Ýmsir möguleikar til að draga strax úr losun gróðurhúsalofttegunda
Unnt er að draga strax verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð og meðal möguleika til þess er að taka upp blöndun á eldsneyti með etanóli, lífolíu eða metanóli. Leggja þarf í ýmsar rannsóknir og skapa skattalegar forsendur til að ýta undir þessa þróun. Íslensk yfirvöld eru að kanna slíka möguleika.
Þetta var meðal þess sem fram kom í fyrirlestrum og umræðum á ráðstefnu um vistvæna orkugjafa framtíðarinnar og vistvænar lausnir í samgöngum sem fyrirtækið Framtíðarorka ehf. stóð fyrir. Innlendir og erlendir sérfræðingar fjölluðu um margs konar tilraunir og möguleika á öðrum orkugjöfum en bensín og olíu til að knýja ökutæki. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar og minnti meðal annars á að skammur tími væri til að finna nýja orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra minnti meðal annars í ávarpi sínu á þær lækkanir á gjöldum bíla sem ekki nota hefðbundna orkugjafa sem yfirvöld hefðu ákveðið til í því skyni að auka hlutdeild vistvænna bíla í íslenskum bílaflota. Einnig minntist hann á nefnd sem skipuð hefði verið til að leggja fram tillögur um skattlagningu bíla og eldsneytis. Markmiðið væri meðal annars að draga úr orkunotkun, minnka útblástur koltvíoxíðs og auka notkun innlendra orkugjafa.
Hér á eftir eru nefndir helstu orkugjafar sem rætt var um á ráðstefnunni og hvaða möguleikar felast í hverjum fyrir sig:
Etanól
E10 til E85 blanda á móti bensíni. Hentar í þynnstu blöndunni í flesta bíla og með notkun þess dregur því strax nokkuð úr notkun jarðefnaeldsneytis. Séu sterkari blöndur notaðar þarf að útbúa bílana sérstaklega. Innflutningur gæti hafist fljótlega.
Lífolía
L10-L100 til blöndunar við díselolíu og hentar flestum díselbílum. Á sama hátt og með etanól dregur strax nokkuð úr notkun jarðefnaeldsneytis og unnt er að hefja innflutning fljótlega.
Tvinnbílar
Hlaða við hemlum og akstur niður brekkur. Hefðbundin vél tekur við þegar hleðslan er á þrotun. Draga verulega úr notkun hefðbundins eldneytis og eru þessir bílar þegar á markaði hérlendis.
Tengiltvinnbílar
Komast 50 til 60 km á hleðslu sem dugar flesta daga í innanbæjarferðir. Hefðbundin vél tekur við þegar rafmagn er búið. Rafgeymar hlaðnir að næturlagi þegar álag er minnst á raforkukerfið. Dregur um 80% úr notkun hefðbundins eldsneytis. Fyrsti tengiltvinnbíllinn kominn í gagnið á vegum Orkustofnunar.
Rafbílar
Þrátt fyrir áratugalangar tilraunir er enn nokkuð í land með nógu stórar og öflugar rafhlöður. Gefur bestu orkunýtinguna. Rafbílar hafa verið í notkun hérlendis í tilraunaskyni.
Metanbílar
Metan er unnið úr sorphaugum en einnig má vinna það úr öðrum lífrænum efnum. Hægt að nota sem tvinnbíla með öðru. Sjálfsagt er að nýta þessa leið meira strax til dæmis hjá almenningsvögnum á höfuðborgarsvæðinu.
Metanólbílar
Í fljótandi formi auðvelt í flutningi og geymslu. Hægt að vinna koltvíoxíð úr útblæstri frá iðnverum. Hægt að blanda allt að 85% í bensín en nauðsynlegt er að sérhanna eldsneytisbúnað í bíla vegna tæringarhættu.
Vetnisbílar
Erfitt í flutningi og geymslu og orkunýting er léleg.
Í þessari upptalningu er ekki fjallað um verð. Ljóst er að leiðirnar eru mismunandi hagkvæmar og mikil áhrif hefur hvernig farið er með skattlagningu bíla sem nýtt geta vistvæna orkugjafa og hvernig slíkt eldsneyti er skattlagt. Nefnd fjármálaráðherra hefur þegar markað þá stefnu að gjaldtaka verði tengd útblæstri. Hvatinn verða einkum sparneytnir bílar og bílar sem nota vistvænt eldsneyti.
Það sem telja má áhugaverðast fyrir íslenskar aðstæður er blöndun entanóls eða lífolíu við hefðbundið eldsneyti. Með því verður unnt að draga strax verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem unnt er að fara þessar leiðir nánast nú þegar. Aðrir áhugaverðir kostir eru einkum tvinnbílar sem þegar eru á markaði og tengiltvinnbílar sem stutt er í. Þá verður einnig áhugavert að prófa áfram rafbíla.
Skattaívilnun og hugarfarsbreyting
Gera má ráð fyrir að það sem auka muni notkun vistvæns eldneytis sé annars vegar skattaívilnanir og hins vegar hugarfarsbreyting og það viðhorf að hver og einn bíleigandi geti lagt sitt að mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Snýst það bæði um notkun á vistvænu eldsneyti þegar þeir möguleikar gefast og hreinlega að aka minna. Nota LEG-aðferðina sem sænski sendiherrann benti á í ávarpi sínu á ráðstefnunni - á ensku - ,,leg" (fætur) -orkuna sem snýst um það að ganga meira.
Fyrirtækið Framtíðarorka ehf. stóð fyrir ráðstefnunni með stuðningi ýmissa aðila. Ráðstefnan var liður í samgönguviku sem lauk um helgina. Auk Framtíðarorku stóðu að ráðstefnunni Reykjavíkurborg, Landsbankinn, Icelandair, Brimborg, Orkustofnun, sænska sendiráðið, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Olís, Orkuveita Reykjavíkur, Viðskiptablaðið, Viðskiptaráð Íslands, iðnaðarráðuneytið, umhverfisráðuneytið og samgönguráðuneytið.