Fólki með þroskahömlun auðveldað að stunda háskólanám
Verkefni sem lúta að alþjóðlegri sókn og iðkun á þriðja hlutverki háskóla voru meðal þeirra verkefna sem fengu úthlutun úr Samstarfi háskóla á dögunum. Tæplega 1,6 milljarði króna var úthlutað til 35 fjölbreyttra verkefna sem skiptast í sex áhersluflokka sem allir hafa það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla.
Tvö verkefni sem falla undir alþjóðlega sókn háskóla hlutu úthlutun að þessu sinni fyrir samanlagt tólf milljónir króna. Verkefni sem snúa að iðkun þriðja hlutverks háskóla, svo sem með áherslu á lýðræðislega umræðu, íslenskunám og fjölbreytni nýnemahópsins, voru þrjú og hlutu 112 milljón króna úthlutun.
Alþjóðleg sókn: Háskólanet og forritunarkeppni
Rúmlega sjö milljónum króna var úthlutað til verkefnis um sókn og nýsköpun háskóla í evrópskum háskólanetum. Ætlun þess er að stofna samstarfsvettvang íslenskra háskóla sem eru í evrópskum háskólanetum; AURORA (HÍ), NeurotechEU (HR) og UNIgreen (LbHÍ). Markmiðið er að miðla upplýsingum um tækifæri og áskoranir háskólanetanna og tryggja samstillt samtal við stjórnvöld um þau með stuðningi frá Rannís. Samstarfsvettvangnum er ætlað að úthluta fjármagni vegna kennslu og námskeiðahalds hvers samtarfsskóla innan háskólanetanna sem ýtir undir alþjóðavæðingu náms og kennslu en fellur utan fjármögnunarlíkans háskóla.
Þá var tæplega fimm milljónum króna úthlutað til Forritunarkeppni Háskólanna á Íslandi, eða FKHÍ. Keppnin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um undirbúning og þátttöku nemenda í alþjóðlegu forritunarkeppninni ICPC. FKHÍ skipuleggur forritunarkeppnina á Íslandi og þátttöku í norrænu keppninni NCPC, sem norrænir háskólar nota til að velja þátttakendur í keppninni í Norður- og Vestur-Evrópu, NWERC. FKHÍ hefur það að markmiði að efla samvinnu og samkeppni meðal nemenda og háskóla á Íslandi.
Iðkun á þriðja hlutverki háskóla: Inngilding og bætt inntaka
Verkefni, hvers ætlun er að innleiða bestu starfsvenjur í tengslum við taugafjölbreytileika, hlaut rúmlega 48 milljón króna úthlutun úr Samstarfi háskóla að þessu sinni. Taugafjölbreytileiki lýsir breytileika í heilastarfsemi einstaklinga, þar á meðal ástandi eins og einhverfurófsröskun (ASD) eða lesblindu. Erfiðleikar nemenda með taugafjölbreytileika við að ná árangri í framhaldsnámi eru vel þekktir. Út frá fyrri vinnu við Háskólann í Reykjavík er ætlunin að vinna þetta verkefni í samstarfi við Háskólann á Akureyri með það að markmiði að bæta inntöku nemenda með taugafjölbreytileika í framhaldsnám á Íslandi, ásamt því að skilja betur hversu algengur taugafjölbreytileiki er meðal íslenskra nemenda.
Þá var rúmlega 48 milljónum úthlutað í verkefni sem miðar að inngildingu í íslensku háskólasamfélagi. Innflytjendur á Íslandi fara síður í háskólanám en önnur ungmenni, og þurfa að takast á við fleiri áskoranir. Verkefnið snýst um að þróa leiðir sem stuðla að aukinni inngildingu í háskólanámi, fjölga innflytjendum í háskólanámi og sporna við brottfalli þeirra. Það verði m.a. gert með útfærslu stuðningsúrræða, þjónustu og ráðgjöf, auk þess sem þróuð verður inngildingarstefna og móttökuáætlun, ásamt fræðslu og þjálfun starfsfólks. Verkefnið er samstarf opinberu háskólanna, sem Háskóli Íslands leiðir.
Fimmtán milljónum var að sama skapi úthlutað til samstarfsverkefnis Íslands, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands um inngildandi háskólanám fyrir fólk með þroskahömlun. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á það rétt á stuðningi til að stunda háskólanám enda eykur háskólanám möguleika fatlaðs fólks til atvinnu- og samfélagsþátttöku. Verkefnið styrkir háskóla með fjölbreyttari kennsluháttum fyrir alla háskólanemendur og verða útfæra leiðir til að greiða aðgengi fólks með þroskahömlun að fjölbreyttara námi, s.s. með fjarnámi.
--
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað fjármunum af safnlið háskólastigsins til samstarfsverkefna háskólanna með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Samstarf háskóla er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður hefur verið.
Sjá einnig: