Hoppa yfir valmynd
4. október 2007 Innviðaráðuneytið

Mikill vöxtur í flugi og skortur á hæfu fólki gætu haft áhrif á öryggi

Það sem ógnar flugöryggi í dag er meðal annars hraður vöxtur í flugi, flugmannaskortur sem fyrirsjáanlegur er í öllum heimshlutum og lítill pólitískur vilji í sumum heimshlutum til að takast á við þennan vanda.


Frá alþjóðlegri flugöryggisráðstefnu.
Frá alþjóðlegri ráðstefnu um flugöryggi. Þorgeir Haraldsson virðir fyrir sér bás Boeing.

Þetta er meðal þess sem fram kom í ávarpi William R. Voss, framkvæmdastjóra Flight Safety Foundation, á alþjóðlegri flugöryggisráðstefnu sem staðið hefur yfir í Kóreu og lýkur í dag. Voss segir að tilfinnanlegur skortur sé á flugmönnum og tæknimönnum í Asíu og Afríku og sama sé að verða uppi á teningnum víða í austurhluta Evrópu, Rússlandi og Miðausturlöndum. Ef ekki verði tekið á þeim vanda sé ljóst að aukin áhætta skapist í flugi.

Misjöfn staða eftir heimshlutum

Voss sagði jafnframt að í Evrópu og Bandaríkjunum gengju menn að flugöryggi sem vísu en staðan væri mjög misjöfn eftir heimsálfum. Alls staðar yrðu öryggismál þó að hafa forgang og vissar áhyggjur væru vegna lággjaldaflugfélaga í sumum heimshlutum sem væru kannski ekki nógu öflug á þessum sviðum. Framundan væri að koma á svonefndu öryggisstjórnunarkerfi í flugi og hefðu mörg flugfélög og flugvallarekendur tekið upp slíkt kerfi. Næsta skref væri að yfirvöld gerðu flugheiminum skylt að taka þau upp, sá tími væri liðinn að við yrðum að upplifa slys og mannskaða til að taka upp auknar forvarnir. Í þessu sambandi minntist Voss einnig á það sem FSF hefði lengi talað fyrir, að upplýsingar um flugatvik og annað sem tengist flugslysarannsóknum mættu ekki leiða til lögsóknar eins og dæmi væru um.

Í lok ræðu sinnar sagði Voss að vaxandi áhyggjur væru vegna hugsanlegrar hættu á árekstrum í lofti og ljóst væri einnig að sú endurnýjun á flugstjórnarkerfum beggja vegna Atlantshafsins sem framundan væri gæti haft áhættu í för með sér ef ekki tekst að samræma kerfin.

Þorgeir Haraldsson, yfirflugstjóri Icelandair, sem sæti á í einni ráðgjafanefnd FSF, segir að á fundi nefndarinnar hafi Voss tekið enn sterkar til orða varðandi skort á flugmönnum og vanda vegna lággjaldaflugfélaga víða um heim. Þorgeir segir að þrátt fyrir vöxt í íslenskri flugstarfsemi hafi ekki verið skortur á flugmönnum hjá Icelandair. Hann segir að flugmönnum félagsins hafi fjölgað mjög síðustu árin vegna aukins áætlunarflugs og síaukinna leiguflugsverkefna og meðalaldur við ráðningu hefði lækkað. Síðustu árin hafi verið sífellt erfiðara að ráða flugmenn með reynslu. Lítil reynsla nýliða og hraður uppgangur leiði óhjákvæmilega af sér reynsluminni flugstjóra. Vegna síaukinna verkefna félagsins, sem meðal annars eru í fjarlægum heimsálfum, segir hann brýnt að félagið hafi yfir að ráða breiðum hópi flugmanna með fjölþætta reynslu sem séu undir það búnir að starfa í alþjóðlegu umhverfi og að þeir séu sem hæfastir til að takast á við krefjandi verkefni á fjarlægum slóðum.

Innanlandsflug ómetanlegur skóli

Innanlandsflugið hefur að mati Þorgeirs verið ómetanleg uppeldisstöð og góður skóli fyrir verðandi þotuflugmenn og vonar hann að með aukinni grósku þar verði aftur hægt að búast við góðum umsækjendum þaðan. Hann segir að Icelandair hafi síðustu misserin ráðið hærra hlutfall eldri flugmanna frá öðrum félögum án þess að hvikað sé frá kröfum um hæfnispróf þrátt fyrir að þeir hafi reynslu af þotuflugi. Þorgeir gerir ráð fyrir að Icelandair muni á næstu árum ráða nokkra flugmenn á ári hverju en það muni þó markast af verkefnastöðunni hverju sinni sem sveiflast mjög milli árstíma. Því hafi stundum orðið að segja nokkrum flugmönnum upp að hausti og ráða aftur að vori en oft hafi þessar uppsagnir hins vegar ekki komið til framkvæmda ef ný verkefni hafa komið til sögunnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta