón af markmiði upplýsingalaga er það álit úrskurðarnefndar að skýra beri meginregluna í 1. mgr. 3. gr. laganna um upplýsingarétt almennings rúmt, meðan undantekningar frá reglunni skuli skýrðar þröngt. Upplýst er að í skjölum þeim, sem að framan greinir og auðkennd eru nr. 2 og 3, er að finna sjónarmið, sem notuð hafa verið við úrlausn á stjórnsýslumálum, auk þess sem fyrir liggur að þeirra upplýsinga verður ekki aflað annars staðar frá. Handbók dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir sýslumenn um meðlagsmál hefur að geyma almennar leiðbeiningar til þeirra hvernig leyst skuli úr slíkum málum. Samkvæmt framansögðu er eðlilegt að almenningur eigi aðgang að slíkum leiðbeiningum, án tillits til þess hvort þær hafi verið birtar opinberlega. Með vísun til alls þessa er ráðuneytinu skylt að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum sem auðkennd eru nr. 2 og 3.

Úrskurðarorð:
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu ber að veita kæranda, [...], aðgang að eftirgreindum skjölum:

Útdrætti úr svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 31. maí 1990, til umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar um að ráðuneytið hefði ekki farið að lögum við ákvörðun um aukið meðlag.

Kafla III., 4.3.3., um fjárhæð meðlags á bls. 3-6 í handbók dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir sýslumenn um meðlagsmál.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta