Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 1997 Forsætisráðuneytið

18/1997 - Úrskurður frá 8. ágúst 1997 í málinu nr. A-18/1997

Hinn 8. ágúst 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-18/1997:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 11. júlí sl., kærði [...], til heimilis að [...], synjun Vestmannaeyjabæjar, dagsetta 9. júlí sl., um að veita honum upplýsingar um eftirtalin atriði í beiðni hans, dagsettri 25. júní sl.: (1) Hvort [H]-söfnuðurinn hafi þegið greiðslu frá bæjarsjóði sem húsaleigu vegna tónlistarskóla og (2) hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs. Jafnframt kærði hann synjun bæjarins um að veita honum aðgang að "samningi þeim sem í gildi er um sorphirðu í bænum milli [G]-þjónustunnar og bæjarins." Í kærunni kemur og fram að bærinn hafi sent kæranda ársreikninga bæjarins fyrir árin 1991-1996 sem svar við fyrirspurn hans um það hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs. Af því tilefni óskar kærandi úrskurðar um hvort þetta teljist "frambærilegur framgangsmáti hjá stjórnvaldi, þegar óskað er tiltekinna upplýsinga".

Með bréfi, dagsettu 17. júlí sl., var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og bænum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 5. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál ljósrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Vestmannaeyjabæjar, dagsett 5. ágúst 1997, barst með símbréfi þann dag. Verksamningur um sorphreinsun í Vestmannaeyjum milli Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja og [G]-þjónustu Vestmannaeyja, dagsettur 30. janúar 1995, ásamt fylgiskjölum, var sendur með frumriti umsagnarinnar í pósti og barst samningurinn nefndinni hinn 7. ágúst sl.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til Vestmannaeyjabæjar, dagsettu 25. júní sl., óskaði kærandi m.a. eftir framangreindum upplýsingum með vísan til upplýsingalaga nr. 50/1996. Vestmannaeyjabær synjaði um þær með bréfi, dagsettu 9. júlí sl.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, dagsettri 5. ágúst sl., kemur m.a. fram að fyrirspurn kæranda um það hvort [H]-söfnuðurinn hafi þegið greiðslu frá bæjarsjóði sem húsaleigu vegna tónlistarskóla hafi ekki falið í sér beiðni um gögn. Vegna fyrirspurnar um það hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs er tekið fram að upplýsingar um það hafi ekki verið teknar saman eða kannaðar sérstaklega hjá bænum. Loks segir orðrétt um beiðni kæranda um aðgang að verksamningnum um sorphreinsun í bænum milli Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja og [G]-þjónustu Vestmannaeyja: "Með vísan til 5. gr. upplýsingalaga verður að telja samninginn varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins og ekki á færi Vestmannaeyjabæjar að afhenda slíka samninga."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í beiðni sinni fór kærandi m.a. fram á aðgang að upplýsingum um það hvort [H]-söfnuðurinn hefði þegið greiðslu frá bæjarsjóði sem húsaleigu vegna tónlistarskóla og hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs. Þannig tilgreinir kærandi ekki nein tiltekin gögn, sem hann óskar að kynna sér um umrædd atriði, eins og ráð er fyrir gert í 1. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Af þeirri ástæðu var Vestmannaeyjabæ ekki skylt að veita honum þessar umbeðnu upplýsingar á grundvelli laganna.

Í 14. gr. upplýsingalaga segir: "Heimilt er að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn." Þar eð úrskurðarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að bænum hafi ekki verið skylt að veita kæranda upplýsingar um það, hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs, fellur það utan valdssviðs nefndarinnar að fjalla frekar um viðbrögð bæjarins við þeirri beiðni.

2.
Vestmannaeyjabær hefur synjað kæranda um aðgang að verksamningnum um sorphreinsun í Vestmannaeyjum á þeirri forsendu að samningurinn varði "mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni" [G]-þjónustu Vestmannaeyja í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum, er fylgdu þessu ákvæði í frumvarpi til upplýsingalaga, segir m.a. að á grundvelli þess sé óheimilt að veita almenningi "upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni" fyrirtækja og annarra lögaðila.

Með hliðsjón af markmiði upplýsingalaga er það álit úrskurðarnefndar að skýra beri undantekningar frá meginreglunni í 1. mgr. 3. gr. laganna um upplýsingarétt almennings þröngt, þ. á m. regluna í niðurlagi 5. gr. laganna. Í umræddum verksamningi er ekki, að áliti nefndarinnar, að finna neinar þær upplýsingar um rekstur [G]-þjónustu Vestmannaeyja sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

Í 7. tölul. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir að meðal verkefna sveitarfélaga séu: "Hreinlætismál, þar á meðal sorphreinsun og sorpeyðing". Verktaki má vissulega búast við því að almenn vitneskja um umsamið endurgjald fyrir verk geti skaðað samkeppnisstöðu hans, t.d. vegna þess að aðrir aðilar geti gert lægri tilboð í verkið, að umsömdum verktíma loknum. Það sjónarmið, að upplýsingar um umsamið endurgjald skuli fara leynt af þessari ástæðu, verður þó að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, ekki síst þegar um er að ræða lögbundin verkefni sveitarfélags. Í því sambandi verður að líta til þess að verktakar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Með vísun til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar að veita beri kæranda aðgang að verksamningnum um sorphreinsun í Vestmannaeyjum milli Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja og [G]-þjónustu Vestmannaeyja, ásamt fylgiskjölum hans, þ.m.t. tilboðsblaði því sem vísað er til í 9. gr. samningsins.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja kæranda, [...], um upplýsingar um það hvort [H]-söfnuðurinn hafi þegið greiðslu frá bæjarsjóði sem húsaleigu vegna tónlistarskóla og hvenær hætt hafi verið að sérgreina sálfræði- og sérfræðiþjónustu í ársreikningum bæjarsjóðs.

Vestmannaeyjabæ er skylt að veita kæranda aðgang að verksamningi um sorphreinsun í Vestmannaeyjum milli Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja og [G]-þjónustu Vestmannaeyja, dagsettum 30. janúar 1995, ásamt fylgiskjölum hans, þ.m.t. tilboðsblaði því sem vísað er til í 9. gr. samningsins.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta